Bandarísk yfirvöld munu hvetja allan almenning til að þiggja örvunarbólusetningu gegn Covid-19 með haustinu, en bresk yfirvöld munu aðeins bjóða fólki yfir sextugu og yngra fólki í skilgreindum áhættuhópum slíka bólusetningu. Hvort tveggja má lesa í fjölda fréttamiðla nýverið. Í ljósi fjölgunar smita um þessar mundir hvetja sérfræðingar aftur á móti þarlend stjórnvöld til að greiða aðgang fleiri aldurshópa að bólusetningum. Þá hafa sérfræðingar bent almenningi á, einkum fólki í áhættuhópum, að aftur gæti verið tilefni til að nota grímur við ákveðnar kringumstæður.
Samstöðin hefur sent embætti Sóttvarnalæknis fyrispurn um hvernig bólusetningum og öðrum hugsanlegum viðbrögðum verður háttað hérlendis en ekki borist svör við þeirri fyrirspurn enn sem komið er.
Ný afbrigði, uggur um haustið
Heilbrigðisyfirvöld víða um heim ráða nú ráðum sínum um hvernig bregðast skuli við fjölgun Covid-smita undanfarnar vikur, og nýjum afbrigðum sem vísbendingar eru um að komist greiðar framhjá fyrra ónæmi en þau sem þegar voru í umferð.
Beggja vegna Atlantsála hafa stjórnvöld að mestu leyti fellt niður þær sameiginlegu sóttvarnir sem teflt var fram til að fást við Covid-19 á fyrstu stigum heimsfaraldursins og um leið dregið bæði úr eftirliti og upplýsingamiðlun um stöðu hans. Ákveðin gögn safnast þó óhjákvæmilega saman, meðal annars um sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll, auk þess sem ákveðin fylki Bandaríkjanna og einhverjar Evrópuborgir fylgjast með veirumagni í klóaki, sem þykir gefa nokkuð skýra mynd af stöðu smita. Samkvæmt öllum þeim athugunum sem þannig eru þrátt fyrir allt til staðar hefur sýkingum fjölgað undanliðnar vikur, ásamt sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum. Gögn Sóttvarnalæknis um hlutfall jákvæðra greininga gefa til kynna að smitum hafi um leið fjölgað hér á Íslandi, eins og við er að búast.
Áhyggjur heilbrigðisyfirvalda á norðurhveli snúast þó ekki eingöngu um þessa yfirstandandi uppsveiflu, sem er þrátt fyrir allt umtalsvert vægari en verstu bylgjurnar sem gengið hafa yfir heiminn, heldur hvers vænta má í haust og vetur, í ljósi þessarar fjölgunar smita.
Samstöðin hefur þegar greint frá afbrigðinu BA.2.86, sem WHO hefur sagt vert að gefa gaum (variant under monitoring), en þegar það birtist hafði annað afbrigði þegar breitt úr sér, sem hefur verið gefið heitið Eris, og er stigi ofar á lista WHO, sem athyglivert (variant of interest). Ekkert þessara nýju afbrigða hefur enn sem komið er verið sett í efsta stig þessarar skráningar hjá WHO, sem áhyggjuefni (variant of concern).