Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, kallar eftir því að einhver félagasamtök skipuleggi neyðarsöfnun fyrir fólkið sem missti allt í brunanum í Hafnarfirði um helgina. Samtals voru 17 manns skráðir til heimilis í húsinu, þrátt fyrir að búseta hafi verið ólögleg. Fólkið sem bjó þar var augljóslega ekki efnað og má raunar segja að þetta hafi verið hálfgerð þrælakista, í boði stjórnvalda sem gera lítið til að stöðva ástandið þrátt fyrir að fulla vitneskju um stöðu mála.
Sjá einnig: Viðbragð stjórnvalda við ótryggu húsnæði hefur enn engu skilað nema „áformum“
Stefán segist hafa verið í nágrenni við brunan í gær. „Ég var á Reykjanesbrautinni þegar bruninn í Hafnarfirði stóð sem hæst. Það er sérkennilega ónotaleg tilfinning að keyra nær og nær þykkum dökkum reyk og vita ekkert um hvar upptökin eru,“ segir Stefán.
Hann segist vona að einhver skipuleggi neyðarsöfnun, því hann myndi gjarnan vilja leggja hönd á plóg. „Blessunarlega virðast engar manneskjur hafa slasast eða farist í eldsvoðanum, en það er líka ljóst að fólkið sem þarna bjó hefur nú misst allt sitt. Þau eru augljóslega ekki með neinar tryggingar og að öllum líkindum úr hópi þeirra lægst launuðu í samfélaginu. Gott væri ef einhver félagasamtök gætu skipulagt neyðarsöfnun – ég trúi því að mörg væru tilbúin að styrkja hana.“