Í dag, miðvikudaginn 2. ágúst, var tilkynnt um stofnun nýsköpunarsjóðs NATO (NATO Innovation Fund eða NIF), sem fyrirhugað er að geri fyrstu fjárfestingar sínar síðar á þessu ári. 23 af 31 aðildarríkjum NATO eru aðilar að sjóðnum, þar á meðal Ísland, auk þess sem Svíþjóð hefur lýst áhuga á þátttöku í honum þegar umsókn landsins um aðild að bandalaginu hefur verið samþykkt.
Við stofnun nemur sjóðurinn einum milljarði evra, eða um 145 milljörðum króna. Í tilkynningu Atlantshafsbandalagsins segir að þar sé á ferð fyrsti áhættufjárfestingarsjóður sem stofnað er til af hálfu bandalags ríkja, sem fjárfesta muni í framsæknum tæknilausnum á sviði öryggis- og varnarmála. Sjóðnum er ætlað að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum á því sviði í öllum 23 ríkjunum. Þá segir í tilkynningunni að fjárfestingarnar verði grundvallaðar á þolinmæði, til að mæta þörfum og tímalínum „djúptæknilegrar“ nýsköpunar.
Ísland á fulltrúa í stjórn sjóðsins
Undirbúningur sjóðsins hefur staðið yfir um nokkra hríð, en ákvörðun um stofnun hans var tekin í Madrid sumarið 2022. Í maí síðastliðnum tilkynnti Utanríkisráðuneytið að Ari Kristinn Jónsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins AwareGO og fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, hefði verið kjörinn í stjórn sjóðsins. Sagði þá utanríkisráðherra að hið blómlega nýsköpunarumhverfi hér á landi gæti lagt sitthvað af mörkum til sameiginlegra varna. Kjör Ara Kristins sýndi að á því sviði eigi Íslendingar og íslensk fyrirtæki fullt erindi.
Í tilkynningu ráðuneytisins var haft eftir Ara Kristni að sjóðurinn muni styðja við þróun og hagnýtingu „byltingarkenndrar tækni“, svonefndrar „djúptækni“. Hugtakið djúptækni skýrði hann nánar með því að hún feli í sér að leiða saman nýjustu uppgötvanir „á fagsviðum eins og gervigreind, orkutækni, stýritækni, efnistækni og fleira, til að skapa alveg nýjar lausnir á erfiðum viðfangsefnum“. Þá sagði Ari gríðarlega spennandi að vera í stjórn sjóðsins, enda meginmarkmið hans að „hagnýta þá djúpu þekkingu og þann mikla sköpunarkraft sem þegar er til staðar“.
Hvorki náðist á fulltrúa ráðuneytisins né Ara Kristin í síma við vinnslu fréttarinnar.