Nýsköpunarsjóður NATO hefur störf: blómleg nýsköpun á Íslandi nýtist í þágu varnarmála

Í dag, miðvikudaginn 2. ágúst, var tilkynnt um stofnun nýsköpunarsjóðs NATO (NATO Innovation Fund eða NIF), sem fyrirhugað er að geri fyrstu fjárfestingar sínar síðar á þessu ári. 23 af 31 aðildarríkjum NATO eru aðilar að sjóðnum, þar á meðal Ísland, auk þess sem Svíþjóð hefur lýst áhuga á þátttöku í honum þegar umsókn landsins um aðild að bandalaginu hefur verið samþykkt.

Við stofnun nemur sjóðurinn einum milljarði evra, eða um 145 milljörðum króna. Í tilkynningu Atlantshafsbandalagsins segir að þar sé á ferð fyrsti áhættufjárfestingarsjóður sem stofnað er til af hálfu bandalags ríkja, sem fjárfesta muni í framsæknum tæknilausnum á sviði öryggis- og varnarmála. Sjóðnum er ætlað að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum á því sviði í öllum 23 ríkjunum. Þá segir í tilkynningunni að fjárfestingarnar verði grundvallaðar á þolinmæði, til að mæta þörfum og tímalínum „djúptæknilegrar“ nýsköpunar.

Ísland á fulltrúa í stjórn sjóðsins

Undirbúningur sjóðsins hefur staðið yfir um nokkra hríð, en ákvörðun um stofnun hans var tekin í Madrid sumarið 2022. Í maí síðastliðnum tilkynnti Utanríkisráðuneytið að Ari Kristinn Jónsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins AwareGO og fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, hefði verið kjörinn í stjórn sjóðsins. Sagði þá utanríkisráðherra að hið blómlega nýsköpunarumhverfi hér á landi gæti lagt sitthvað af mörkum til sameiginlegra varna. Kjör Ara Kristins sýndi að á því sviði eigi Íslendingar og íslensk fyrirtæki fullt erindi.

Í tilkynningu ráðuneytisins var haft eftir Ara Kristni að sjóðurinn muni styðja við þróun og hagnýtingu „byltingarkenndrar tækni“, svonefndrar „djúptækni“. Hugtakið djúptækni skýrði hann nánar með því að hún feli í sér að leiða saman nýjustu uppgötvanir „á fagsviðum eins og gervigreind, orkutækni, stýritækni, efnistækni og fleira, til að skapa alveg nýjar lausnir á erfiðum viðfangsefnum“. Þá sagði Ari gríðarlega spennandi að vera í stjórn sjóðsins, enda meginmarkmið hans að „hagnýta þá djúpu þekkingu og þann mikla sköpunarkraft sem þegar er til staðar“.

Hvorki náðist á fulltrúa ráðuneytisins né Ara Kristin í síma við vinnslu fréttarinnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí