Á miðvikudag liðinnar viku birtust fjórir bátar í grennd við Kanaríeyjar, ýmist undan ströndum Lanzarote, El Hierro eða Tenerife, með alls 284 manneskjur um borð, á leið frá Afríku, utan áætlaðra siglinga eða boðleiða stjórnvalda. Þarmeð hafa alls yfir 14 þúsund manneskjur komið þessa leið til Kanaríeyja á 252 bátum, bátskænum og gúmbátum á þessu ári. Það eru 20 prósent fleiri en allt árið 2022 og þýðir að nú hafa um 70 þúsund manns komið þá leið til eyjanna það sem af er þessum áratugi.
Á eynni El Hierro birtist upp úr klukkan sjö um morguninn einfaldur, hefðbundinn trébátur af gerð sem nefnist kallast cayuco, með 66 farþega um borð. Þau komust til hafnarinnar La Restinga á eigin spýtur. Á meðal farþeganna voru þrjár konur, kornabarn og tvö börn á aldrinum þriggja til sex ára. Tveir karlmenn voru fluttir á sjúkrahús, bæðir vegna blóðsykurfalls og annar með höfuðáverka.
VIð Lanzarote bárust sjóbjörgunarsveitum fréttir af gúmbát á leið til eyjarinnar. Báturinn fannst um 73 kílómetra austur af eynni og var farþegum hans bjargað til hafnar, alls 49 manns, þar af fjórum konum og kornabarni.
Þriðji báturinn sem vart varð við á leið til eynna þennan miðvikudag var trébátur af gerðinni patera, í aðeins um 100 metra fjarlægð frá ströndinni Arieta. Vélin í bátnum hafði bilað og var fiskibátur á svæðinu beðinn um að halda sig í grenndinni þar til sjóbjörgunarsveitir komu á staðinn. 33 manneskjur voru um borð, 27 karlar og sex konur. Þau voru færð til Arrecife hafnar.
Í fjórða báti dagsins voru loks 136 farþegar, þar á meðal fimm konur. Þau væru færð til Los Cristianos hafnar, samkvæmt upplýsingum Rauða krossins. Tíu voru færð til aðhlynningar vegna bruna sem þau höfðu orðið fyrir, af blöndu eldsneytis og sjávar.Canarian Weekly greindi frá.
Árið 2006 komu 31.000 manns þessa leið, utan opinberra boðleiða, til Kanaríeyja. Var þá rætt um cayucos-krísuna, eftir fyrrnefndri gerð báta. Cayuco-bátar eru algengir við fiskveiðar í Senegal og Máritaníu, og sannarlega ekki hepplegir til úthafssiglinga. Í millitíðinni hefur farþegum á þessari leið fækkað allt niður í 1.500 á ári, en farið fjölgandi á ný.