Síðastliðið vor birti tímaritið Scientific American skoðanagrein sem var rituð af tveimur verkfræðingum og einum lækni, undir fyrirsögninni „Masks Work. Distorting Science to Dispute the Evidence Doesn’t“ eða: Grímur virka: að snúa út úr vísindum til að grafa undan sönnununum gerir það ekki. Þar svara þeir bábiljum sem þeir segja hafa komist á kreik í Covid-faraldrinum, um að grímur veiti ekki vörn gegn veirusmiti.
Nú þegar sameiginlegar sóttvarnir hafa verið felldar niður á Íslandi eins og víðast hvar, smitum fjölgar enn á ný, fólk í áhættuhópum er enn í hættu en hver er sjálfum sér næstur um varnir, þá virðist ekki úr vegi að gefa þessum einstaklingsbundnu sóttvörnum gaum, sem embætti sóttvarnalæknis mælir enda með „í ákveðnum kringumstæðum“.
Mishermt um niðurstöður rannsókna
„Grímur virka. Sérstaklega grímur af gerðinni N95.“ Á þeim orðum hefst greinin í Scientific American, en N95-grímur í Bandaríkjunum samsvara þeim sem hér í Evrópu nefnast FFP2 og eru víða fáanlegar. Báðar merkingar grundvallast á opinberum stöðlum um síun og þéttleika.
„Í viðvarandi heimsfaraldri, samhliða smærri faröldrum inflúensu og RSV, sem valdið er af veirum er berast í andrúmslofti, eru þrætur um hvort grímur megna að hindra veirur ein af einkennandi bilunum Covid-tímabilsins,“ skrifa höfundarnir. „Það veldur áhyggjum að þrátt fyrir að gögn hafi safnast áratugum saman um notagildi þeirra, berst ósættið meðal annars úr hópi lækna, sem misbeita vísindum og stefna lífum í hættu.“
Höfundarnir vísa til rannsóknar sem gerð var af bresku Cochrane-stofnuninni og kynnt í fjölmiðlum með þeim orðum helsta höfundar hennar að „Engin sönnun liggi fyrir um að grímur geri gagn“. Aðalritstjóri útgáfunnar Cochrane Library gaf út óvenjusterka avðfinnslu í kjölfarið, að sögn höfundanna, þar sem hann sagði þessar yfirlýsingar ekki samræmast því sem rannsóknin hefði leitt í ljós.
Þetta var ekki einsdæmi, segja höfundar greinarinnar. Fleiri nýleg dæmi séu um að rannsóknir af þeim toga sem á íslensku nefnast slembaðar samanburðarrannsóknir eða slembirannsóknir (á ensku „randomized controlled trial“, RCT) séu kynntar þannig til sögunnar að þær sýni að grímur séu gagnslausar.
„Ver þetta bílbelti mig fyrir því að fljúga gegnum gluggann ef ég lendi í slysi?“
Höfundar greinarinnar segja aftur á móti að hefðbundnar læknisfræðilegar slembirannsóknir eigi ekki við í þessu tilfelli, enda sé um verkfræðilegt viðfangsefni sé að ræða. „Við reiðum okkur ekki á slíkar samanburðarrannsóknir fyrir sætisbelti, reiðhjólahjálma eða björgunarvesti, og slembaða samanburðarrannsóknin um fallhlífar er gamall brandari sem enn heyrist. Hvers vegna er hann svona fyndinn? Hvað vita verkfræðingar sem læknar vita ekki?“
Á mörgum sviðum vísinda eru slembirannsóknir jafn lítið við hæfi, segja þeir, og að beita skurðhníf til að slá grasflötina sína. „Ef eitthvað er hægt að mæla beint og nákvæmlega, og gera af því nákvæmt líkan, þá er engin þörf fyrir flóknar, óskilvirkar athuganir sem stefna þátttakendum í hættu. Verkfræði, sem fæst kannski meira við „alvöru heiminn“ en nokkur önnur faggrein, beitir ekki slembirannsóknum. Hin nauðsynlega þekking fagsins er vel þekkt. Allt frá hraðbrautum til loftræstinga – hvað sem færir okkur um, hreinsar loft okkar og vatn og setur gervihnetti á sporbaug – heppnast án þess að þurfa á slembirannsóknum að halda. Það á líka við um fjölda lækningatækja. Þegar eitthvað brestur, til dæmis í flugslysi eða þegar brýr hrynja, er gengist við biluninni og hún tekin til kerfisbundinnar athugunar til að ganga úr skugga um að hún endurtaki sig ekki. Andstæðan við vöntunina á því að athygli sé beint að brestum á sviði lýðheilsu er hrópandi.“
„Ver gríma mig fyrir veirum í loftúða?“ eða „Ver þetta bílbelti mig fyrir því að fljúga gegnum gluggann ef ég lendi í slysi?“ eru annars konar spurningar en „Dregur aspirín úr dauðsföllum vegna hjartaáfalla?“ … Eins og með bílbelti, þá skiptir máli hvort fólk beitir grímum rétt en engin slembirannsókn myndi komast að þeirri niðurstöðu að beltin „virki ekki“. Slík rannsókn væri í besta falli afar óskilvirk leið til að meta tilteknar leiðbeiningar og hvata til að fá fólk til að nota þau með viðunandi hætti.“
Ekki of seint að gera betur
Tæknin að baki verndun öndunarfæra hefur verið staðfest áratugum saman og leitt til staðla um varnir gegn veirum og bakteríum, segja höfundarnir og benda á starfssvið þar sem fólk reiðir sig á nytsemi slíks hlífðarbúnaðar: „Námustörf, líffræðilegar og læknisfræðilegar rannsóknir, efnafræðileg ferli, lyfjaframleiðsla og fjöldi annars iðnaðar fylgir þessum lögum og stöðlum um allan heim. Ýkjulaust þá treysta milljónir manna vísindunum að baki öndunargrímum fyrir lífi sínu, án þess að þarfnast til þess slembirannsókna.“
„Það vekur því miklar áhyggjur að fólk sem stendur framarlega á vettvangi heilbrigðismála skuli bera fram rangfærslur um þær varnir sem grímur veita, þegar sannanir liggja fyrir um gildi N95-öndunargríma“.
Höfundarnir ljúka greininni með þeim orðum að um þær mundir sé útlit fyrir að stefnumótendum hafi mistekist að draga lærdóm af því er fyrst varð vart við SARS veirur, SARS 1, árið 2003: „að nýr smitsjúkdómur krefst varúðarnálgunar sem inniheldur varnir öndunarfæra þar til annað kemur í ljós. Nú að milljónum látnum og í ljósi þess mikla – og enn vaxandi – persónulega og efnahagslega skaða sem long Covid veldur, þá myndi það að aðlagast ekki halda áfram að gera gríðarlegt tjón. Það er ekki of seint að gera betur.“
Áhættuhópar vegna Covid-19
Meðal áhættuhópa í gildandi leiðbeiningum sóttvarnalæknis á Íslandi eru sagðir aldraðir, barnshafandi konur, fólk með fíknsjúkdóma, geðraskanir, hjartasjúkdóma, krabbamein, langvinna lifrarsjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, langvinna vöðva- og taugasjúkdóma, offitu, ónæmisbælingu, gigtar- og sjálfsónæmissjúkdóma, líffæraþegar, fólk með meðfædda ónæmisgalla, skerta nýrnastarfsemi eða sykursýki, ásamt börnum með langvinna lungnasjúkdóma, alvarlega hjartasjúkdóma, eða langvinna taugasjúkdóma. Sóttvarnalæknir hefur nú hvatt þessa hópa til nýrra bólusetninga í haust.
Eins og tíðkast um skoðanagreinar merkir Scientific American þá sem hér er til umfjöllunar með þeim fyrirvara að hún endurspegli ekki nauðsynlega viðhorf ritstjórnar. Sama ber að hafa í huga um endursögn greinarinnar hér: umfjöllunin þýðir ekki að greinin sem fjallað er um endurspegli nauðsynlega viðhorf ritstjórnar. Þaðan af síður felur hún í sér læknisfræðilegar ráðleggingar.