Segir svokallaðan markað hafa efasemdir um stjórn Bjarna á ríkisfjármálum

„Þegar horft er eftir vísbendingum á fjármálamarkaði sést ekki að Seðlabankann skorti trúverðugleika. Markaðurinn hefur fulla trú á því að bankinn hækki vexti enn frekar til að koma böndum á verðbólguna. Það sést á þróun verðbólguvæntinga. Hins vegar má leiða líkum að því að markaðurinn hafi efasemdir um að ríkisfjármálum verði stýrt af þeirri ábyrgð sem er nauðsynleg til að ná fram auknum verðstöðugleika,“ er skrifað í leiðara Viðskiptablaðsins, sem heldur áfram stjórnarandstöðu sinni gegn Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra.

„Viðvarandi útgjaldaaukning ríkissjóðs á undanförnum árum er ekki sjálfbær. Það er löngu orðið tímabært að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessari staðreynd og fari að sýna aðhald og ábyrgð. Fyrr förum við ekki að sjá verulegan árangur í baráttunni fyrir stöðugu verðlagi,“ stendur í leiðaranum.

Eins og fram kom á Samstöðinni er Bjarni sá fjármálaráðherra sem búið hefur stærst gat á ríkissjóði, sé miðað við almennan rekstur. Það er ef við setjum stöðugleikaframlög slitabúa bankanna innan sviga, eingreiðslu sem fyrir löngu er horfin inn í hítina. Bjarni hefur skilip eftir sig 852 milljarða króna gat. Næstur kemur Steingrímur J. Sigfússon, sem tók við gjaldþrota efnahagskerfi eftir hrun Sjálfstæðisflokksins 2008 með 516 milljarða króna. Sjá samanburð fjármálaráðherranna hér: Bjarni hefur rekið ríkissjóð með 850 milljarða króna halla frá 2013.

„Steingrímur Hermannsson heitinn lét eitt sinn þau orð falla að hefðbundin efnahagslögmál framboðs og eftirspurnar giltu ekki á Íslandi. Þetta er merkileg fullyrðing manns sem gegndi bæði stöðu forsætisráðherra og seðlabankastjóra og hún endurspeglar hugsun sem er furðu lífseig hér á landi,“ stendur í leiðara Viðskiptablaðsins. „Eigi að síður kemur það á óvart að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, skuli af öllum mönnum enduróma þessa hugsun. Það gerði hann í síðustu viku þegar hann sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri ekki verkefni ríkisstjórnarinnar að koma böndum á verðbólguna heldur væri það alfarið í höndum Seðlabankans.“

Það þarf ekki að taka fram að aðhald í ríkisrekstri er fyrst og fremst niðurskurður og sala eigna að mati þeirra sem skrifa Viðskiptablaðið, sem heldur á lofti sjónarmiðum hinnar föllnu nýfrjálshyggju. Boðskapur blaðsins er að ríkið herði sveltistefnu sínu gagnvart grunnkerfum samfélagsins og selji innviði til einkafyrirtækja. En aðhald er aðeins jafnvægi í rekstrinum, að tekjur og gjöld fari saman, skili afgangi í þenslu og verðbólgu eins og nú er. Og því jafnvægi má ná með því að auka tekjur, skattleggja fjármagns- og fyrirtækjaeigendur svo þeir skili viðlíka hlutfalli til samneyslunnar eins og þeir gerðu áður en skattar voru lækkaðir á hin ríku á nýfrjálshyggjutímanum.

Hægrið og vinstrið er sammála um að rekstur Bjarna og ríkisstjórnar Katrínar á ríkissjóði sé afleit, að það sé glapræði að reka ríkissjóð með miklum halla á tímum þenslu og verðbólgu. Það er í raun ekki stjórnmál, heldur almenn skynsemi, að benda á þetta og furðulegt að ríkisstjórnin skuli ekki beygja sig undir þessi rök, sem Viðskiptablaðið kallar efnahagslögmál. Stjórnmálin byrja hins vegar þegar rætt er um hvernig eigi að loka gatinu, ekki hvort það eigi að gera það. Efnahagsstjórn Bjarna og ríkisstjórnarinnar er því handan stjórnmála, utan þess sem vanalega er talin heilbrigðis skynsemi.

Og það er staðan í dag. Bjarni kynnir verðbólgufroðu sem bata á rekstri ríkissjóðs, þegar verðbólgan og þenslan eykur tekjur ríkissjóðs rétt áður en sama verðbólgan veldur þörf fyrir aukningu útgjalda. Þessa efnahagsstefnu kallar ráðherrarnir að vaxa út úr vandanum. Stefnan magnar hins vegar upp verðbólgu sem grefur undan lífskjörum almennings, einkum hinna lægst launuðu, og skrúfar upp vexti, sem draga út fjárfestingu og þar með langtímagetu samfélagsins. Þessi stefna er einskonar óskhyggja ríkisstjórnar sem getur ekki komið sér saman um neitt sem máli skiptir og allra síst að móta efnahagsstefnu. Stefnan er óskhyggja um að ríkisstjórnin komist upp með að hækka hvorki skatta né skera niður útgjöld og þá muni hallinn hverfa fyrir einhverja guðsblessun. Það getur virst um tíma að það sé að ganga eftir, þegar tekjurnar aukast vegna verðbólgu og þenslu, en sá bati hverfur þegar bæta þarf útgjöldin vegna sömu verðbólgu og þenslu. Þá mun stefnan falla. Nema það sé plan ríkisstjórnarinnar að halda aftur af hækkun útgjalda vegna verðbólgu, en þá mun niðurskurðurinn leggjast flatt og án allrar hugsunar á útgjöldin og leiða til svokallaðrar innviðaskuldar, hallanum verður lokað með því að veikja innviði og grunnkerfi samfélagsins, sem draga mun úr getu hagkerfisins til lengri tíma. Það mætti kalla þetta efnahagsstefnu fyrirhyggjuleysisins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí