Guðrún Hálfdánardóttir rifjar upp deilur um bújörðina Hrífunes í Skaftártungu í fimm þátta hlaðvarpssyrpu á rás eitt Ríkisútvarpsins. Eins og fram kemur í þáttunum var fjallað um málið í Dv snemma árs 1988, fyrir rúmum 35 árum. Vísað er til frétta sem undirritaður skrifaði á sínum tíma.
Þessar deilur eru ekki eina umfjöllunaratriði þátta Guðrúnar, hún rekur sögu Hrífuness síðustu 150 árin og blandast þar inn margar persónur, trúarhreyfingar og ýmsar erjur. En síðustu þættirnir fjalla um deilurnar sem sprungu fram 1988.
Það er hægt að mæla með hlustun á þættina, sem nálgast má hér: Hrífunes
Það er athygli vert að hvert hægt er að sækja heimildir um þetta mál. Það var skrifað um það á DV í nokkrum greinum á fyrri hluta árs 1988 og svo var tekin saman fréttaskýring um málið í Pressunni um haustið. Aðrir miðlar fjölluðu ekki um málið þótt það sé á allan máta áhugavert, tengist stöðu fólks með heilabilun, hverjum valdið í héraði þjónar og á sér pólitískar tengingar.
Þetta er ekki eina málið sem rifjað hefur verið upp í hlaðvörpum þar sem svo til allar heimildir eru sóttar í skrif blaða sem gefin voru út á jaðrinum. Úr þeim blöðum má lesa brotakennda sögu landsins á meðan hinir stærstu miðlar, einkum Morgunblaðið, buðu fyrst og fremst upp á þögn og niðursoðna útgáfu valdastéttarinnar af atburðum dagsins.
Fyrir þau sem vilja hita upp fyrir hlustun á Hrífunes er hér fyrsta fréttin af nokkrum um deilurnar um hvort umboðið hafi verið löglegt og sótt af heiðarleika og í þágu hagsmuna eigenda jarðarinnar.
Ættingjar manns með heilarýrnun kæra til rannsóknarlögreglunnar:
Telja að bújörð hafi verið véluð af honum
Rannsóknarlögreglan rannsakar nú hvort Árni Þórarinn Jónsson, 71 árs gamall vistmaður á dvalarheimili aldraðra á Kirkjubæjarklaustri, hafi verið sér meðvitandi um það þegar hann veitti tveimur frændum sínum fullt og ótakmarkað umboð til að ráðstafa eignarjörð sinni. Aðrir ættingjar mannsins telja hann það þrekaðan af heilarýrnun að ómögulegt sé að hann hafi verið vitandi vits um hvað fram fór þegar umboðið var veitt.
Forsaga málsins er sú að þann 12. febrúar síðastliðinn var skrifað undir umboð gamla mannsins til frænda sinna, Þórarins Sigurjónssonar, fyrrverandi alþingismanns á Laugardælum, og Sigurðar Ævars Harðarsonar, trésmiðs í Vík. Árni Þórarinn skrifaði þó ekki sjálfur undir umboðið heldur handsalaði það til Harðar Davíðssonar, forstöðumanns vistheimilisins, sem skrifaöi undir fyrir hans hönd. Vottar að handsalinu og fjárræði Árna Þórarins voru tveir, Hanna Hjartardóttir, kennari á Klaustri, og Siggeir Björnsson, hreppstjóri í Holti.
Þegar öðrum ættingjum Árna Þórarins barst afrit af umboðinu síðastliðinn sunnudag kærðu Kjartan Jónsson, bróðir Árna Þórarins, og Gunnar Jónsson lögmaður alla hlutaðeigandi til Rannsóknarlögreglunnar. Auk þess fóru þeir og fleiri ættingjar fram á að Árni Þórarinn yrði sviptur fjárræði. Rök fyrir kærunni eru þau að gamli maðurinn sé svo langt leiddur af heilarýrnun að hann hafi enga grein getað gert sér fyrir því hvað átti sér stað þegar umboðið var útbúið. Benda þau meðal annars á að hann hafi ekki skrifað sjálfur undir enda geti hann það ekki vegna sjúkdóms síns.
Árni Þórarinn er einn skráður eigandi jarðarinnar Hrífuness í Skaftártungu og tók umboðið sérstaklega til hennar allrar ásamt húsum, hlunnindum og fullvirðisrétti. Þrátt fyrir það telja þeir sem kærðu að arfur foreldra hans sé enn óskiptur að hluta og því sé hann í raun ekki eini eigandinn. Árni Þórarinn á engin börn en löglegir erfingjar hans eru þau systkini hans er enn lifa, Kjartan og Þórunn Jónsbörn.
Einar Oddsson, sýslumaður í Vík, hefur málið nú til rannsóknar. Hann mun kalla til lækni til að meta hvort Árni Þórarinn hafi getað gert sér grein fyrir afleiðingum umboðsins. Einnig beinist rannsóknin að því með hvaöa hætti það var útgefið. -gse
Akaflega einkennilegt mál
segir Gunnar Jonsson lögfræðingur
„Þetta er allt saman ákaflega einkennilegt mál. Allt frá því að gamli maðurinn fór af jörðinni hefur verið grimmdarleg ásókn utanaðkomandi manna í hana. Nú, þegar Kjartan bróðir hans hugðist flytja að Hrífunesi, hafa þeir ákveðiö að láta sverfa til stáls með þessum svívirðilega hætti,“ sagði Gunnar Jónsson, lögfræðingur og einn þeirra ættingja Árna Þórarins sem kært hafa umboð hans tif Þórarins Sigurjónssonar og Sigurðar Ævars Harðarsonar.
„Persónulega lít ég ekki eins alvarlega á aðstoðarmennina og aðalmennina. Þó er þeirra þáttur einkennilegur. Þeir geta ekki skírskotað til þekkingarleysis þar sem þeim var fullkunnugt um andlegt ástand gamla mannsins. Það er hreint vanalegt að forstöðumaðurinn skuli taka þátt í þessu. En þáttur aðalmannanna er þó verri og þá sérstaklega frænda míns, Þórarins Sigurjónssonar. Þessi maður, sem aldrei sagði orð á þingi nema einu sinni „lokið glugganum“, heldur vann á bak við tjöldin, virðist nota sömu aðferð nú. Hann hefur engin samskipti haft við okkar ættfólk fyrr en nú að hann seilist í jörð gamla mannsins. Ef hann skilaði umboðinu gæti ég fyrirgefið honum hina lágu reisn, en þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir situr hann á því sem fastast,“ sagði Gunnar Jónsson.
Óskaði ekki eftir umboði
segir Þórarinn Sigurjónsson
„Ég fékk þetta umboð sent með ósk um að ég tæki að mér að sjá um eigur gamla mannsins. Ég óskaði aldrei eftir þessu hlutverki. En nú, þegar svo er komið að umboðið hefur verið kært, mun ég renna austur eftir og hafa samráð við Árna,“ sagði Þórarinn Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismaður og bóndi að Laugardælum. Þórarinn sagðist hafa heyrt að mál þetta hefði verið kært en ekkert fengið um það að vita frá opinberum aðilum. „Ég dæmi ekki um heilsufar manna,“ sagði Þórarinn um hvort Árni Þórarinn hefði verið vitandi vits um hvað fólst í umboðinu. „Maður getur aldrei dæmt um það. Ég hef heimsótt gamla manninn og talað við hann. Hann er ansi misjafn, en þessi sjúkdómur leggst einkum á líkamann svo hann verður óstyrkur.“