Um þessa helgi, 15. til 17. september, hefur verið boðað til umfangsmikilla mótmæla í 54 löndum um allan heim, til að krefjast þess að hætt verði brennslu jarðefnaeldsneyta, til að hemja hnatthlýnun og loftslagshörmungar. Mannréttindasamtökin Amnesty International segjast vænta þess að milljónir manna taki þátt í mótmælaaðgerðunum.
Mótmælasamkomurnar og aðferðir mótmælenda eru fjölbreytt eins og hóparnir að baki þeim. Á mynd sem fylgir fréttinni má sjá þátttakendur kröfugöngu í Madríd á Spáni. Í borginni Quezon á Fillipseyjum lögðust mótmælendur fyrir framan byggingu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, undir skiltum sem kröfðust þess að horfið verið frá notkun olíu og gas sem eldsneytis, og svo framvegis.
Hápunktur þessarar alþjóðlegudagskrár er ætlað að verði fjölmenn mótmælasamkoma í New York borg undir yfirskriftinni „March to End Fossil Fuels“: Gangan til að kveðja jarðefnaeldsneyti. Búist er við um 15 þúsund þátttakendum í þeirri göngu. 400 vísindamenn og 500 félagasamtök, stofnanir og hreyfingar hafa lýst stuðningi sínum við viðburðinn, en tímasetning mótmælanna ræðst ekki síst af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem er framundan, einmitt í New York.
Meðal bakhjarla hinna alþjóðlegu mótmæla eru samtök Gretu Thunberg, Fridays for Future, eða föstudagar í þágu framtíðar.
Á Íslandi virðist enginn hópur hafa boðað þátttöku í þessum alþjóðlega viðburði.