Það eru líklega fá verkföll í seinni tíð á Íslandi sem hafa verið að mestu útkljáð á jafn skömmum tíma og verkfall fanga á Litla-Hrauni. Fangar lögðu niður störf í gær til að mótmæla bágum kjörum, en þeir hefja aftur störf í dag, þar sem Fangelsismálastofnun brást við kröfum þeirra svo gott sem samdægurs. Stofnunin hefur hækkað fæðisfé fanga um sex prósent afturvirkt frá 1. september.
Sjá einnig: Fangar á Litla hrauni í verkfalli, krefjast hærri dagpeninga og launa
RÚV greinir frá þessu. Fangelsismálastofnun getur í raun ekki bætt kjör fanga umfram þetta, það sé á forræði dómsmálaráðuneytisins. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, telur að verkfallið hafi náð eyrum ráðuneytisins. „Dómsmálaráðuneytið hafði samband við mig í morgun og það stendur til að halda fund í næstu viku,“ segir Guðmundur.
Hann bendir á að það hafi verið kominn tími á, vægast sagt, að fangar fengju meiri dagpening. Dagpeningurinn hefur ekki hækkað í 18 ár. Ein ástæða fyrir því að ekkert hefur gerst svo lengi er líklega að réttindi fanga hafa átt lítið upp á pallborðið í samfélaginu. Guðmundur Ingi segir það þó að breytast.
„Mér finnst vera betri viðbrögð í dag heldur en hefur verið í gegnum tíðina. Þetta er svona að breytast, virðist vera, umræðan og viðhorf fólks. Þannig að þó að það sé erfitt og leiðinlegt að standa í svona fyrir alla aðila, þá hefur þetta gert gott fyrir umræðuna.“