Um helgina sagðist eldri borgari hafa orðið fyrir tilraun til þjófnaðar á flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vitni að atvikinu leiðrétti frásögnina og sagði manninn hafa öskrað á tvö stúlkubörn sem tóku tösku hans í misgripum en varið svo nokkurri stund í að úthúða bæði þeim og móður þeirra fyrir að vera múslimar. Maðurinn var áður prófessor við Háskóla Íslands, og ber því þann virðulega titil prófessor emeritus. Söguna þekkja nú flestir, maðurinn heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og var helsti hugmyndafræðilegi bakhjarl Sjálfstæðisflokksins á síðustu mektarárum hans, kringum endalok kalda stríðsins, allt að efnahagshruninu 2008.
Eins og Samstöðin greindi frá brást maðurinn ókvæða við því að frásögn hans af atvikinu væri dregin í efa með þessum hætti. Í færslu á Facebook skrifaði hann að það væri „með ólíkindum og getur ekki verið í samræmi við starfsreglur, að starfsfólk í Leifsstöð hlaupi í fjölmiðla með sínar frásagnir af því, sem þar gerist innan húss, og ásakanir á hendur viðskiptavinum stöðvarinnar“.
Svona hegði valdsmenn sér stundum
Þau sem til þekkja í íslenskum stjórnmálum og valdatengslum virðast á einu máli um að þessi ummæli mannsins beri að líta á sem hótun eða kröfu um einhvers konar viðbragð á vinnustað konunnar sem birti leiðréttinguna, Rúnu Mjöll Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir, nýorðin fyrrverandi þingmaður, setti fram þess háttar túlkun á Facebook á sunnudag, svohljóðandi:
„Nú hjólar valdsmaðurinn í unga starfskonu fyrir að leiðrétta rangfærslur hans um hvað raunverulega gerðist í komusal í Leifsstöð þar sem hann virðist hafa misst stjórn á sér gagnvart tveimur börnum og móður þeirra. Við skulum átta okkur á því að starfskonan er ekki bundin trúnaði um það sem gerist í því almannarými sem þarna er. Við skulum líka átta okkur á að valdsmaðurinn, sem tengist stjórnarformanni vinnuveitanda hennar tryggðarböndum eftir ártuga trúmennsku við hann og flokk hans, er með orðum sínum um trúnaðarbrest í starfi að hóta ungu starfskonunni.“
Hér vísar Helga Vala til þess að stjórnarformaður ISAVIA, frá síðasta ári, er Kristján Þór Júlíusson, áður þingmaður Sjáflstæðisflokksins frá árinu 2007 og ráðherra frá 2013 til 2021.
Helga Vala sagði ennfremur: „Ef einhver sem þetta les þekkir hana þá vil ég biðja ykkur um að verja hana og segja henni að einmitt svona hegði valdsmenn sér stundum. Sér í lagi ef þeir hafa staðið með valdinu lengi. Ég og mitt fólk þekkjum þetta vel og höfum oft orðið fyrir hótunum sambærilegum og valdsmaðurinn beitir nú.“