Fjölnotaþjarkinn Apollo væntanlegur á markað 2025 til að „tækla skort á vinnuafli“

Fyrirtækið Apptronik afhjúpaði í síðustu viku nýjan þjarka í mannsmynd, undir heitinu Apollo. Hann er ólíkur öðrum þeim sem hafa verið í prófun til þessa að því leyti að fyrirtækið þróaði hann ekki aðeins til að reyna á getu tækninnar heldur með fjöldaframleiðslu í huga, og vonast til að setja þjarkann á markað í síðasta lagi árið 2025.

Fyrsti ávinningurinn sem nefndur er í upptalningu á kynningarsíðu fyrirtækisins er „Tackle Labor Shortages“ – að tækla skort á vinnuafli: „Vinnumarkaðurinn heldur áfram að versna“ segir þar, og er þá væntanlega átt við frá sjónarhóli rekstraraðila, enda hefur verið skortur á vinnuafli víða undanfarin ár. „Apollo getur fyllt upp í og gert mannfólki kleift að taka að sér störf sem krefjast meiri hæfni.“ Það er að segja: gert er ráð fyrir að þjarkinn leysi láglaunafólk af hólmi. Einn helsti kostur þjarka, frá sjónarhóli atvinnurekenda, er auðvitað að þeim þarf ekki að greiða laun.

iPhone þjarkanna, segir forstjórinn

Apollo er 72 kg að þyngd, 1,72 m á hæð, og getur borið allt að 25 kg í einu. Fullhlaðinn er hann sagður endast í um fjórar klukkustundir við störf, en auðvelta er að skipta um rafhlöður til að ekki þurfi að verða hlé á verkum þegar þjarkann þrýtur orku.

Fjöldi þjarka starfar vitaskuld þegar í verksmiðjum og vöruhúsum heimsins. Flestir eru þeir aftur á móti sérhæfðir og sérsmíðaðir til tiltekinna verka. Fjölhæfum þjörkum í mannsmynd er ætlað víðtækara hlutverk. Í samtali við fréttastofu CNET sagði Jeff Cardenas fyrr á árinu: „Við höfum hannað allan heiminn fyrir mannsformið. Að hafa þjarka sem tekur sama pláss og fólk og getur notað tækin sem við notum og passað í sömu rými er ótrúlega gagnlegt.“

Fyrsta notagildið sem fyrirtækið nefnir í kynningu á Apollo þjarkanum er við störf í vöruhúsum og við færibandaframleiðslu, en um leið er sagt að gert sé ráð fyrir að til lengri tíma litið verði hægt að þjálfa þjarkann á fjölmörgum öðrum sviðum, til að mynda til afgreiðslu- og umönnunarstarfa. Haft hefur verið eftir forstjóra fyrirtækisins að best væri að hugsa um Apollo sem iPhone þjarkanna: „einn róbót sem getur gert þúsund ólíka hluti.“

Draumurinn um að leysa verkafólk af hólmi – með opinberum stuðningi

Samhliða þróun gervigreindar keppast nú ýmis fyrirtæki um að verða fyrst á markað með fjölnota-róbóta í mannsmynd, sem hugmyndin er að geti gengið til fjölda þeirra verka sem hingað til hafa verið sérsvið mannfólks, hvort sem er innan heimila eða á vinnustöðum. Að herir heims binda líka vonir við slíka þróun segir sig sjálft.

Apptronik var stofnað árið 2016. Fyrirtækið bindur vonir við að Apollo-þjarkinn verði sá fyrsti sinnar gerðar á markað. Eins og oft vill vera í tæknigeiranum fór þróun hans fram með veglegum stuðningi hins opinbera: fyrirtækið átti samstarf við bandarísku geimferðastofnunina NASA um þróun þjarkans, en NASA bindur vonir við að tækni af þessum toga geti í framtíðinni nýst við uppbyggingu innviða á slóðum þar sem mannfólk þrífst illa, það er á tunglinu, fyrst um sinn, og síðar meir á Mars.

Stóri, rauði takkinn

Ljóst er að miklu fjármagni er nú veitt í þróun tækni sem þessarar, lausna sem vonast er til að geti leyst mannfólk af hólmi í fjölda starfa. Ljóst þykir að bæði vitvélar og þjarkar muni fela í sér miklar áskoranir, enda hefur enn ekki reynt á það í samfélögum heims hvernig gæðum jarðar verður útdeilt með því sem er spáð að verði minnkandi þörf á mannlegu vinnuafli.

Undanliðin misseri hefur fjöldi sérfræðinga á sviðinu ennfremur varað við hættunni á því að vitvélar, það er gervigreind og hvaða tækjabúnaður sem hún hefur aðgang að, geti reynst hættulegar mannfólki, hvort sem er með því að óhlýðnast fyrirmælum eða hlýða vondum fyrirmælum. Til að tryggja að mannfólk hafi stjórn á Apollo þjarkanum er hann, í núverandi mynd, búinn stórum neyðarrofa á bakinu, sem hann hvorki sér né nær til sjálfur, þar sem slökkva má á honum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí