Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir að svo virðist sem fólk sem hefur farið í svokallaðar efnaskiptaaðgerðir, svo sem magaermi og hjáveituaðgerð, sé í sérstakri hættu við að verða alkóhólistar. Hún segist hafa tekið eftir því að það sé furðu algengt að fólk sem hefur farið í slíka aðgerð missi stjórn á drykkjunni.
„Við höfum tekið eftir því undanfarin ár að það eru oft einstaklingar sem koma í meðferð sem hafa misst tökin eftir að hafa farið í efnaskiptaaðgerð. Það kemur frekar fljótt, innan við ári frá aðgerð. Þetta er fólk sem er farið að missa tök á drykkju sem það hafði kannski ekki vanda af áður, eða minni vanda af áður,“ segir Valgerður í samtali við RÚV.
Aðgerðir sem þessar eru bæði framkvæmdar á Landspítalanum og hjá einkafyrirtækinu umdeilda Klíníkinni í Ármúla. Fjöldi slíkra aðgerða hefur rokið upp á síðustu árum og voru um þúsund í fyrra miðað við einungis um 200 árið 2018.
Valgerður segir að ástæðan fyrir því að fólk sem fer í þessar aðgerðir sé í sérstakri hættu fyrir alkóhólisma geti verið margar. „Það er ekki bara eitthvað eitt. En eitt af því er að það er verið að breyta meltingarveginum sem hefur þá áhrif á hvernig efnið frásogast frá meltingaveginum og inn í líkamann sjálfan inn í blóðið. Hversu hratt það gerist og hvaða áhrif það hefur á heilann.“