Samstöðin greindi frá því í sumar þegar borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands lögðu fram tillögu um fræðslu til unglinga vegna stéttaskiptingar og fátæktarandúðar. Í stuttu máli snerist hún um að Reykjavíkurborg kæmi á laggirnar fræðslu um stéttskiptingu og afleiðingar hennar í samfélaginu. Með samþykkt hennar myndu unglingar í felagsmiðstöðvum fá fræðsluna.
Skóla- og frístundaráð tók tillöguna fyrir í lok ágústmánaðar en meirihluti ráðsins ákvað að beita sér gegn henni og felldi tillöguna. Meirihluti ráðsins er skipaður flokkum Samfylkingar, Framsóknar og Pírata. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands kaus með tillögunni en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Meirihlutinn skilaði engri bókun undir liðnum og því ekki ljóst hvers vegna tillagan var felld.
Tillagan sem meirihluti skóla- og frístundaráðs felldi:
Lagt er til að Reykjavíkurborg komi á laggirnar, í samstarfi við félagsmiðstöðvar grunnskóla, fræðslu um stéttaskiptingu og afleiðingar hennar í samfélaginu. Inni í þeirri fræðslu verði farið yfir ýmsar birtingarmyndir stéttaskiptingar og hvernig fátæktarandúð (e. aporophobia) hefur áhrif á fólk sem verður fyrir henni. Birtingarmyndum fátæktarandúðar verði einnig gerð skil í fræðslunni. Leitað verði til samtaka sem hafa þekkingu og reynslu af fátækt, stéttaskiptingu og afleiðingum þeirra til að sinna fræðslunni. Einnig verði fólki með fagþekkingu á sviði sálfræði og félagsráðgjafar falið að fræða ungmenni um áhrif stéttaskiptingar og fátæktarandúðar á andlega líðan þeirra lægst settu eða þeim sem verða fyrir barðinu á andúðinni. Foreldrum ungmenna á frístundamiðstöðvum og leiðbeinendum verði einnig boðið upp á fræðslu. Nánari útfærsla skal unnin hjá skóla- og frístundasviði, í samstarfi við samtök og aðila með reynslu eða þekkingu af fátækt og stéttaskiptingu.