Seðlabankinn og ríkisstjórnin auðmjúkir þjónar bankakerfisins: „Græðgi þeirra er óseðjandi“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og fyrrverandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, segir í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að ekki sé hægt að draga aðra ályktun en að ríkisstjórnin hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna heimilum landsins fyrir bankana. Ásthildur segist einfaldlega ekki kaupa það að ástæðan fyrir „glórulausum aðgerðum Seðlabankans og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar“ sé vegna vanhæfni. Ásthildur segir það blasa við að bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin séu auðmjúkir og viljugir þjónar bankakerfisins.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Ásthildar Lóu í heild sinni.

Í síðustu viku minnti Facebook mig á tvær greinar, önnur þeirra var frá því júlí í fyrra: „Katrín fórnar heimilunum eins og eftir síðasta hrun“, en hin þriggja ára gömul: „Þarf endilega að fleygja einhverjum útbyrðis í þetta sinn“, sem Ragnar Þór Ingólfsson skrifaði með mér. Báðar fjölluðu þær um sama efnið, vernd heimilanna vegna afleiðinga Covid og verðbólgu, og báðar hefðu þær getað verið skrifaðar í dag. Allt sem varað var við í þessum greinum hefur orðið að veruleika og glórulausar aðgerðir Seðlabankans og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, hafa gert slæma stöðu enn verri.

Ég er ekki að kaupa það að við sem sáum fyrir verðbólgu og verðhækkanir vegna Covid, séum svona mikið klárari og betur gefin en allir ráðherrar og sérfræðingar „kerfisins“ samanlagt, og get því ekki annað en dregið þá ályktun að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að fórna heimilunum fyrir bankana og að nú sé verið að framfylgja þeirri ákvörðun með því að koma tugþúsundum heimila á vonarvöl.

13 vaxtahækkanir Seðlabankans segja sína sögu og methagnaður bankanna upp á 40,3 milljarða á fyrri helmingi þessa árs, staðfestir hana algjörlega. Þeir peningar koma beint frá fólkinu í landinu og samsvara því að hver einasta fjögurra manna fjölskylda hafi greitt um 420.000 krónur í hagnað bankanna, fyrir utan allt hitt.

Það er staðreynd að núna er verið að fórna heimilunum og þó að aflinn verði kannski ekki dreginn að landi alveg strax, þá verður hann svo sannarlega sóttur áður en langt um líður

Fjölskyldur með meðaltekjur eða minna munu ekki standa undir harkalegum árásum Seðlabankans á líf þeirra og afkomu án þess að eitthvað láti undan fyrir rest. Allt er þetta gert með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar, sem deilir algjörlega rörsýn vaxtafíklanna og hefur engar lausnir heldur gerir bara illt verra, því hvaða máli skipta tugþúsundir heimila ef bankarnir fá fullnægt óseðjandi græðgi sinni?

Trollin hafa verið sett út og aflinn verður halaður inn. Tap þjóðfélagsins verður gríðarlegt vegna þess, því hvar á allt þetta fólk að búa? Margt af því mun þurfa alls kyns kostnaðarsama félagslega aðstoð sem hægt hefði verið að komast hjá. Bankarnir munu ekki taka þátt í þeim kostnaði.

Það versta er samt kostnaður sem aldrei verður metinn; niðurbrotið fólk og fjölskyldur í sárum. Bankarnir eru byrjaðir að kalla eftir 14. vaxtahækkuninni. Græðgi þeirra er óseðjandi og hingað til hafa bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin reynst auðmjúkir og viljugir þjónar þeirra. Það er löngu komið nóg. Það er aldrei réttlætanlegt að nota heimilin í fóður fyrir bankana.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí