Við erum með kröfur um að komið sé fram við okkur á mannsæmandi hátt

Flóttafólk 24. ágú 2023

Á fundi 28 mannúðarsamtaka í húsi Hjálpræðishersins var lesin upp yfirlýsing frá flóttafólki, en þau sem sömdu þá yfirlýsingu vildu ekki sjást af ótta við að verða útmáluð vegna afstöðu sinnar og orða þar sem þau hafa umsóknir hjá Útlendingastofnun eru ennþá í ferli. Yfirlýsingin er ósk um mannúðlega meðferð og betri stuðning, en fyrst og fremst um hæli.

Þessu vildi fólkið koma á framfæri:

Kæru áheyrendur og ráðherrar,

Rödd okkar, fólks sem hér hefur sótt um alþjóðlega vernd, þarf að fá að heyrast í umræðu um tilveru okkar og framtíð. Við erum með kröfur um að komið sé fram við okkur á mannsæmandi hátt. Þessar kröfur þurfa að ná eyrum almennings, fjölmiðla og sérstaklega stjórnvalda, sem bera jú ábyrgð á málum okkar hér. Það er mikilvægt að þið náið utan um og skiljið kjarna þeirra grunnþarfa sem okkur er neitað um af hálfu yfirvalda.

Flest okkar koma frá mjög óöruggum löndum þar sem ríkir mikill óstöðugleiki. Sú staðreynd er ástæða þess að við erum komin hingað að sækja um vernd.

Nú hefur okkur verið hent á götuna.

Það að vera umsækjendur um alþjóðlega vernd jaðarsetur okkur gífurlega í samfélaginu. En okkur er líka mismunað í ferlinu sjálfu, þar sem ferlið tekur óratíma fyrir sum, jafnvel mörg ár, en ekki nema örfáar vikur fyrir önnur.

Nýleg breyting sem dómsmálaráðherra gerði á því hvernig lögfræðiaðstoð okkar er háttað hefur orðið til þess að stundum eru lögfræðingar sem hafa enga þekkingu né reynslu á útlendingalöggjöf og flóttamannarétti látin sjá um mál okkar. Sum þessara lögfræðinga eru jafnvel opinberlega andsnúin fólki á flótta og hafa skrifað greinar í blöðin um þau efni. Hvernig eigum við að treysta þeim að vera málsvarar okkar?

Við erum núna stödd á landi þar sem frjálslynd lýðræðisleg gildi eru höfð að leiðarljósi í stefnumótun og mannréttindi eru virt. Á sama tíma óttumst við á hverjum degi að lögregla þessa lands neiti okkur um þá grunnþjónustu sem á að vera tryggð fyrir fólk í okkar stöðu: vikulega fjárhagsaðstoð, heilbrigðisþjónustu og húsnæði.

Jafnvel þegar við fáum fjárhagsaðstoðina dugir hún varla fyrir nauðsynjum út vikuna. 10 þúsund krónur eru of lítið, 3-5 þúsund krónum meira myndi strax gera gæfumuninn. Það, eða Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun, gætu byrjað að samþykkja umsóknir okkar um tímabundið atvinnuleyfi á meðan á umsóknarferli okkar stendur. Þá gætum við séð fyrir okkur sjálf.

Í sannleika sagt þá er það hreinlega ómannúðlegt að henda flóttafólki á götuna líkt og gert hefur verið. Það gengur í berhöggi við heiður og orðspor þessa lands, þar sem Ísland var eitt sinn fánaberi mannréttinda og stóð vörð um þau. Eða þannig leit það a.m.k. út utan frá.

Það sem skiptir okkur mestu máli er að tryggja það að lögreglan flytju okkur ekki nauðug úr landi, aftur til upprunalanda okkar þar sem mjög miklar líkur eru á því að við munum týna okkar dýrmæta lífi, þar sem öll höfum við flúið aðstæður þar sem lífi okkar var ógnað af glæpamönnum eða hryðjuverkamönnum. Nú er lífi okkar ógnað af íslenskum stjórnvöldum, en þið virðist ætla að murka úr okkur lífið á hægan og kvalafullan hátt.

Þetta eru þau atriði sem hafa hvað neikvæðustu áhrif á líf okkar á Íslandi.

Sjálfur hefði ég gjarnan vilja koma upp í pontu og halda ræðu, en núverandi stjórnmálamenn í ríkisstjórninni eru ekki miskunnsami Samverjinn, svo að ég óttaðist að verða útmálaður vegna afstöðu minnar og orða þar sem umsókn mín hjá Útlendingastofnun er ennþá í ferli.

Þetta á við um flest okkar: við búum við ótta um að verða skotmark Útlendingastofnunar fyrir það eitt að tala um þarfir umsækjenda um alþjóðlega á opinberum vettvangi.

Spurning okkar er: hvernig haldið þið að það leysi nokkurn vanda að auka við heimilisleysi í þessu landi, og hvers vegna veljið þið þessa leið þegar hægt er að fara leiðir sem hafa mannsæmd og mannréttindi í heiðri?

Hvers vegna ekki að gefa okkur vernd, jafnvel bara af mannúðarástæðum, og leyfa okkur að hefja hér líf og auðga samfélagið?

Takk fyrir áheyrnina.

Myndin er yfirlitsmynd af fundinum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí