Bandaríska leikkonan Drew Barrymore hefur fallið frá áformaðri frumsýningu nýs misseris af spjallþætti hún stýrir á sjónvarpsstöðinni CBS, þar til verkföllum leikara og höfunda í Hollywood lýkur. Frestunina tilkynnti hún eftir hörð viðbrögð við fyrri áformum, sem hefðu falið í sér, ef ekki verkfallsbrot þá skort á samstöðu.
Fjórða misseri þáttanna átti að hefja göngu sína í dag, mánudag, og upptökur hafa þegar farið fram, þrátt fyrir að þrír höfundar við þættina, sem meðlimir í stéttarfélaginu Writers Guild of America, væru enn í verkfalli, sem staðið hefur yfir frá því í maí.
Barrymore lét um helgina frá sér yfirlýsingu á myndbandi þar sem hún bað höfunda og stéttarfélög innilega afsökunar. Samkvæmt fréttastofu BBC var Barrymore tárvot í myndbandinu en hún hefur síðan eytt því og birt formlegri, skrifaða, yfirlýsingu í þess stað.
Verkföll útbreidd í Bandaríkjunum
Áður hefur verið fjallað ítarlegar um verkföllin í Hollywood, en auk handritshöfunda eru bandarískir sjónvarps- og kvikmyndaleikarar í verkfalli. Samtök bandarískra hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks hafa staðið í verkföllum undanliðna mánuði, eins og getið er í sömu umfjöllun. Þá hófust í liðinni viku einhver umfangsmestu verkföll í bandarískum bílaiðnaði fyrr og síðar. Á Wikipediu má finna lista yfir verkfallsaðgerðir í Bandaríkjunum á þessu ári.