Í kvöld ákvað Uppbyggingarhreyfingin, Movimiento Construye, í Ekvador að stilla Christian Zurita blaðamanni fram sem forsetaframbjóðanda fyrir kosningarnar á sunnudaginn í stað Fernando Villavicencio, sem drepinn var á kosningafundi fyrir viku. Zurita vann með Villavicencio að ýmsum fréttum sem snerust um meinta spillingu Rafael Correa í forsetatíð hans 2007-17. Correa vildi færa stjórnarstefnu Ekvador frá nýfrjálshyggju að sósíalisma og mætti mikilli andstöðu, meðal annars frá fjölmiðlunum sem nær allir eru í eigu auðugra ætta í Ekvador.
Zurita var stillt fram þar sem vafi lék á hvort varaforsetaefni væri heimilt að hætta við framboð sitt til að taka við forsetaframboði. Uppbyggingarhreyfingin hætti því við að stilla Andreu González Náder fram og verður hún varaforsetaefni Zurita.
Luisa González, frambjóðandi Byltingarhreyfingar borgara, Movimiento Revolución Ciudadana, leiddi í skoðanakönnunum fyrir morðið á Villavicencio, mældist með um 36% fylgi á meðan Villavicencio var með um 12% og aðrir frambjóðendur minna. Í fyrstu könnunum eftir morðið virðist sem fylgi við González hafi fallið, enda vill hægrið kenna henni og vinstrimönnum um morðið.
Í samtali við Rauða borðið sagðist Alex Jativa Ramos, íslenskur Ekvadori, ekki hafa neina trú á þeim ásökunum. Hann taldi líklegast að morðið væri tengt glæpasamtökum sem hefðu náð æ meiri ítökum í Ekvador á síðustu árum. Þar ríkti nú óöld, morðtíðnin væri farin fram úr því sem hún er í Mexíkó. Alex sagði að Ekvador hefði verið fyrir skömmu öruggasta land álfunnar ásamt Chile en væri nú orðið með þeim óöruggari.
Í gær var Pedro Briones, leiðtoga Byltingarhreyfingar borgara í Esmeraldas-héraði myrtur. Agustín Intriago, borgarstjóri Manta-borgar, var myrtur í fyrra mánuði.
Heyra má og sjá viðtalið við Alex Jativa Ramos um óöldina í Ekvador í spilaranum hér að neðan: