Stéttarfélagið Writers Guild of America (WGA) hefur náð samkomulagi við samtök framleiðenda, AMPTP, og meirihluti félagsmanna samþykkt samning sem náðist milli aðila vinnudeilunnar eftir nær 146 daga verkfall. Handritshöfundar bandarískra kvikmynda og sjónvarpsþátta munu því hefja störf á ný, frá og með þessari viku. Samningarnir eru meðal fyrstu kjarasamninga sem fela í sér ákvæði um leyfilega og óleyfilega beitingu gervigreindar.
Smáatriði samningsins eru misáhugaverð fyrir utanaðkomandi. Mestur þungi deilunnar snerist um hlutdeild höfunda af hagnaði streymisveita, en hlutur höfunda hefur dregist verulega saman eftir tilkomu þeirra, miðað við það sem tíðkaðist þegar dreifing kvikmyndaðs efnis fór einkum fram í kvikmyndasölum og á sjónvarpsstöðvum. Í því samhengi virðist stéttarfélagið hafa knúið fram ásættanlega hækkun.
Framleiðendur vildu engar hömlur á gervigreind
Eitt atriði í samkomulaginu er þó sögulegt. Það er ekki ólíklegt að samninganna verði minnst fyrir ákvæði þeirra um notkun gervigreindar við handritsgerð, en verkfallið er ein af fyrstu vinnudeilum heims þar sem átök um hlutverk gervigreindar voru meðal ágreiningsefna.
Stéttarfélagið fór fram á að reglur yrðu settar um notkun gervigreindar við verkefni sem heyra undir samkomulagið, og reglurnar myndu fela í sér að gervigreind verði ekki falið að skrifa eða endurrita efni, afurðir hennar verði ekki notaðar sem hráefni og að ekki megi nota þau verk sem heyra undir samninginn til þjálfunar á gervigreind.
Fulltrúar framleiðenda höfnuðu til að byrja með öllum þessum skilmálum, og gerðu aðeins þá tillögu á móti að fulltrúar höfunda og framleiðenda myndu funda árlega til að ræða þróun tækninnar sín á milli. Stéttarfélagið virðist hins vegar hafa haldið kröfum sínum til streitu.
Gervigreind má ekki telja til höfunda
Skilmálar þess samnings sem nú hefur verið samþykktur fela í sér að settar reglur um notkun gervigreindar við ritun verka sem heyra undir samninginn. Þá má ekki líta á efni sem gervigreind framleiðir sem bókmenntaverk, hráefni eða umsamið verk, samkvæmt samningnum, og gervigreind má ekki telja til höfunda.
Um leið eru í samningnum ákvæði um að höfundum sé frjálst að nota gervigreind við störf sín, ef framleiðandi samþykkir og að því gefnu að höfundurinn fylgi stefnu fyrirtækisins á því sviði, eftir því sem við á. Framleiðandi getur aftur á móti ekki krafið höfund um notkun gervigreindarhugbúnaðar – ChatGPT er nefnt til dæmis – við ritstörf.
Þá þarf framleiðandi að gera höfundi ljóst ef eitthvert efni sem honum er veitt til að styðjast við var framleitt af gervigreind eða styðst við slíkt efni. Loks áskilur stéttarfélagið sér rétt til að staðhæfa að notkun ritverka frá meðlimum þess til þjálfunar á gervigreind sé bönnuð samkvæmt samningnum eða að lögum.
Samtök bandarískra leikara í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum eru enn í verkfalli, sem hófst í júlí.