Mútuhneyksli á landamærunum skekur Pólland mánuði fyrir kosningar

Hneykslismál hefur skekið ríkisstjórn Póllands, nú þegar mánuður er til þingkosninga í landinu. Samkvæmt fréttum hefur fjöldi fólks fengið vegarbréfsáritanir og dvalarleyfi í landinu gegn mútugreiðslum sem nema allt að 5.000 evrum á hvert vegabréf, eða um 730 þúsund krónum. Donald Tusk, sem nú leiðir stærsta flokk stjórnarandstöðunnar, mið-hægri flokkinn Borgaralegan vettvang (Platforma Obywatelska), segir málið „líklega stærsta hneykslismál í Póllandi“ það sem af er þessari öld.

Nokkur hundruð manns eða 250.000?

Í umfjöllun pólskra fjölmiðla segir að málið hafi fyrst vakið athygli þegar önnur ríki innan Evrópusambandsins gáfu því gaum að óvenju hátt hlutfall innflytjenda ferðuðust um ytri landamæri Schengen-svæðisins með áritun frá Póllandi.

Hversu margt fólk er um að ræða er enn umdeilt: í blaðaumfjöllun hefur því verið haldið fram að 250.000 vegabréf hafi verið árituð fyrir mútur. Donald Tusk heldur þeirri tölu á lofti, og segir þann fjölda hafa fengið áritun gegn greiðslu á undanliðnum 30 mánuðum. Piotr Wawrzyk, nú fyrrverandi undirmaður utanríkisráðherra landsins, var leystur frá störfum án fyrirvara þegar fyrstu fréttir af málinu birtust. Samkvæmt fulltrúum ákæruvaldsins hafa sjö manneskjur verið færðar í varðhald vegna gruns um spillingu í útgáfu nokkur hundruð tímabundinna dvalarleyfa. Þeir segja rannsóknina hafa hafist fyrir rúmu ári síðan og standa enn yfir.

Fulltrúar stjórnvalda segja fjarri lagi að um 250.000 vegabréfsáritanir sé að ræða og málið takmarkist við nokkur hundruð. Forseti landsins, Andrzej Duda, segist bíða eftir niðurstöðum rannsóknarinnar áður en hann tjáir sig um smáatriði málsins en segir þó að samkvæmt hans upplýsingum sé að minnsta kosti „eitthvað“ ranghermt í þeim fréttum.

Andúð á innflytjendum útbreidd

Pólsk stjórnmál litast á síðustu árum mjög af andstöðu hægriflokksins Lög og réttlæti (Prawo i Sprawiedliwość), sem leiðir ríkisstjórn landsins, við innflytjendur, ekki síst flóttafólk. Pólsk stjórnvöld hafa þannig neitað að taka þátt í sameiginlegri áætlun Evrópusambandsins um móttöku flóttafólks, sem ætlað var að dreifa úrvinnslu umsókna og staðsetningu fólks á flótta um lönd álfunnar. Á sama tíma hafa stjórnvöld í landinu varið nokkru fé í að reisa stálmúr á landamærunum að Belarús, að sögn til að hindra ferðir fólks frá Mið-Austurlöndum og Afríku.

Pólsk stjórnvöld hafa verið sökuð um rasisma í þessu samhengi, enda hefur landið tekið flóttafólki frá Úkraínu, það er hvítu flóttafólki, opnum örmum, en um 1,3 milljón úkríanskra flóttamanna, að mestu konur og börn, eru nú skráð með aðsetur í Póllandi.

Allt uppnámið í kringum vegabréfshneykslið virðist litast af þessu andrúmslofti. Þó að almennt sé litið á Donald Tusk og fyrrnefndan mið-hægri flokk hans sem fordómalausara stjórnmálaafl virðist þó bera á þessu andrúmslofti andúðar í máli hans líka, þegar hann skrifar á X (áður Twitter): „Hver sem vill komast frá Afríku til Póllands getur farið í sendiráð okkar, keypt vegabréfsáritun í sérstökum bás, fyllt út eyðublað og lagt af stað. Innflytjendastefna Laga og réttlætis!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí