Segir Sjálfstæðisflokkinn hafa klúðrar flóttamannastraumnum frá Venesúela

„Frá 2019 hef­ur þannig legið fyr­ir að í óefni stefndi. Ekk­ert virðist hafa verið aðhafst til að stemma stigu við þró­un­inni. Stuttu síðar var land­inu nán­ast lokað í nafni sótt­varna. Þrátt fyr­ir lít­il um­svif á vett­vangi stjórn­sýslu og stjórn­mála næstu tvö árin á eft­ir var sá tími ekki held­ur notaður til þess að grípa til aðgerða vegna fólks­fjöld­ans frá Venesúela sem hafði ekki al­veg stöðvast á tím­an­um þótt landið væri lokað flest­um öðrum í lög­mætri för,“ skrifar Sigríður Á Andersen, fyrrum dómsmálaráðherra, í Morgunblaðið um fjölda flóttafólks frá Venesúela á undanförnum árum.

Í gær birtist Dagmálsþáttur á vef Moggans þar sem Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra, ræddi við Sigríði og Þórð Gunnarsson vara­borg­ar­full­trúa um stjórnmálaástandið og snerist stór hluti samtalsins um málefni hælisleitenda og afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þeirra mála. Andrés vísaði til ummæla Bjarna Benediktssonar formanns flokksins á tröppunum á Bessastöðum þar sem hann sagði málaflokkinn stjórnlausan og ábyrgð Alþingis mikla.

„Hvað eiga Sjálfstæðismenn raunverulega upp á dekk með að vera að ræða útlendingamálin á þessum grunni?“ spurði Andrés þá. „Þau hafa meira og minna verið á forræði Sjálfstæðisflokksins allan þennan tíma. Og þið ætlið að tala þá flóttamenn sem hingað hafa komið flestir, hvaða hópar eru það? Það eru Úkraínumenn sem hingað eru sérstaklega boðnir af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Og það eru Venesúelamenn, sem líka voru hingað sérstaklega boðnir af þáverandi utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni vegna þess að hafði einhverjar skoðanir á Hugo Chaves. Og við sitjum uppi með þetta enn þann dag í dag. Þarf ekki Sjálfstæðisflokkurinn að bera ábyrgð á þessu?“

Sigríður svaraði fyrir sig og sína ráðherratíð í þættinum, en hefur auðsjáanlega ekki verið ánægð með þá afgreiðslu og skrifaði grein fyrir Moggann eftir að upptökum þáttarins var lokið.

Sigríður segir þar að árið 2018 hafi 14 manns komið frá Venesúela og veitti Útlend­inga­stofn­un sjö vernd. Þetta var hverf­andi fjöldi í sam­an­b­urði við um­sókn­ir rík­is­borg­ara annarra landa á þeim tíma. En eins og sést hér að ofan þá segir Sigríður að málið hafi farið úr böndunum um mitt ár 2019, en Sigríður sagði af sér sem dómsmálaráðherra í mars það ár.

„Það sem af er þessu ári og á síðasta ári eru hæl­is­leit­end­ur frá Venesúela yfir 2.200. Þeir skáka jafn­vel Úkraínu­mönn­um það sem af er þessu ári sem fá þó hér dval­ar- og at­vinnu­leyfi nán­ast skil­yrðis­laust,“ skrifar Sigríður. „Rík­is­borg­ar­ar Venesúela þurfa ekki vega­bréfs­árit­un inn á Schengen svæðið og koma því þangað inn sem ferðamenn í 90 daga, einkum til Spán­ar þar sem þeir sækja um alþjóðlega vernd. Þeim er þar í nær öll­um til­vik­um hafnað en fá í staðinn dval­ar­leyfi til eins árs. Spánn er lang­stærsta mót­töku­ríki Venesúela­búa og tók á móti 15.836 hæl­is­leit­end­um í fyrra. Ítal­ía tók á móti 1.841 flótta­manni. Ísland skip­ar sér í hóp með þess­um stórþjóðum, meðal þeirra þriggja landa sem tóku á móti flest­um frá Venesúela í fyrra.“

Ef við tökum fjöldann á Spáni, 15.836 manns, þá jafngildir það 128 manns miðað við íbúafjölda hér. Fjöldinn á Ítalíu jafngildir 12 miðað við fjölda Íslendinga.

„Á þessu ári hef­ur Svíþjóð látið sig varða árit­un­ar­frelsið sem Venesúela nýt­ur. Sænsk stjórn­völd, sem fóru með for­mennsku í ESB þar til í júní, hafa kallað eft­ir breyt­ing­um þar á vegna þess sem þau kalla „al­var­lega mis­notk­un“ á kerf­inu. Svíþjóð tók á móti 100 um­sókn­um um vernd frá rík­is­borg­ur­um Venesúela árið 2022. Ísland 1483,“ skrifar Sigríður.

Ef við notum sömu aðferð til að vega þessar 100 umsóknir í Svíþjóð jafngildir það 4 umsækjendum á Íslandi. Sem er 0,2% af þeim sem hingað koma í raun.

„Það er vel vitað hvað veld­ur þess­um fjölda frá Venesúela en stjórn­völd skila auðu í umræðunni um þenn­an fá­rán­leika,“ skrifar Sigríður í Moggagreininni.

Nicolás Maduro var endurkjörinn forseti í Venesúela árið 2018 með 67,8% atkvæða í kosningum sem deilt hefur verið um hvort að hafi farið rétt fram. Hann var síðan settur í embætti í janúar 2019. Nokkur lönd viðurkenndu Maduro ekki sem réttkjörinn forseta og vildu viðurkenna Juan Guaidó, forseta þingsins, sem forseta þó hann hafi ekki verið í kjöri í kosningunum. Ísland var þar á meðal. Í 30. apríl reyndi Guaidó að egna herinn til valdaráns en það mistóks. Og ágúst sama ár setti ríkisstjórn Donald Trump alhliða viðskiptabann á Venesúela.

Það var í þessu umhverfi sem Guðlaugur Þór, samkvæmt Andrési, bauð flóttafólk frá Venesúela sérstaklega velkomið til Íslands. Fólk frá Venesúela fékk sjálfkrafa svokallaða viðbótarvernd sem tryggði því fjögurra ára dvalarleyfi á landinu. Ekkert annað flóttafólk hefur fengið slíka fyrirgreiðslu.

Og í ljósi skrifa Sigríðar er vert að hafa þessar dagsetningar í huga. Sigríður sagði af sér sem dómsmálaráðherra 14. mars 2019. Og hún heldur því fram að flóttamannastraumurinn frá Venesúela hafi byrjað eftir það. Samkvæmt vef Útlendingastofnunar var fjöldi ríkisborgara Venesúela sem hingað hafa komið og fengið vernd þessi:

ÁrUmsóknirVeitt vernd
2018157
2019180157
2020104130
2021360135
20221.184728
2023*1.071?
Alls:2.9141.157

*Tölurnar fyrir 2023 ná yfir hálft árið, frá janúar til loka júní.

Eftir að Sigríður hætti sem ráðherra 14. mars 2019 gegndi Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir starfinu til 6. september það ár að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók við. Hún var ráðherra þar til Jón Gunnarsson kom í ráðuneytið 28. nóvember 2021. Og hann sat þar Guðrún Hafsteinsdóttir tók við af honum 19. júní í sumar. Þetta er fólkið sem Sigríður segir að hafi ekki skilað auðu gagnvart vandanum vegna flóttafólks frá Venesúela. Sem Andrés Magnússon segir að sé hingað komið í sérstöku boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Sjálfstæðisflokksins.

Samstöðin hefur áður skrifað um sérstakt boð Sjálfstæðisflokksins til íbúa Venesúela um að koma hingað og fá vernd. Nýlega t.d. hér: Bjarni segir enn ósatt um flóttafólk frá Venesúela og síðasta haust t.d. hér: Engin fjölgun flóttamanna nema frá Úkraínu og Venesúela.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí