Hagfræðingurinn Javier Milei, sem fékk flest atkvæði í forvali fyrir komandi forsetakosningar í Argentínu í október, skilgreinir sig sem anarkískan kapítalista. Þegar hann var kosinn á þing hét hann því að greiða aldrei skattahækkunum atkvæði sitt. Hann vill lágmarksríki, svokallað næturvarðaríki nýfrjálshyggjumanna þar sem hlutverk ríkisvaldsins er bundið löggæslu og landvörnum en litlu öðru. Hann vill engar takmarkanir á vopnaburð fólks né bönn við því að fólk að selja úr sér líffæri eða að forledrar selji börnin sín. Hann er hins vegar á móti þungunarrofi, hefur enga trú á hnatthlýnun af mannavöldum og er aðdáandi bæði Donald Trump og Jair Bolsonaro.
Og Javier Milei er nýliði í pólitík, hóf þátttöku með stofnun eigin flokks fyrir tveimur árum. Í sigurræðu sinni túlkaði hann sigur sinn sem dauða stjórnmálastéttarinnar sem rænt hefði almenningi yfirráðum yfir eigin lífi. Lengi lifi frelsið, hrópaði hann og hét því að gera Argentínu að stórveldi. Þau hróp eru í takt við það sem víða heyrist, að gera hvert land great again. Það heyrist ekki aðeins í Bandaríkjunum og Argentínu heldur í Kína, Indlandi, Rússlandi, Ítalíu, Frakklandi og nánast hvar sem er. Javier Milei er samt undarleg útgáfa af stjórnmálamanni, nánast eins og persóna í gamanþáttaröð um últra-hægri popúlista.
Javier Milei var alinn upp við ofbeldi og hefur afneitað foreldrum sínum, sagt þá dauða fyrir sér. Hann vann fyrir hagfræðinámi með því að keyra rútu. Hann var markmaður í þriðju deildar fótboltaliðinu Chacarita Juniors og söng ábreiður Rolling Stones með hljómsveitinni Everest. Hann kenndi hagfræði við háskóla, var ráðgjafi fyrir ýmsar hægri hugveitur og hélt úti útvarpsþætti þar sem hann hélt fram nýfrjálshyggjulegum hagfræðikennisetningum og fádæma íhaldssemi í samfélagslegum málum.
Milei er algjörlega andsnúin þungunarrofi, vill engar undantekningar gera, ekki einu sinni þegar þungun á sér stað eftir nauðgun. Þegar hann var spurður um afstöðu til þungunar tíu ára stúlku sem hafði verið nauðgun sagði hann að það yrði alltaf morð á ófæddu barni ef þungunarrof yrði leyft. Hann vill leyfa fátæku að fólki að selja úr sér líffærin og börnin sín líka. Milei er sannfærður, eins og margir últra-hægrimenn, um alheimssamsæri menningar-Marxista sem ljúga upp á fólk hlýnun jarðar, kynfræðslu í skólum, réttindabaráttu kvenna og hinsegin fólks til að knýja fram sósíalíska byltingu. Í efnahagsmálum vill hann einkavæða allt sem hreyfist og leggja af velferðarkerfi og aðra sigra verkalýðsbaráttu síðustu aldar. Ráð Milei við óðaverðbólgunni í Argentínu eru að kveikja í seðlabankanum.
Milei stofnaði flokk sinn fyri tveimur árum, La Libertad Avanza sem þýða mætti sem Frelsið brýst fram. Þetta er nýfrjálshyggjuflokkur á sterum sem vill lágmarksríki sem sinnir fáu öðru en hervörnum gagnvart öðrum ríkjum og löggæslu innanlands. Markmiðið er að lækka skatta og afnema, leggja af allt sem kalla mætti félagslegt velferðarkerfi og félagsleg réttindi.
Flokkurinn hefur boðið fram til þings og sveitastjórna en ekki náð umtalsverðum árangri, fékk 2 þingmenn í fulltrúadeildina af 257 í kosningum 2021. Aðeins betur gekk í kosningu til borgarstjórnar Buenos Aires sama ár, þar sem flokkurinn fékk 5 fulltrúa af 60.
Varaforsetaefni Milei er þingkonan Victoria Villarruel, sem flokka má sem stæka íhaldskonu. Hún skrifaði undir Madridarsáttmála hægrimanna eins og Milei. Þetta er yfirlýsing í anda and-kommúnisma kalda stríðsins sem lýsir vinstrinu á Spáni og spönskumælandi löndum Ameríku sem skipulagðri árás á lög, eignarétt og frelsi einstaklingsins, skipulögð af stjórnvöldum á Kúbu og fjármögnuð af eiturlyfjahringjum. Villarruel hefur skrifað bækur og haldið fyrirlestra um sýn sína á argentínska nútímasögu, sem hún lýsir sem einskonar vandaráni vinstrisinnaðra hryðjuverkamanna sem hafi náð völdum og áhrifum innan stjórnmála, fjölmiðlunar og stofnana samfélagsins. Villarruel réttlætir í reynd valdarán hersins 1976 og handtöku, pyntingar og morð herforingjanna á vinstrisinnum á tímabilinu sem kallað hefur verið skítuga stríðið í Argentínu.
Milei er kallaður Peluca eða hárkollan vegna sérviskulegrar hárgreiðslu. Hann sver sig því í ætt við Trump og Boris Jonson að því leiti. Hann er ókvæntur og stærir sig að kynferðislegri virkni, segist vera tantra-kynlífsleiðbeinandi og meistari frjálsra ásta. Hann á hund sem hann segist líta á sem son. Sá heitir Conan og hefur Milei klónað hann nokkrum sinnum. Klónanna nefnir hann í höfuð á hagfræðingum sem hann dáir. Einn þeirra heitir til dæmis Milton eftir Milton Friedman.
Hvers vegna er þessi maður valkostur í argentínskum stjórnmálum í dag? Þar er nú, sem oft áður, óðaverðbólga og stórkostleg lífskjarakreppa meðal meginþorra almennings. Stór hluti kjósenda upplifir sig enn og aftur svikin af stjórnmálaelítunni sem lofar almenningi ætíð öllu fögru en svíkur svo allt, þjónar fyrst og síðast sjálfri sér og auðstéttinni.
Þegar úrslitin lágu fyrir féll argentínski pesóinn og hlutbréf í kauphöllinni, skuldabréfaálag ríkissjóðs hækkaði og Seðlabankinn hækkaði vexti. Það er ekkert smátt í sniðum í argentínskri efnahagskrísu. Skráð gengi pesóins var fellt um 18% og vextir hækkaðir um 21 punkt, upp í 118% stýrivexti. Verðbólgan er nú um 115%.
Forvalið fyrir forsetakosningarnar var annars vegar til að velja frambjóðendur fyrir helstu kosningabandalög og hins vegar til að grisja frambjóðendur, fella þá af framboðslistum sem ekki ná 1,5% atkvæða. Javier Milei fékk flest atkvæði, rúmlega 30%. Stóru blokkirnar tvær, hægri fylkingin Propuesta Republicana (Lýðræðistillagan) og breiðfylking Perónista Unión por la Patria (Föðurlandssambandið) fengu rúm 28% og rúm 27% atkvæða en þau skiptust á milli fleiri frambjóðenda. Milei á því sigurinn ekki vísan í október þegar hann mætir þeim frambjóðendum hefðbundnu blokkana sem valdir voru í forvalinu.