Systkinin sem seldu Vísi í Grindavík voru tekjuhæsta fólkið á Íslandi í fyrra, skiptu með sér 20 milljörðum króna sem Síldarvinnslan borgaðir fyrir hlutafé í þessu félagi. Verðmæti félagsins er að stærstu leyti aðgengi þess að auðlindum almennings, ríkulegar fiskveiðiheimildir gegn vægu gjaldi. En systkinin duttu ekki bara í þennan lukkupott, að geta í reynd selt eignir almennings. Þar sem stjórnvöld meta fjármagnstekjur með allt öðrum hætti en launatekjur þurfa systkinin að borga miklu minni skatta fyrir að selja þessar eignir en ef þau hefðu aflað teknanna með launavinnu. Mismunurinn er gríðarlegur, rúmlega 4,8 milljarðar króna. Sem kalla má gjöf okkar til þeirra systkina. Ofan á gjöfina að fá að selja auðlindir almennings.
Samkvæmt skattskrá Heimildarinnar fékk Pétur Hafsteinn Pálsson mest í sinn hlut og var með tæplega 4,1 milljarða króna i tekjur á síðast ári. Hann borgaði tæpar 903 m.kr. í skatt, en hefði borgað 1.885 m.kr. ef þessar tekjur hefðu verið skattlagðar sem launatekjur. Hann fær því um 982 m.kr. i bónus frá skattinum.
Næstur koma eiginmenn systranna Sólnýjar og Kristínar Elísabetar en þeir eru skráðir fyrir sameiginlegu framtali hjóna. Þeir Sveinn Ari Guðjónsson og Ágúst Þór Ingólfsson eru með sitthvorar 3.232 m.kr. í tekjur og greiða af því samanlagt 1.420 m.kr. í skatt en hefðu borgað 2.986 m.kr. ef samskonar skattur hefði verið lagður á þeirra tekjur og tekinn er af launafólki. Mismunurinn er um 783 m.kr. og hvora fjölskyldu.
Síðan koma systkinin Svanhvít Daðey, Margrét og Páll Jóhann, sem öll voru með 3,2 milljarða króna í tekjur í fyrra. Þau borguðu um 705-710 m.kr. í skatt hvert en hefðu borgað 1.478 m.kr. ef þau hefði verið skattlögð sem launafólk.
Samanlagt nemur skattaafslátturinn til þessa fólks um 4.857 m.kr. Afslátturinn er réttlættur með því að fjármagnstekjur séu á einhvern hátt betri tekjur en launatekjur, að þau sem láta auðinn vinna fyrir sig og nota hann til að láta annað fólk vinna fyrir sér, nýta auðlindir almennings til skapa sér auð; að það fólk eigi að skattleggja vægar en þau sem vinna í svita síns andlits.
Systkinin greiða um 22% skatt af tekjum sínum í fyrra. Það er álíka hlutfall og þau borguðu sem höfðu rétt tæplega 500 þús. kr. í tekjur á mánuði í fyrra, tekjur sem vart duga fyrir framfærslu.
Myndin er af systkinunum úr kynningarefni í tilefni af 50 ára afmæli Vísis fyrir nokkrum árum.