Mæður Íslands segja Baseparking við Leifsstöð skilja eftir sig sviðna jörð: „Bílinn fannst ekki“

Íslenskar mæður segja farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við bílastæðaþjónustuna Baseparking við Leifsstöð. Hver móðir á eftir annarri varar við að stunda viðskipti við fyrirtækið innan Mæðratips, líklega stærsta Facebook-hóps Íslands. Fyrirtækið hefur verið starfrækt í nokkur ár en þjónusta þess snýst um að taka við bílum flugfarþega í Leifsstöð og leggja þeim svo í stæði fjær flugstöðinni. Svo þegar ferðalangar koma aftur heim til Íslands þá fá þeir bílinn sinn afhentan á ný.

Þannig á það í það minnsta að virka en miðað við frásagnir mæðra þá gengur þetta ekki svo snurðulaust fyrir sig. Umræðan hófst þegar Sædís nokkur spurði innan hópsins hvort einhver þar inni gæti komið sér í samband við yfirmenn fyrirtækisins. Ástæðan var þessi: „Komum til landsins um 01:30 í gær og erum ekki enn komin með bílinn þar sem þeir vilja ekki/geta ekki látið okkur fá hann af óskiljanlegum ástæðum, meðal annars af því að bílinn fannst ekki og þau vildu ekki tékka hvort hann væri þar. Við erum með eins árs gamalt barn með okkur og þurftum að borga leigubíl til Reykjavíkur þar sem það var ekkert laust í Keflavík.“

Sædís bætti svo við að það virtist ekkert stefna í að fjölskyldan fengi bílinn í bráð. „Núna er bíllinn hjá þeim í Keflavík en þau geta KANNSKI reddað okkur honum í kvöld. Starfsfólk fríar sig ábyrgð og segir okkar bara að bíða. Enginn virðist þora að tala við yfirmann né gefa okkur upplýsingar um hver það sé.“

Nú þegar þetta er skrifað hefur talsverður fjöldi kvenna skrifað athugasemd við fyrirspurn Sædísar og margar segjast hafa lent í svipaðri reynslu, ef ekki verri. „Ég hef jafn ömurlega reynslu af þeim, lenti í hvílíku veseni, svipað dæmi. Það gekk ekki vel að fá svör. Þau blokkuðu mig á Facebook og allskonar gleði. En eftir að hafa staðið í stappi í sex daga fékk ég bílinn minn heim. Eftir mánuð endurgreiddu þau mér leigubílinn heim. En ég hafði bara samband á öll netföngin. Það var eiginlega aldrei svarað en fyrir rest,“ skrifar ein kona.

Miðað við frásagnir íslenskra mæðra þá er það ekki sjaldgæft að fyrirtækið einfaldlega týni bílum. „Við prófuðum Baseparking í júlí. Við vorum fimm fjölskyldur að bíða og bíða eftir bílunum okkar klukkan þrjú um nótt. Margir með lítil börn og allir pirraðir og þreyttir eftir langt flug frá Tene. Þeir týndu einmitt einum bíl. Þeir segjast vera með bílinn tilbúinn við lendingu en við þurftum að bíða í tæpan klukkutíma. Ég mun aldrei nota þessa þjónustu aftur.“

Sú þriðja hugðist fá alþrif á bílinn sinn. „Við fengum hann skítugari en við skiluðum honum. Reyndum í margar vikur að senda tölvupóst og biðja um endurgreiðslu. Við fengum stundum svar og beðið um reikningsnúmer en aldrei neina endurgreiðslu,“ skrifar sú kona.

Enn fleiri konur segja sína sögu af fyrirtækinu en það er nokkuð áberandi hve líkar þær eru. Sögurnar eru margar, athugasemdirnar eru orðnar um tvö hundruð talsins. „Við lentum 5. ágúst frá Danmörku og höfum svipaða sögu, en við gáfum okkur ekki, enda með þrjú börn föst á Keflavíkurflugvelli. Starfsmaður sagðist vera hjá bílnum en var svo ekki hjá honum þegar við fundum hann úti á bílaplani. Ég sagði „nú kemur þú með lyklana að bílnum!“ Við pöntuðum alþrif innan og utan, en fengum hann drulluskítugan. Mjög ósátt. Engan er hægt að ná í nema þennan starfsmann sem fríar sig allri ábyrgð. Ég sendi mail og hef ekkert svar fengið.“

Þó að flestar sögurnar séu frekar nýlegar þá eru nokkrar sem eru komnar til ára sinna. „Ég notaði þjónustu þeirra árið 2018. Þegar við fengum bílinn voru komnir kílómetrar í akstri sem þeir gátu ekki gert grein fyrir. Það hafði líka einhver vistað símann sinn inni. Síðast en ekki síst var smokkur á gólfinu fyrir framan farþegasætið. Að vísu ónotaður í umbúðunum.“

Svo taka til máls konur úr Keflavík. „Það er mikið talað um þetta í Reykjanesbæ. Bílum er lagt út um allt, en eru ekki í geymslu eða sér bílastæðum frá þessu fyrirtæki,“ skrifar ein og önnur bætir við: „Þeim er oft bara lagt á möl einhvers staðar í kringum flugstöðina eða Ásbrú. Mikil umræða var um þetta í Reykjanesbæ á tímabili.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí