Hálf milljón undirskrifta gegn „villimannslegum“ hvalveiðum Íslendinga

Yfir hálf milljón undirskrifta hefur nú safnast við kröfugerð sem samtökin Hvalavinir stofnuðu til á vefum change.org síðastliðið vor. Listinn var afhentur íslenskum stjórnvöldum í júní, þegar 360 þúsund undirskriftir höfðu safnast, og hafa yfir 150 þúsund bæst við síðan þá.

Svo virðist vera sem kröfugerðin hafi vakið athygli á nýjan leik í undanliðinni viku, þegar fjöldi undirskrifta fór yfir hálma milljón. Yfir 13 þúsund undirskriftir söfnuðust á einum degi á föstudag.

Á meðan þessi frétt var rituð fjölgaði undirskriftunum úr um 513 þúsund í yfir 514 þúsund.

Í kröfugerð samtakanna er vísað til skýrslu MAST sem kom út í maí á þessu ári, sem ásamt tengdum myndböndum gerði almenningi ljósar þær kvalir sem hvalir líða stundum við veiðarnar, „að veiðiaðferðir Hvals hf. leiði til hryllilegra og langdreginna dauðastríða hvala“, með orðum Hvalavina, sem segja aðferðirnar „stríða gegn lögum um velferð dýra svo ekki verði um villst“.

Síðan þá, eftir að matvælaráðherra setti tímabundið bann við hvalveiðum, hefur nú komið út önnur skýrsla, sem ráðgjafafyrirtækið Intellecon vann að beiðni ráðuneytisins, um hagræn áhrif hvalveiða. Í niðurstöðukafla skýrslunnar má lesa að bein efnahagsleg áhrif hvalveiða á Íslandi séu „ekki mikil í þjóðhagslegu samhengi“ og ekki verði séð að hvalveiðar hafi verið „arðbær atvinnugrein á síðustu árum“, þó svo að þær séu „mikilvægar fyrir þá einstaklinga sem starfa í greininni á vertíðinni“ og ætla megi að „verði fyrir töluverðu tekjutapi þurfi þeir að vinna við önnur störf í stað hvalveiða og vinnslu“ enda séu laun fyrir hverrar vertíðar há.

Ljósmynd frá vertíð í Hvalfirði.

Veiðarnar sagðar „villimannslegar“ og „grimmar“

Þá segir í skýrslunni að þegar leitað sé eftir viðhorfum fólks erlendis til hvalveiða sé það „alla jafna mjög neikvætt“. Sýnishorn af þeim viðhorfum má finna í ummælum sem fylgja undirskriftum við kröfugerð Hvalavina. Meðal nýjustu ummælanna sem þar birtast er: „Nóg komið af villimannslegu athæfi sem á sér enga réttlætingu nú til dags“, frá d. pontvieux. „Að fara fram með svona harðneskju og kvölum gegn annarri tegund er meira en grimmt og það verður að stöðva. Hjarta mitt syrgir þessa hvali. Ísland vinsamlegast hættið að drepa hvali“ segir B. Weingarten. Og R. Sutton segir: „Þetta er svo villimannslegt og hræðilegt. Það syrigr mig svo og gerir mig ekki stolta af því að tilheyra mannkyni. Vinsamlegast hjálpið til við að stöðva þetta. Þakka þér fyrir að berjast fyrir þessar fallegu verur.“

Fljótt á litið birtist ekkert lýsingarorð jafn oft í ummælunum og „barbaric“ – villimannslegt, nema ef vera skyldi „cruel“ – grimmt.

Gert er ráð fyrir að framtíð hvalveiða á Íslandi verði tekin til umfjöllunar á Alþingi í haust, á einn veg eða annan, en Íslendingar hafa stundað hvalveiðar í atvinnuskyni, með hléum, frá því um 1940.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí