Viðskiptablaðið segir Þórdísi Kolbrúnu handónýtan ráðherra

Enn magnast upp stjórnarandstaða Viðskiptablaðsins gagnvart forystu Sjálfstæðisflokksins, nú í aðdraganda flokksráðsfundar flokksins á morgun, sem margir vilja að snúist um reikningsskil kjörinna fulltrúa gagnvart hundóánægðri grasrót. Óðinn, sem er eitt af fjölmörgum leyndarheitum Viðskiptablaðsins, gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og varaformann flokksins sérstaklega í dag, segir hana handónýtan ráðherra.

„Alltaf skulu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins bregðast kjósendum sínum, skattgreiðendum og öðrum þeim sem skapa verðmæti í samfélaginu,“ byrjar Óðinn reiðilestur sinn sem hann nefnir: Handónýtur utanríkisráðherra og sturlunin í stjórnarráðinu.

Tilefni þessara skrifa eru mengunarskattar sem leggjast á íslensk skipafélög og sem Viðskiptablaðinu finnst að ríkisstjórnin hefði átt að semja sig frá. Og svör Þórdísar Kolbrúnar um að aldrei hafi staðið til að semja um undanþágur heldur sé hún sammála þessum sköttum fara einkar illa í Óðinn og Viðskiptablaðið.

„Óðinn telur að utanríkisráðherrann hafi með þessu dæmt sjálfan sig úr leik sem hugsanlegur arftaki Bjarna Benediktssonar – sem auðvitað hefur ekkert tjáð sig um mengunarskattinn á íslenskan almenning í gegnum skipafélögin. Það er víst jú þannig að Engeyingarnir eiga lítið, ef nokkuð, í Eimskipafélaginu,“ skrifar Óðinn.

Og hann heldur áfram: „Þórdís hefur gert þetta bæði með því að verja algjört sinnuleysi starfsmanna í utanríkisráðuneytinu, sem eru á annað hundrað talsins, en ekki síður með því að standa með fráleitum sköttum Evrópusambandsins gegn hagsmunum íslensk almennings. Reyndar var bent á það á síðum Viðskiptablaðsins í haust að Þórdís hefði raunar þegar gert það, þegar hún flutti ráðuneyti sitt í dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi.“

Óðinn vitnar svo í leyndar-félaga sinn á Viðskiptablaðinu, Tý, sem skrifaði um kaup á skrifstofuhúsnæðinu: „Það sem gerir málið enn verra, er að inn í dýrasta skrifstofuhúsnæði á Íslandi ætlar varaformaður Sjálfstæðisflokksins að koma sér fyrir ásamt öðru starfsfólki í einu ónauðsynlegasta ráðuneyti landsins, og er samkeppnin nokkuð hörð. Einn fjölmiðill greindi frá því Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafi barist fyrir því komast með ráðuneyti sín inn í höllina. Ef rétt er þá felast í því nokkur tíðindi. Þær ætla sér greinilega hvorugar að sækjast eftir formennsku í Sjálfstæðisflokknum.“

Þetta er stemmingin í Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda flokksráðsfundar. Það sýður á mörgum, bæði þeim sem flokka má sem grasrót almennra flokksfélaga en ekki síður á þeim sem telja sig tala fyrir munn þeirra sem standa í fyrirtækjarekstri.

Myndin er af netútgáfu af reiðilestri Óðins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí