Heimspekingur vill afnema arf: uppsafnaður arfur kynslóða stefni lýðræðinu í hættu

Stefan Gosepath, prófessor í heimspeki við Freie háskóla í Berlín, segir í viðtali við þýska dagblaðið taz í dag, þriðjudag, að réttlátt væri að afnema arf. Hann segir að eignarréttur sé mikilvægur en ætti ekki að ná yfir gröf og dauða.

Almennt samþykkt að allir skuli hafi jöfn tækifæri

„Arfur er ósanngjarnt happdrætti, því það er algjörri hendingu háð hvort ég á ríka foreldra eða ekki. Arfur brýtur í grundvallaratriðum gegn hugmyndinni um jöfn tækifæri. Jafnvel í Þýskalandi, þar sem þú erfir yfirleitt engan fyrr en um fimmtugt eða sextugt, þegar faglegum frama þínum er eiginlega þegar lokið, þá felur arfur í sér tækifæri þar sem þú veist fyrirfram að þú átt öryggisnet eða að þú munt njóta góðs af honum.

Ef einhver fær fleiri tækifæri í skóla, háskóla eða starfsþjálfun vegna þess að foreldrar þeirra eru ríkir, þá telst það ósanngjarnt. Um það er samfélagið á einu máli. Allir ættu að hafa jöfn tækifæri ef við stefnum að sanngjörnu samfélagi. Til að skapa jöfn tækifæri þarf að taka eitthvað frá hinum afar ríku og færa til þeirra afar fátæku.“

Enginn arfur þýðir arfur fyrir alla

Gosepath segir að í Þýskalandi sé erfðaskattur alltof lágur, eins og sjáist á því að af 400 milljörðum evra sem erfist árlega sé aðeins greiddur tæplega 10 milljarða evra skattur. Tillaga hans er þó ekki aðeins að hækka erfðaskatt heldur arfnema arf með öllu, segir blaðamaður. Hvernig, spyr hann, viltu útskýra það fyrir einhverjum sem hefur þegar áhyggjur af því hvað verður um húsið hennar ömmu?

„Vissulega hljómar hugmyndin róttæk í fyrstu,“ svarar Gosepath. „En hugmyndin er ekki að afnema arf fyrir alla heldur að veita öllum arf. Ég vil ekki draga alla niður, ég vil hífa alla upp. Auðvitað, ef einhver er blindur á öðru auuga, þá geturðu ekki beðið mig um að stinga hitt augað úr honum líka. Hugmyndin verður að vera sú að gera eineygðu manneskjunni kleift að plumma sig með einu auga. Frá pólitísku sjónarmiði er lausnin þessi: litla húsið hennar ömmu fyrir alla. Þú þyrftir að nota 100 prósent erfðaskatt til að deila út miklu meira fé.“

Best nýttur í félagslega innviði

– Frábært, segir blaðamaður. Með 400 milljónir evra á ári, get ég fengið auka 5.000 evrur á ári í minn hlut eða get ég fengið allan peninginn í einu þegar ég útskrifast og farið í heimsreisu?

„Ég held ekki að þú ættir að fá allt greitt út í seðlum í hönd. Smá, kannski, ef þú vilt – það má deila um útfærsluna. En ég hef efasemdir um hugmyndir á við 20.000 evrur fyrir alla yfir 18 ára aldri, af ýmsum ástæðum. 18 ára sýnist mér of snemmt. Þá kaupa þau Porsche og klessa á næsta tré í Brandenborg. Það getur ekki verið ætlunin. Ef jöfn tækifæri eru markmiðið, þá verður að fjárfesta skipulega í framtíðinni: í skólum, háskólum og heilsugæslu. Peningurinn á best heima í félagslegum innviðum, því þeir færa fátækum betri tækifæri. Opinberar stofnanir verða að treysta að allir komist vel af stað í lífinu. Þannig verður úr því langtíma-fjárfesting.“

Hliðarsamfélög ríkra stefna samfélaginu í hættu

Gosepath hefur sagt að arfur grafi undan lýðræðinu. Hvernig þá, spyr blaðamaður.

„Annars vegar stefnir hann pólitískri samheldni í hættu, þar sem það efnahagslega bolmagn sem gengur í arf má auðveldlega þýða í pólitískt vald. Og hann stefnir félagslegri samheldni í hættu með því að skapa félagslega stéttskiptingu, eins og þegar má sjá í Bandaríkjunum. Í Bretlandi og Bandaríkjunum má sjá arfbylgju síðustu 300 ára, þar sem þegar eru fjölskylduveldi með djúpar rætur. Bilið er orðið afar breitt vegna uppsafnaðs arfs.

Samkvæmt hagfræðingum á við Piketty stefnir loks öfgafullur ójöfnuður hagkerfinu í hættu. Hagkerfið þarf breiða dreifingu auðs til að margir geti fjárfest og ekki aðeins eitt samfélagslag, sem njóti gríðarlegs hagnaðar, ákveði í hverju skuli fjárfest.“

Hvað gerist, spyr blaðamaður, ef við rjúfum ekki yfirstandandi arfbylgju?

„Í reynd munu ríkir lifa í hverfum út af fyrir sig, úthverfum eða sérskipulögðum svæðum. Þá verða til áhrifin sem þekkjast í afgirtum samfélögum í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku: það kemur ekki á óvart að skólar, sjúkrahús og íþróttaaðstaða eru betri í ríkum borgarhlutum.“

Gosepath segir oft rætt um hliðarsamfélög og að þá sé átt við fátæka innflytjendur, og nefnir íbúa hverfisins Krezberg í Berlín til dæmis. „Í reynd er nú tilhneiging meðal efnafólks til að skapa hliðarsamfélag sem er gríðarlega andlýðræðislegt.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí