Svo gæti farið að handrit að bandarískum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum verði brátt skrifuð á ný en stéttarfélag bandaríska handritshöfunda, Writers Guild of America (WGA), tilkynnti á sunnudag að það hefði náð fram samningi við framleiðendur og streymisveitur, sem það vildi bera undir félagsmenn. Tilkynningin barst í kjölfar fimm daga langrar fundalotu.
Smáatriði samningins hafa ekki borist til fjölmiðla, en í tölvupósti til félagsmanna WGA sögðu fulltrúar félagsins samninginn fela í sér „markverðan ávinning og varnir fyrir höfunda á öllum sviðum“ sem meðlimir samtakanna starfa á.
Alex O’Keefe, handritshöfundur innan WGA, lét hafa það eftir sér að stéttarfélagið hefði „unnið slaginn fyrir mörgum mánuðum síðan, en milljarðamæringarnir og forstjórarnir hafa bara verið í afneitun um raunveruleika stöðunnar.“
Verkfallið hefur nú staðið í 146 daga, eða tæpa fimm mánuði. Hefði verkfallið varað fimm dögum lengur þá hefði það orðið lengsta verkfall í sögu félagsins, en það er þegar orðið það lengsta síðan 1988.
Gengið verður til kosninga um skilmála nýja samningsins á þriðjudag. Stéttarfélag bandarískra kvikmynda- og sjónvarpsleikara er enn í verkfalli, sem hefur staðið frá því í júlí.