Óörugg umönnun sjúklinga ein helsta dánarorsök heims

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) gaf á dögunum út yfirlýsingu til að fylgja eftir yfirýsingu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) um mikilvægi öryggismenningar í þágu sjúklinga innan heilbrigðiskerfa.

2,6 milljónir deyja árlega vegna óöruggrar umönnunar

Í yfirlýsingu ICN kemur fram að „tjón sem sjúklingar verða fyrir vegna óöruggrar umönnunar er ein meginástæða dauðsfalla og fötlunar í heiminum og vaxandi áskorun í lýðheilsu.“ Í yfirlýsingunni segir að talið sé að í hátekjulöndum verði um tíundi hver sjúklingur fyrir skaðlegu atviki í umönnun en í lág- og millitekjulöndum sé hlutfallið fjórði hver sjúklingur. Þá segir að í heiminum verði alls um 2,6 milljón dauðsföll af þessum völdum ár hvert.

Þeir þættir í umönnun sem valda sjúklingum tjóni og stundum dauða eru helst sagðir þessir: mistök í lyfjagjöf, sýkingar sem verða á vettvangi heilbrigðisþjónustu, óöruggar aðferðir við skurðaðgerðir og við lyfjagjöf með sprautu, mistök í að bera kennsl á sjúklinga, skortur á tilvísanakerfi, villur í greiningu, mistök við blóðgjöf, mistök sem valda geislun, blóðsýking og blóðtappar.

Draga má úr tjóni og dauðsföllum með því að þróa og hrinda í framkvæmd áætlunum í þágu öryggis sjúklinga á öllum stigum heilbrigðiskerfa, segir í yfirlýsingunni. Þar er hugtakið „öryggi sjúklinga“ skrilgreint sem „umgjörð skipulagðra athafna sem skapar siðvenjur, ferla, farvegi, hátterni, tækni og umhverfi í heilbrigðisþjónustu sem statt og stöðugt dregur úr áhættu og fækkar tilfellum ónauðsynlegs tjóns, dregur úr líkum á mistökum og minnkar skaðann sem verður þegar mistök eiga sér stað.“

Þá segir að örugg mönnun í stöður við hjúkrun sé lykilþáttur í öryggi sjúklinga og veitingu hágæðaumönnunar í þágu jákvæðrar niðurstöðu fyrir sjúklinga.

Verja skuli sjúklinga frá tjóni alla daga

Á þeim forsendum lagði ráðið fram aðgerðaáætlun í sjö liðum. Sá fyrsti er að gera það að valda sjúklingum engum skaða að viðmiði í hugarfari, áætlanagerð og framkvæmd heilbrigðisþjónustu hvarvetna. Næsti er sá að koma á laggirnar há-áreiðanlegum heilbrigðiskerfum, sem viðhalda framúrskarandi öryggi þrátt jafnvel við hættulegar aðstæður, ásamt heilbrigðisstofnunum sem verja sjúklinga frá tjóni alla daga.

Á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar skoraði ráðið loks á ríkisstjórnir heimsins að auka verulega fjárfestingu og ráðningar, þróun, þjálfun og viðhald heilbrigðisstarfsfólks, sem lykilþátt í að draga úr því tjóni sem sjúklingar verða fyrir og auka öryggi þeirra. Fleiri áskorunar fylgdu í yfirlýsingunni. Í samræmi við þær skoraði ráðið á samtök hjúkrunarfræðinga í samstarfi við stjórnvöld í hverju landi að vinna með stjórnvöldum að þróun löggjafar um öryggi sjúklinga og tryggja framkvæmd og viðhald laganna. Loks skoraði ráðið á einstaka hjúkrunarfræðinga, í öllum hlutverkum starfa sinna, að leggja sitt af mörkum til þess að bæta öryggismenningu í þágu sjúklinga og halda í heiðri viðmið um öryggi sjúklinga í daglegum störfum sínum.

Yfirlýsingu Alþjóðaráðsins má lesa í heild á vef ráðsins.

Flestir hjúkrunarfræðingar á Íslandi hafa sætt mönnun undir öryggislágmarki

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lagði í sinni yfirlýsingu einkum áherslu á einn þátt í yfirlýsingu Alþjóðaráðsins, þann sem snýr að fjármögnun: „að auka fjárveitingar til að fjölga hjúkrunarfræðingum og halda í þá sem fyrir eru.“ Slík fjárfesting, sagði í yfirlýsingunni, „eykur öryggi sjúklinga.“

Samkvæmt yfirlýsingu FÍH kom fram í niðurstöðum síðustu kjarakönnunar félagsins að „meira en helmingur hjúkrunarfræðinga hér á landi hefur oft mætt til vinnu þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga.“

Þá vísar FÍH í yfirlýsingu sinni til fréttatilkynningar Alþjóðaráðsins, þar sem bent er á nýlega grein í vísindatímaritinu Lancet, þar sem fjallað er um áhrif Covid-19 faraldursins á öryggi sjúklinga: „Faraldurinn afhjúpaði nauðsyn þess að koma í veg fyrir að öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks sé stefnt í hættu. Það þarf að tryggja að hægt sé að veita örugga heilbrigðisþjónustu. Allur heimurinn þarf að bregðast við til að tryggja öryggi sjúklinga,“ samkvæmt tilkynningu félagsins.

Loks kemur fram að FÍH er „með áheyrn í verkefnahópi heilbrigðisráðherra sem ætlað er að leggja fram mönnunarviðmið í hjúkrun á legudeildum Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala.“ Niðurstöður verkefnahópsins verða kynntar næsta vor, segir félagið, „og er það jákvætt fyrsta skref.“

Samstöðin greindi fyrr í vikunni frá fjölmennum mótmælum og yfirvofandi verkföllum bandarísks heilbrigðisstarfsfólks, þar sem öryggi sjúklinga hefur einnig verið sett á oddinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí