Í gær lögðu borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands fram tillögu í borgarráð um að fræða unglinga um stéttskiptingu og fátæktarandúð. Í stuttu máli snýst tillagan um að Reykjavíkurborg komi á laggirnar fræðslu um stéttskiptingu og afleiðingar hennar í samfélaginu. Verði tillagan samþykkt myndu unglingar í felagsmiðstöðvum fá fræðsluna.
Í tillögunni segir meðal annars: „Inni í þeirri fræðslu verði farið yfir ýmsar birtingarmyndir stéttaskiptingar og hvernig fátæktarandúð (e. aporophobia) hefur áhrif á fólk sem verður fyrir henni. Birtingarmyndum fátæktarandúðar verði einnig gerð skil í fræðslunni. Leitað verði til samtaka sem hafa þekkingu og reynslu af fátækt, stéttaskiptingu og afleiðingum þeirra til að sinna fræðslunni. Einnig verði fólki með fagþekkingu á sviði sálfræði og félagsráðgjafar falið að fræða ungmenni um áhrif stéttaskiptingar og fátæktarandúðar á andlega líðan þeirra lægst settu eða þeim sem verða fyrir barðinu á andúðinni.“
Það er ljóst að fólk af lægri stéttum verður fyrir ýmsum fordómum frá þeim sem hafa það betur. Þannig er viðhorf samfélagsins til þeirra sem tilheyra lágstétt mjög lituð af fordómum. Þessir fordómar eiga sér margar birtingarmyndir, svo sem í persónulegum samskiptum við annað fólk en einnig á opinberum vettvangi. Í greinagerð tillögunnar er bent á að margt fátækt fólk tekur þessi viðhorf inn á sig og fer jafnvel að halda að lífsaðstæður þeirra sé þeim sjálfum að kenna en ekki samfélagi sem viðheldur mismunandi stéttum.
Í greinagerðinni segir einnig: „Ójöfnuður hefur einnig neikvæð áhrif á andlega líðan fólks. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ójöfnuður getur ýtt undir andlega kvilla og veikindi. Fátækt hefur líka svipað samband við andlega kvilla. Mikilvægt er að ungmenni, foreldrar og leiðbeinendur séu meðvitaðir um afleiðingar ójöfnuðar og fordómunum sem birtast vegna hans og fátæktar. Margt ungt fólk hefur ekki vitneskju um afleiðingar ójöfnuðar og fátæktar. Því er mikilvægt að fræðslan sé til staðar. Sporna þarf einnig gegn fordómum og andúð gagnvart fátækt með slíkri fræðslu.“