Nú á mánudaginn tilkynnti heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna (US Department of Health and Human Services eða HHS) um stofnun sem sett hefur verið á laggirnar til að leiða viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum við þeim fjölþættu eftirköstum Covid 19-sýkinga sem sjúklingar hafa einu nafni nefnt „long Covid“. Í frétt CNN um málið er sagt talið að 23 milljónir manna hafi orðið fyrir barðinu á langakófi þar í landi.
Um leið tilkynnti ráðuneytið að rúmum milljarði dala yrði úthlutað til rannsóknarverkefnisins RECOVER, sem hleypt var af stokkunum árið 2021 af NIH (National Institutes of Health), sem helst samsvarar embætti Landlæknis á Íslandi. Verkefninu er ætlað að efla skilning, meðferðir og forvarnir gegn long Covid.
Tilkynningin berst skömmu eftir að ítarleg umfjöllun í tímaritinu Nature tók saman helstu rannsóknir um viðfangsefnið til þessa. Í greininni er meðal annars vísað til rannsókna sem fundu skemmdir á líffærum í 60-70% þeirra sjúklinga sem áttu við langvarandi einkenni að stríða, án þess þó að hafa veikst alvarlega í fyrstu. Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar, í lauslegri þýðingu:
„Byrðin sem fyrirsjáanlegt er að long Covid leggi á sjúklinga, heilbrigðiskerfi, stjórnvöld og hagkerfi, er svo mikil að hún er óhugsandi, sem er mögulega ástæða þess að afar litlar ráðstafanir hafa verið gerðar gegn henni á æðstu stjórnstigum. Ef 10% bráðasýkinga leiða til langvarandi einkenna má ætla að 400 milljón manns í heiminum þarfnist stuðnings vegna long Covid.“