Allir formennirnir með sína flokka vel undir fylginu þegar þeir tóku við

Á tveimur árum hefur fylgi ríkisstjórnarflokkanna fallið úr 54,3% í kosningum niður í 34,5% samkvæmt nýrri könnun Gallup. Rúmur þriðjungur, um 36,5% kjósenda, hefur yfirgefið flokkana.

Til samanburðar þá fengu ríkisstjórnarflokkarnir í Danmörku 50,1% í kosningunum í lok síðasta árs en mælast nú með 39,8%, fimmtungur er farinn, 20,6%. Í Noregi fengu Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn 39,8% í kosningum um haustið 2021 og mynduðu minnihlutastjórn. Nú mælist fylgi þessara flokka 27,6%, tæpur þriðjungur kjósenda er farinn, um 30,7%. Hægri flokkarnir þrír sem mynduðu ríkisstjórn í Svíþjóð eftir kosningarnar síðasta haust fengu aðeins 29,1% atkvæða, starfa í skjóli Svíþjóðardemókrata sem fengu 20,5% atkvæða. Fylgi flokkanna þriggja mælist nú 26,1%, einn tíundi er farinn, 10,3%.

Í Þýskalandi var mynduð ríkisstjórn 2021 sem samanstendur af Sósíaldemókrötum, Græningjum og Frjálsum demókrötum og fengu flokkarnir samtals 52% atkvæða. Nú mælist fylgi þessara flokka 38%, rúmur fimmtungur kjósenda farinn eða 26,9%.

Þannig má labba um Evrópu í leit að ríkisstjórn sem hefur misst jafn mikið umboð og stuðning og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, en það erfitt að finna nokkur dæmi sem telja má sambærileg. Það er þá helst í Bretlandi. Íhaldsflokkurinn fékk 43,6% atkvæða í kosningunum 2019. Síðan hefur flokkurinn gengið í gegnum nánast stöðuga hörmungatíð. Hann mælist nú með 25-30% í könnunum, er búinn að missa frá sér 31-43% kjósenda. Þetta er það dæmi sem er líkast stöðu ríkisstjórnar Katrínar, þótt samanburður við bresk stjórnmál sé ætíð hæpinn.

Bjarni tapað þremur þingmönnum

Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins 29. mars 2009 í uppgjörinu eftir Hrunið og hefur verið formaður í 14 ár og fimm mánuði. Þegar Bjarni tók við mældi Gallup fylgi flokksins 26,6%. Í könnun Gallup mældist fylgið 21,1%. Bjarni hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum fimm kosningar þar sem flokkurinn hefur fengið á bilinu 23,7% til 29,0%, að meðaltali 25,8%. Bjarni er því með flokkinn neðar en þegar hann tók við honum og undir eigin frammistöðu í kosningum.

Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24,4% atkvæða 16 þingmenn. Síðan bættist einn við þingflokkinn þegar Birgir Þórarinsson yfirgaf Miðflokkinn. Samkvæmt Gallup nú hefur flokkurinn misst frá sér 3,3 prósentur og fengi 14 þingmenn, tapaði þremur.

Katrín tapað fjórum þingmönnum

Katrín Jakobsdóttir tók við sem formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs 24. febrúar 2013 í aðdraganda kosninga þar sem stefndi í afhroð flokksins. Hún hefur setið í embætti í tíu ár og rúma sex mánuði. Þegar Katrín tók við mældi Gallup fylgi Vg 7,4% en í könnun Gallup er fylgið 5,9%. Katrín hefur leitt Vg í fjórum kosningum, uppskorið frá 10,8% til 16,9%, að meðaltali 14,1%. Katrín er því með sinn flokk undir eigin meðaltali og þeirri stöðu sem hún tók við.

Í síðustu kosningum fékk Vg 12,6% atkvæða og 8 þingmenn. Samkvæmt Gallup nú hefur flokkurinn misst frá sér 6,7 prósentur og fengi 4 þingmenn, tapaði fjórum.

Sigurður Ingi tapað átta þingmönnum

Sigurður Ingi Jóhannsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins 2. október 2016 í kjölfar birtingu Panamaskjalanna vorið áður. Sigurður Ingi hefur verið formaður í sex ár og ellefu mánuði. Gallup mældi fylgi flokksins 9,8% um það leyti sem Sigurður Ingi tók við en í nú mælist fylgi flokksins 7,5%. Sigurður Ingi hefur leitt Framsókn í þrennum kosningum og uppskorið frá 10,7% til 17,3%, fengið að meðaltali 13,2% atkvæða. Sigurður Ingi er því með sinn flokk undir eigin meðaltali og þeirri stöðu sem hann tók við.

Í síðustu kosningum fékk Framsókn 17,3% atkvæða og 13 þingmenn. Samkvæmt Gallup nú hefur flokkurinn misst frá sér 9,8 prósentur og fengi 5 þingmenn, tapaði átta.

Samanlagt hafa formennirnir tapað miklu fylgi. Flokkarnir fengu 54,3% atkvæða og 38 þingmenn. Miðað við stöðuna nú er fylgið komið niður í 34,5%, 19,8 prósentur hafa snúið baki við flokkunum. Og ef kosið væru nú myndu 15 stjórnarþingmenn af 38 missa vinnuna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí