Hægt að leggja 100 kílómetra af lestargöngum fyrir 300 milljarðana sem Borgarlínan kostar

300 milljarða króna. Fyrir þessa formúgu þá fá borgarbúar svo ekki meiri byltingu í samgöngu en sérstakar akreinar fyrir Strætó. Það er því ekki nema von að sumir spyrji sig hvort það sé góð nýting á 300 milljörðum. Einn þeirra er fréttamaðurinn Heimir Már Pétursson en hann bendir á í pistli á Facebook að fyrir þennan pening hefði til dæmis mátt leggja góðan grunn að neðanjarðarlestakerfi. Sem væri talsvert meiri bylting en skilvirkari Strætó. Hann segir að miðað við reynslu Dana þá hefði mátt leggja 100 kílómetra af lestargöngum í Reykjavík fyrir þann pening sem nýjar akreinar fyrir Strætó hafa kostað.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Heimis í heild sinni.

Í ljósi þess að verkefnið snýst, í grófum dráttum, einungis um að leggja sérstakar akreinar fyrir Strætó þá er ekki furða að  

300 milljarða króna alltof mikið fyrir ekkert nema nýjar akreinar

Nú er talið að Borgarlína og önnur verkefni samgöngusáttamálans, muni kosta 300 milljarða króna. Það eru miklir peningar fyrir sérstakar akreinar fyrir strætisvagna milli borgarhluta höfuðborgarsvæðisins, brú eða göng Sundabrautar, stokka á Sæbraut og Miklubraut og fleira.

Á sama tíma má enginn málsmetandi aðili heyra minnst á neðanjarðarlestarkerfi sem miklu mun fleiri myndu nota en nokkru sinni hraðstrætisvagna á nokkrum aðalleiðum. Málið er afgreitt út borðinu á 5 sekúndum: Allt of dýrt – við erum of fá. – Semsagt mótrökin eru algert kjaftæði.

Samkvæmt mínum heimildum kostar hver boraður kílómetri ganga á bilinu 2-3 milljarða. Segjum þrjá milljarða til að vera nær íslenskri áætlanagerð. Fyrir 300 milljarða mætti leggja 100 kílómetra af lestargöngum !

Frábært og mikið notað nýtt neðanjarðarlestarkerfi Kaupmannahafnar er 38,2 kílómetrar. Svipuð vegalengd ætti að duga höfuðborgarsvæðinu. Kostnaðurinn yrði um 120 milljarðar, tæplega helmingur kostnaðarins við samgöngusáttmálann. Það væri því stór upphæð afgangs til að fara í stokka og brýr. Til að gæta allrar sanngirni væri þetta bara kostnaðurinn við að bora göngin og þá er allur annar kostnaður eftir.

Í stað þess að standa í íslenskum næðingi og bíða eftir Borgarlínu, væri hægt að ganga þurrum fótum á næstu neðanjarðarlestarstöð og vera kominn hvert sem er á höfuðborgarsvæðinu á 15 mínútum eða skemmri tíma.

Hundruð ef ekki þúsundir karla og kvenna, allt frá verkamönnum með skóflu til færustu verkfræðinga, arkitekta og annarra sérfræðinga fengju vinnu í tvo til þrjá áratugi við hönnun og lagningu neðanjarðarlestarkerfis sem, eins og í Kaupmannahöfn, yrði tekið í gagnið í áföngum samkvæmt langtíma áætlunum.

Þegar kerfið væri tilbúið nýtir það EINGÖNGU INNLENDA ORKU. Þetta yrði fjárfesting til margra alda og því engin ástæða að ætla sér að taka skammtímalán fyrir verkefninu. Þetta yrðu lán sem yrðu framlengd í eitt til tvö hundruð ár þess vegna. En ég veit, Íslendingum er mjög framandi að hugsa í langtímaáætlunum. Við erum inn við beinið bændur og vertíðarfólk sem miða allt við fjórar árstíðir.

Það er gott og nauðsynlegt að hafa almenningsvagnakerfi sem virkar og er skjótvirkt. En það er blinda og fásinna að halda að það leysi umferðarvandann. Neðanjarðarlestarkerfi er svo augljós, hagkvæmur, skilvirkur og þægilegur kostur að það sætir undrun að allir skuli ekki sjá það. En það kemur að því, sennilega of seint þegar kostnaðurinn verður meiri.

Við hefðum við þurft að gera ráð fyrir neðanjarðarlestarstöðvum í skipulagi fyrir löngu. Það á að geyma svæði á höfuðborgarsvæðinu fyrir framtíðar neðanjarðarlestarstöðvar í skipulaginu. Það á að fá erlenda sérfræðinga í neðanjarðarlestarkerfum STRAX til að byrja að kortleggja kerfið.

Landsmenn verða brátt 400 þúsund. Fólksfjölgunin er miklu hraðari en nokkrar áætlanir gerðu ráð fyrir og allar spár Hagstofunnar orðnar úreltar. Við verðum hálf milljón innan eins til tveggja áratuga. Flestir búa á höfuðborgarsvæðinu eða 2/3 og þar eru flestir af tveimur milljónum ferðamanna sem brátt verða einnig mun fleiri.

Það er fásinna að byrja ekki strax að leggja drögin að neðanjarðarlestarkerfi. Mjög dýrkeypt fásinna sem verður að koma stjórnmálamönnum í skilning um. Eins og svo oft áður þarf að sprengja íslenska stjórnmálamenn út úr moldarkofa hugsanahættinum og fá þá til að horfast í augu við raunveruleikann, staðreyndir dagsins í dag og náinnar framtíðar jafnt sem fjarlægrar.

Á myndinni má sjá kort af 38,2 km löngu neðanjarðarlestarkerfi Kaupmannahafnar. Í grunninn er það þrjár línur sem allar hafa snertiflöt við stóra hringleið um borgina. Snilldarskipulag.

Þetta getum við líka gert. Skapar mikla atvinnu á þróunar- og framkvæmdatíma og nýtir eingöngu íslenska GRÆNA ORKU og dugar í mörg hundruð ár.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí