Mönnunarvandi endurspegli lág laun og álag í starfi

Verkalýðsmál 21. ágú 2023

Mikil umræða hefur skapast undanfarið vegna leikskólamála en stærri sveitarfélög landsins glíma við mikinn mönnunarvanda.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir manneklu og mikil starfsmannavelta á leikskólum og hjá mörgum umönnunarstéttum endurspegla það að rangt var gefið í upphafi. Hún segi að gangi ekki að velferðarkerfið grundvallist á vinnu kvenna á afsláttarkjörum í viðtali í Speglinum.

„Þetta eru störf sem konur sinntu ólaunuð inn á heimilunum en færðust svo út á vinnumarkaðinn, eins og á við svo mörg störf í heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu og í menntakerfinu, og voru þá einfaldlega verðlögð lægra en jafn mikilvæg störf. Það var því rangt gefið frá upphafi og ekki bara hægt að horfa til sömu hlutfallslegu hækkana í kjarasamningum og í öðrum geirum,” segir Sonja Ýr.

Hún segir það löngu vitað að laun starfsfólks leikskóla séu of lág og endurpegli ekki erfiðar starfsaðstæður, álag og langa daga. Þá sé húsnæði oft úr sér gengið. Þetta geri það að verkum að þegar atvinnuleysi er lítið líkt og nú um mundir leiti fólk frekar í önnur störf þar sem kjör og starfsaðstæður eru betri.

Stóra spurningin sé hvernig á að bæta þennan grunn og gefa upp á nýtt: „Það er stórt samfélagslegt verkefni því þetta er sögulegt og þetta er kerfisbundið. En það sem hefur breyst í seinni tíð er að rannsóknir og fræðin sýna að kjör kvennastétta er meginástæða kynbundins launamunar, vegna þess hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er. Það er að segja að í kvennastéttum, þar sem konur eru í meirihluta er launasetningin lægri. Rannsóknir sýna einnig að besta leiðin til að leiðrétta þetta sé að framkvæma svokallað virðismat á störfum. Það er í gangi hjá sveitarfélögunum, en það tekur bara til grunnlauna og einnig var samið um þak á hækkanir á sínum tíma sem þýðir að það er alltaf þessi þrýstingur að halda launum niðri. Svo það er enn langt í land”

Ekki sé hægt að leysa mönnunarvanda með að stytta dagvistunar tíma barna á leikskólum, líkt og í Kópavogi, því það muni án nokkurs vafa leiða til þess að það verða frekar konur sem draga úr vinnu til að vera heima með börnunum, enn fleiri leiti í hlutastörf vegna umönnunarbyrði. Þetta geti haft áhrif á laun og starfsframa kvenna og leiða af sér bakslag í jafnréttisbaráttunni.

Hún segir ljóst að mönnunarvandinn sé víða í stéttum þar sem konur eru í miklum meirihluta, iðulega hjá hinu opinbera, á spítölum þar sem vanti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og í velferðargeiranum við umönnun fatlaðs fólks og aldraðra. „Það er svo skýrt hvers vegna sá vandi er – það eru lág laun en líka það að þetta fólk er látið hlaupa allt of hratt í vinnunni sem veldur álagi, sem veldur veikindum, og við þessu þarf að bregðast. Norðurlöndin hefðu ekki getað boðið upp á velferðarkerfið sem þau hafa gert nema vegna vinnu kvenna á afsláttarkjörum. Og það er tími til kominn að endurhugsa það.

Þá þurfi einnig að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla til að koma í veg fyrir aukna kjaraskerðingu og álag á konur: „Það er alveg á hreinu að við þurfum að gera eins og hin Norðurlöndin og lögfesta réttinn til að fá leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi af því þetta bil á ekki að vera til staðar.” segir Sonja.

Frétt af vef BSRB.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí