Heilbrigðisstarfsfólk sem mótmælti fyrir utan Kaiser Permanente sjúkrahúsið í Los Angeles á mánudag var handtekið af lögreglu fyrir „borgaralega óhlýðni“, eftir að lögregla tilkynnti að samkoman væri ólögmæt. Alls voru 23 úr hópi mótmælendanna handtekin en sleppt eftir áminningu vegna borgaralegrar óhlýðni, að sögn lögreglu. Stéttarfélag starfsfólksins, Service Employees International Union-United Healthcare Workers West, staðfesti töluna.
Samkoman við sjúkrahúsið var áfangastaður kröfugöngu sem starfsfólkið gekk þann dag. Kaiser-keðjan er einn stærsti vinnustaður heilbrigðisstarfsfólks í Bandaríkjunum. Starfsfólkið sakar fyrirtækið um ósanngjarna meðferð, meðal annars sökum óöryggis sem skapist með undirmönnun. Nýleg könnun sem gerð var meða 33.000 heilbrigðisstarfsmanna leiddi í ljós að tveir þriðju sögðust persónulega hafa orðið vitni að því að umönnun væri frestað eða neitað vegna undirmönnunar, að sögn stéttarfélagsins.
Mótmælin voru liður í útbreiddari mótmælum sem nú eiga sér stað meðal heilbrigðisstarfsfólks víða í Kaliforníu-fylki. Órói hefur farið vaxandi meðal heilbrigðisstarfsfólksins undanliðnar vikur. Tugþúsndir starfsmanna Kaiser keðjunnar hafa hafið það formlega ferli sem er nauðsynlegur undanfari verkfalls. Ef af verður yrði það víðfeðmasta verkfall heilbrigðisstarfsfólks í sögu Bandaríkjanna. KTLA greindi frá.
Verkalýðsdagur Bandaríkjanna
Mótmælin áttu sér sem áður sagði stað á mánudag, 4. september, en fyrsta mánudeginn í september halda Bandaríkjamenn sinn verkalýðsdag, „labour day“. Labour day er opinber frídagur og er ætlaður til að fagna unnum sigrum verkalýðsins. Uppruni hans er nátengdur baráttunni fyrir 8 stunda vinnudegi, en eftir langa baráttu fjölda samtaka fyrir fjölgun frístunda var átta klukkustunda vinnudagur innsiglaður sem viðmið „fullrar vinnu“ með löggjöf í Bandaríkjunum árið 1916. 1937 varð ný vinnulöggjöf, hluti New Deal Roosevelts Bandaríkjaforseta, til að festa viðmiðið enn betur í sessi.