Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, er ekki þekktur fyrir að efast um ágæti eigin hugmynda. Því ætti það ekki að koma mörgum á óvart að lítið fer fyrir sjálfsskoðun hjá honum nú. Á bæði Twitter og Facebook gefur hann ekkert eftir og heldur áfram að þjófkenna fólk, fyrir þær einar sakir að Hannes hélt að það væri útlenskt.
Í stuttu máli trylltist Hannes á Leifsstöð við „konu klædda í múslimabúning“, líkt og Hannes orðaði það, fyrir að hafa tekið töskuna hans í misgripum. Þetta varð til þess að Hannes hellir úr rasískri reiðiskál sinni yfir konuna, börn hennar og þá sem voru svo óheppnir að vera nálægt.
Konan er þó íslensk. Nánar má lesa um atvikið hér, en það var starfsmaður Leifstöðvar sem leiðrétti stöðufærslu Hannesar á Facebook. Nú er Hannes æfur út í hana og vill meina að hún hljóti að hafa brotið einhverjar starfsreglur.
„Það er með ólíkindum, að starfsmaður í Leifsstöð telji það ekki skyldu sína að aðstoða það fólk, sem verður fyrir því, að handfarangri þess sé hnuplað, heldur hlaupi til varnar því fólki, sem hnuplaði. Það villist enginn á handfarangri, því að fólk ber hann á sér eða með sér út úr vélum. Og það er líka með ólíkindum og getur ekki verið í samræmi við starfsreglur, að starfsfólk í Leifsstöð hlaupi í fjölmiðla með sínar frásagnir af því, sem þar gerist innan húss, og ásakanir á hendur viðskiptavinum stöðvarinnar,“ skrifar Hannes á Facebook og deilir frétt Vísis um málið.
Svo er Hannes reiður út í fleiri, eins og Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Heimildarinnar. Hann skrifar einnig færslu um hann. „Þórður Snær Júlíusson tekur hiklaust afstöðu með konunni í múslímamúnderingunni, sem reyndi að ræna handtöskunni minni í Fríhöfninni aðfaranótt laugardagsins. Í henni voru vinnugögn mín, fartölva og sími. Það er ekki að furða, að Þórði Snæ finnist ekkert tiltökumál, að slíkum viðkvæmum persónugögnum sé rænt,“ skrifar Hannes.