Magdalena Schram hefði orðið 75 ára í dag, ein þeirra sem ruddi braut þar sem óljósir troðningar voru áður

Magdalena Schram blaða- og kvenréttindakona fæddist þennan dag, 11. ágúst 1948, en lést langt fyrir aldur fram aðeins 44 ára gömul, 9. júní 1993.

Magdalena helgaði kvennahreyfingunni drjúgan hluta starfsævi sinnar. Hún var einn af stofnendum Veru og var viðloðandi blaðið alla tíð. Hún var varaborgarfulltrúi Kvennaframboðsins í Reykjavík 1982-86 og sat í útvarpsráði fyrir Kvennalistann frá 1987 fil dauðadags. Magdalena var ritstjóri 19. júní, sem þá var ársrit Kvenréttindafélags íslands, árið 1990 og var í ritnefnd þess blaðs í nokkur ár. Hún gegndi trúnaðarstörfum fyrir KRFÍ, Jafnréttisráð, Kvennaframboð og Kvennalista.

Magdalena skrifaði Ms undir greinar sínar í Veru. Þar skrifaði hún fjölda greina og tók mörg viðtöl um ýmislegt sem kemur konum við, eins og sagði í Veru eftir andlát hennar: Bókmenntir og listir, skipulag, almenningssamgöngur, umferð, íþróttir, ást, móðurhlutverk, auglýsingar, fjármál, fjölmiðla, ofbeldi, klám, fóstureyðingar, elli, æxlunartækni og kvenfrelsisbaráttu — svo fátt eitt sé nefnt.

Hér er smá moli sem Magdalena skrifaði í Veru um konur í fjölmiðlum:

Þríhöfða þurs spilar á píanó

„Ein tegund frétta af konum þykir þó alltaf góður matur og mikið skelfing er ég orðin leið á þeim. Það eru þessar um konur í karlastörfum, svo sem eins og „Kona tekur bólstrarapróf“ eða „Kona ekur skurðgröfu.’* Þríhöfða þurs spilar á píanó! Fer það ekki bráðum að verða sjálfsagður hlutur að konur geri allt á milli himins og jarðar ef í það fer? Eða finnst lesendum það jafn skrýtið og þeim, sem semur fyrirsögnina? Ég held að lesendum muni halda áfram að þykja það skrýtið svo lengi sem dagblöðin gefa það í skyn. Nú eða þá hitt, „Svissnesk kona leikur á harmonikku og akkordcon“ (Mbl. 25. júlí). Kona, vá, geta þær líka leikið á hljóðfæri? En við vitum jú allar að þegar kemur að listum skiptir það höfuðmáli hvers kyns listamaðurinn er en ekki hvað hann skapar eða kannski öllu fremur: aðrir hlutir skipta máli eftir því hvers kyns er. Svo er a. m. k. að skilja af greinarhöfundi Mbl., sem sagði frá listamannaþingi í Þýskalandi, þar sem íslenski fulltrúinn, Sigríður Björnsdóttir, vakti hvað mesta athygli „vegna þess að hún var glæsilegust kvenna á staðnum“ (Mbl. í ágúst).“ –Ms

Í tilefni af 40 ára afmæli Kvennalistans í fyrra flutti dóttir Magdalenu, Halla Harðardóttir, erindi um móður sína og gaf þar einkar fallega mynd af móður sinni, baráttunni sem hún og baráttusystur hennar háðu og hvernig það var að alast upp á heimili þeirra sem kvenna sem ruddu braut þar sem voru óljósir troðningar áður, svo notuð sé líking frá Magdalenu sjálfir.

Erindi Höllu má fá finna á vef Kvennalistans, en það má líka lesa hér:

“Bara er ekkert svar”
Ræða haldin í tilefni af 40 ára afmæli Kvennaframboðs.

Sæl öll. Til hamingju með afmælið og takk fyrir boðið!
Takk fyrir að fá mig til að rifja upp fyrstu ár kvennaframboðsins, hvernig það var að vera alin upp af Kvennalistakonunni henni móður minni, Magdalenu Schram.

Það hefur verið gaman að rifja þetta upp. Svo margt sem kemur upp í hugann, og eitt af því fyrsta, er hversu mikið var sussað á mann. Já, manni var dáldið mikið sagt að þegja. Ussss….ssssssshhh. Þetta eru orð sem ég fékk mikið að heyra í uppeldinu. Viltu gjöra svo vel að þegja í smá stund, við erum að reyna að tala saman hérna. Usss, ég er að reyna að skrifa, sagði mamma og hamraði á ritvélina, sennilega að klára
grein fyrir Veru.

Æ stelpur, veriði ínni í herbergi, ég þarf pláss til að hugsa.

Þetta var auðvitað áður en borgin fór að reka leikskóla og dagvistun, svo ég fyrirgef henni mjög auðveldlega allt þetta suss í dag.

