VR um leikskóla Kópavogs: Kjaraskerðing fjölskyldufólks og afturför í jafnréttisbaráttunni

Börn 23. ágú 2023 Gunnar Smári Egilsson

Stjórn VR gagnrýnir harðlega breytingar á leikskólamálum Kópavogsbæjar sem munu hafa í för með sér skerðingu á kjörum launafólks og geta fært jafnréttisbaráttuna mörg ár aftur í tímann.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt breytingar á skipulagi leikskóla og leikskólagjöldum sem eiga að taka gildi um næstu mánaðamót. Þessar breytingar fela í sér skerðingu á starfsemi leikskóla, sem eru ekki eingöngu fyrsta skólastig barna heldur líka grundvöllur þess að báðir foreldrar ungra barna geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu, eins og nauðsynlegt er til að tryggja afkomu fjölskyldna. Leikskólagjöld munu hækka umtalsvert fyrir stóran hluta foreldra eða draga úr möguleikum þeirra til að sækja fulla atvinnu. Leikskólamál eru þannig kjaramál sem skipta launafólk miklu máli.

Leikskólamál eru ekki síður jafnréttismál því umönnun ungra barna er að meirihluta enn í höndum kvenna. Fyrirætlanir stjórnvalda og sveitarfélaga um að brúa umönnunarbilið sem er milli fæðingarorlofs og almennra leikskóla hafa runnið út í sandinn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi barna kemst ekki að á leikskólum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Fækkun dagforeldra og skortur á ungbarnaleikskólum gerir að verkum að fjölmargar fjölskyldur vita ekkert hvort og þá hvenær báðir foreldrar geta snúið til vinnu eftir að fæðingarorlofi lýkur. Óvissan hefur aukist, fremur en hitt. Þetta hefur í för með sér bæði kjaraskerðingu og óöryggi fyrir fjölskyldur og býður heim hættunni á miklu bakslagi í jafnréttismálum.

Rök Kópavogsbæjar fyrir skerðingu á þjónustu leikskóla eru m.a. stytting vinnuvikunnar og aukið orlof. Hér er látið eins og umfangsmikil stytting vinnuvikunnar hjá hinu opinbera og lenging orlofs hafi gengið yfir allan vinnumarkaðinn, sem er fjarri lagi. Á almennum vinnumarkaði er vinnutíminn oft lengri og orlof og orlofsávinnsla önnur. Stærstur hluti foreldra leikskólabarna starfar á almennum vinnumarkaði. Þessu má ekki sópa undir teppið og fela sig á bak við hálfsannleika.

Stjórn VR telur að stytting leikskóladags sé æskileg en að henni verði ekki náð fram með því að setja frekari byrðar á herðar foreldra ungra barna og auka á kjaraskerðingu fjölskyldna á viðkvæmu tímabili lífsins. Stjórn VR lýsir jafnframt yfir fullum stuðningi við kjarabætur starfsfólks leikskóla og að starfsaðstæður þar verði bættar, starfsfólki, foreldrum og leikskólabörnum til heilla.

VR skorar á bæjastjórn Kópavogs að endurskoða ákvörðun sína og stuðla ekki að kjaraskerðingu barnafólks og afturför í jafnréttismálum.

Frétt af vef VR.

Myndin er samsett, af VR-fána og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí