Á laugardag birti Viðskiptablaðið grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, þar sem hann spáir því að herða muni að heimilum landsins á næstu árum fyrst ekki hafi verið hlusta á hann og aðra talsmenn þessa að raforkuvirkjunum landsins verði fjölgað. Eftirspurn eftir raforku fer vaxandi, segir hann, um leið og stjórnvöld hafi sett sér þau markmið um orkuskipti að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árslok 2040, sem muni kalla á aukna raforku.
Þá segir Hörður að þegar hafi verið samið við fyrirtæki um forgangsaðgang að meiri raforku en nú er framleidd í landinu: „Það verður einfaldlega ekki hægt að anna afhendingu á forgangsorku á næstu árum án frekari orkuöflunar. Það þýðir að aðilar munu ekki fá raforku til starfsemi sem þegar hefur verið byggð á Íslandi, hvað þá að hægt verði að bæta þar við.“ Ekki kemur fram í greininni hverjir bera ábyrgð á því, ef rétt er, að hafa selt vöru sem ekki er til.
Megininntak greinarinnar er þó á hverjum raforkuskorturinn sem Hörður segir nú yfirvofandi muni bitna. Hann mun ekki aðallega bitna, að sögn Harðar, á þeim fyrirtækjum sem hafa samið um kaup á orku sem enginn framleiðir, þeim sem bíða eftir að gera fleiri slíka samninga, stóriðju eða gagnaverum, heldur mun orkuskorturinn bitna á heimilum landsins og smærri fyrirtækjum, sem má skilja á greininni að muni standa frammi fyrir samkeppni við fyrrnefnda aðila og þá jafnvel mæta afgangi. Það er að segja, það verða ekki álverin eða gagnaverin sem lenda í vandræðum – heldur þú.
Löggjafinn hefur ekki tryggt almenningi forgang
Nú gæti þetta hljómað eins og hótun, og það væri ekki langsótt að túlka greinina sem svo, í krafti þess hvaðan hún kemur: ef við fáum ekki að leggja meira land undir virkjanir munum við gera ykkur, almenningi, lífið leitt. En Hörður og Landsvirkjun eru þó ekki einráð um þessa stöðu, heldur virðist hún að verulegu leyti hönnuð af löggjafanum.
Í vor sem leið vakti Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, athygli á því að lög tryggðu ekki rétt almennings á Íslandi til kaupa eða forgangskaupa á raforku. Í umfjöllun RÚV um málið mátti lesa að fram til ársins 2003 hafi sú skylda hvílt á Landsvirkjun að tryggja orku fyrir heimili og hefðbundin eða meðalstór fyrirtæki. Sú skylda hafi hins vegar fallið úr gildi það ár. „Við lagabreytingar þá var hún tekin af og ekki útfærð nánar í lögum,“ sagði Halla.
Hörður vísar til þess sama í grein sinni og bendir á að Landsvirkjun hafi áður fyrr borið ábyrgð á að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum aðgang að raforku. „Eftir að ný raforkulög tóku gildi var fyrirtækinu gert það ókleift því lög heimiluðu ekki þá upplýsingasöfnun sem fylgdi því. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á raforkuöryggi en samt er enn ekkert sem tryggir heimilunum forgang.“
Forstjórinn segir að Landsvirkjun hafi forgangsraðað orkusölu fyrirtækisins í þágu heimila og smærri fyrirtækja, en það hrökkvi þó skammt, því ekkert skyldi önnur orkufyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Hann nefnir til dæmis að Landsvirkjun hafi nú ákveðið að endurnýja ekki samninga um forgangsorku við fyrirtæki sem stunda svokallaðan námugröft eftir rafmyntum. Það útiloki ekki að önnur orkufyrirtæki veiti slíkum fyrirtækjum forgang yfir heimili og hefðbundinn rekstur. „Ef þau ákveða að fara að selja nýjum stórnotendum og draga úr framboði til heimila og lítilla fyrirtækja getur Landsvirkjun ekki snögglega aukið framboðið á heildsölumarkaði.“
Að heimilin muni sitja í súpunni
Hörður segir því áríðandi að stjórnvöld ljúki sem fyrst því verkefni að tryggja orkuöryggi heimila og lítilla fyrirtækja „því á meðan heimilum og litlum fyrirtækjum er ekki tryggður forgangur að orku, er hættan sú að þau sitji í súpunni þegar ekki verður lengur nægt framboð af henni.“
Í niðurlagi greinarinnar telur Hörður upp fjórar yfirvofandi virkjanaframkvæmdir: það eru Hvammsvirkjun, fyrir neðan Búrfellsvirkjun, fyrirhugað vindorkuver við Búrfellslund, auk stækkunar á Þeistareykjavirkjun og Sigölduvirkjun. Að upptalningunni lokinni segir Hörður – og meinar það sjálfsagt sem aðvörun frekar en hótun: „Staðan í samfélaginu verður flókin þegar verður að taka ákvarðanir um að hægja á uppbyggingu.“