Í guðanna bænum verið úti, sjáið þið ekki að við erum á fundi!

Á fundi.

Fundur hlýtur að vera orð æsku minnar.

Hvar er mamma? Mamma þín er á fundi.
Mamma hvert erum við að fara? Á fund.

Mér skildist snemma að fundur var eitthvað mjög mikilvægt. Og með tímanum skildist mér að á fundum komu konur saman og töluðu mjög mikið um eitthvað mjög merkilegt. Og með meiri tíma skildist mér að konur héldu fundi til þess að breyta heiminum. Og það var einn staður í Reykjavík æsku minnar þar sem konur unnu stíft að því að breyta heiminum. Það var á Hótel Vík.

Í minningunni var Hótel Vík ævintýrahöll. Rauð ævintýrahöll á mörgum hæðum, full af litlum og stórum herbergjum, sem öll voru full af konum. Sem barn skynjaði ég að þetta skipti máli, konurnar voru að gera eitthvað virkilega merkilegt. Eitthvað stórbrotið. Og í minningunni var Hótel Vík ekki bara staður þar sem konur komu saman og fylltu fjölda herbergja og funduðu til þess að gera heiminn betri, heldur var Hótel Vík líka staður frelsis. Því fundarstúss kvenna og umbylting á kerfum heimsins leiðir óhjákvæmilega af sér aukið frelsi barna.

Þegar mamma var á fundum, nú eða í símanum, eða við ritvélina, þá átti maður að fara
út og gera eitthvað.

Æ, góða finndu upp á einhverju, svaraði mamma þegar ég hékk í pilsfaldinum og sagðist ekki hafa neitt að gera. Stundum, ef ég, eða við systur, vorum heppnar, þá fengum við pening. Þá var rölt um bæinn og splæst í nammi, eða jafnvel strokleður í Tokyo, sem var langflottasta dótabúð bæjarins, en hún var í göngufjarlægð frá Hótel Vík. Það sem ég gat hangið og skoðað fígúrur og ritföng í þessari pastellituðu paradís. Þetta var veröld sem var vitaskuld jafn forboðin og hún var spennandi. Slík kapítalísk kynjatvíhyggju-paradís í sínum girnilegu blábleiku nammi-litum var ekkert sérstaklega velkomin á heimili móður minnar, þar sem brúntónuð föt og endurnýtt leikföng frá frændfólki réðu ríkjum.

Ég man í eitt skiptið, þegar ég var svo heppin að fá pening, þá fór ég beint í Texas, sjoppuna sem stóð framan við Hótel Vík, og keypti happaþrennu. Og viti menn, ég fékk vinning! 10.000 kr, sem var töluverð upphæð í þá daga. Til hamingju sagði mamma, upptekin við að umbylta kerfum í rauðri ævintýrahöll.
Ég leysi þetta út fyrir þig, sagði hún og rétti mér ávísun sem ég átti að nota til að kaupa
mér eitthvað fallegt.

Ég veit ekki hvort þið munið eftir Bangsa, en það var barnafataverslun í Bankastræti. Barnafataverslun sem bauð upp á allt annan stíl en brúntónaður fataskápurinn minn. Ég skottaðist með vinkonu í Bangsa og verslaði mér jogginggalla sem ég mun aldrei gleyma. Piparmyntugrænn með bleikri hettu og bleikum vösum. Geggjaður. En auðvitað var æðislegast af öllu að hafa keypt hann sjálf. Mömmu fannst gallinn flottur og hrósaði mér, og ég var stolt af því að vera svona smart og smekkleg. En í dag veit ég að það var ekki gallinn sem henni fannst flottur, heldur ég. Því þetta gat ég, alveg sjálf.

Kannski var hún ekki bara að kaupa sér tíma. Kannski var hún líka að kenna mér að vera sjálfstæð. Sleppa takinu af pilsfaldinum. Læra á borgina, læra á lífið og vera mín eigin kona. Og þennan dag fékk ég heldur betur að vera mín eigin kona. Og jafnvel um leið finna nasaþefinn af þeirri stórgóðu tilfinningu að vera fjárhagslega sjálfstæð. Því það var annað mikilvægt atriði í feminísku uppeldinu. Ég gleymi því ekki þegar ég kom heim með skólaverkefni sem snerist um að segja frá því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór.

Djöfulsins rugl, sagði mamma. Eins og það skipti einhverju máli hvað þú verður. Þú getur auðvitað orðið hvað sem þú vilt, en það eina sem skiptir máli er að þú verðir eitthvað, og ekki undir neinn karlmann komin. Það er það eina sem skiptir máli. Andskotans kjaftæði.

Ég viðurkenni að blótsyrði voru líka hluti af þessu mótsagnakennda uppeldi. Ég segi mótsagnakennda, því að á sama tíma og okkur var sagt að þegja, þá var okkur líka sagt að nota röddina.

Ussss…..ekki trufla!
Farið og gerið eitthvað sniðugt!
Þurfið þið í alvöru að hanga svona í mér?
Getið þið ekki stofnað blað, eða skipulegt mótmælagöngu?
Hafið þið ekkert að berjast fyrir?
Finnst ykkur bara í lagi hvernig skólanum ykkar er stjórnað?
Finnst ykkur eðlilegt að strákarnir taki næstum allan leikvöllinn undir boltaspark?

Og af hverju takið þið fótboltann þá ekki yfir? spurði mamma okkur vinkonurnar þegar við kvörtuðum oftar sem ekki yfir óþolandi fyrirferðinni í strákunum og plássinu sem þeim leyfðist að taka sér.

Þetta var auðvitað allt frekar vandræðalegt. Að eiga mömmu sem reifst og skammaðist yfir öllu og fannst einhvern vegin ekkert vera vandræðalegt. Þið getið ímyndað ykkur hvað þetta varð mikil hryllingur þegar unglingsárin skullu á af fullum þunga. Mamma vildi mikið ræða blæðingar og svo auðvitað pilluna.

Ég var frekar seinþroska en þegar loksins fór að blæða engdist ég yfir því hvort ég ætti að deila fréttunum með henni eða bara leyna því, þar sem ég vissi að hún myndi gera vandræðalega mikið úr öllu saman. Og viti menn, hún fann bindin og öskraði af gleði og knúsaði mig alltof mikið og spurði hvort hún mætti ekki halda veislu! Til að fagna kvenleikanum!

Hva, bara fyrir þær allra nánustu, frænkur og vinkonur…
Nei, ég hélt nú ekki.

Auk Sussa og vandræðaheita, sem á sama tíma áttu líklega að herða mann til sjálfstæðis og gefa manni rödd, þá var annar þáttur mikilvægur hluti af uppeldi kvennalista-konunnar hennar móður minnar. Og það var hún Bara.

Afhverju gerir þú þetta svona og ekki hinsegin, spurði mamma og þreyttist ekki á því að láta okkur ígrunda öll svör.
Af því bara.
Hvað meinarðu?
Æji bara.
Hver er þessi Bara?, spurði mamma í hvert einasta sinn sem við notuðum þetta orð.
Bara er ekkert svar!

Hún Bara var algjörlega bönnuð á heimilinu. Bara var í huga mömmu einhverskonar uppgjöf gagnvart allri rökhugsun. Bara var andleysi sem eyddi efa. Efa sem leiðir af sér nýjar spurningar. Bara var of þægileg. Hver er þessi Bara, hélt mamma áfram að spyrja, og þið getið ímyndað ykkur hvað það var pirrandi, og vandræðalegt þegar hún spurði líka vini. Hvað meinarðu Bara?

Og hver er þessi Bara?, spyr ég mig í dag. Ég vissi það ekki þá en ég held ég viti það í dag. Bara var stelpa sem valdi kannski auðveldari leiðina. Sætti sig við ríkjandi kerfi. Í dag er Bara álíka gömul og Kvennaframboðið, og hún veit aðeins betur. Hún veit að það vinnst lítið með auðveldari leiðinni, enda horfði hún upp á konur í rauðri ævintýrahöll sýna fram á annað. Að það væri hægt að berjast fyrir betri heimi og takast það.

Bara lærði að spyrja spurninga, að efast og gagnrýna. Hún er alltaf með kynjagleraugun á nefinu. Hún veit að hin svokölluðu mjúku mál, eru í raun hörðu málin, og hún veit að það persónulega er alltaf pólitískt. Hún veit að lífið er pólitík, og líka algjör tík, ef út í það er farið. Hún veit að valdaójafnvægi er ekki náttúrulögmál. Að stríð og friður er ekki náttúrulögmál. Hún veit að lög og reglur eru ekki heilagur sannleikur, heldur mannanna verk. Að það er mikilvægt að efast, og jafnvel óhlýðnast.

Hún veit að samfélaginu er haldið uppi af kerfum sem við megum aldrei taka sem sjálfsögðum. Því það þurfti að berjast fyrir öllum þessum kerfum. Þökk sé breyttum kerfum eigum við í dag meiri tíma fyrir okkur sjálfar, getum sussað minna og hlustað meira. Þökk sé breyttum kerfum höfum við sterkari rödd og vitum að ekkert er sjálfgefið.

Og við vitum, að bara, er ekkert svar.

Takk fyrir það, mamma, og þið allar, Kvennaframboðs – og Kvennalistakonur.

Magdalena og Guðrún Jónsdóttir svöruðu fyndni Davíðs Oddssonar á kostnað kvenna með því að mæta svona til borgarstjórnarfundar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí