B2 sprengjuþoturnar sem heiðruðu landsmenn með nærveru sinni seinni hluta sumars eru farnar af landinu, en samstarfsverkefni um varnir og hernað virðast viðvarandi um þessar mundir. Undanliðnar tvær vikur hafa staðið yfir sprengjuleitaræfingar á Reykjanesi og í Hvalfirði, á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttakendur í æfingunum eru alls 400, frá sextán aðildarríkjum bandalagsins, að Íslandi meðtöldu.
„Northern Challenge 23“ nefnist æfingin, sem stendur yfir frá 25. september þar til á morgun, fimmtudaginn 5. október. Á hverjum degi hafa þátttakendur fengið tvö útköll um sprengjuógn, með vaxandi flækjustigi hvern dag. Á vef upplýsingadeildar Bandaríkjahers er vitnað í þátttakendur um hversu gagnleg æfingin var til samstillingar NATO-ríkjanna.
Viðvarandi æfingar og framkvæmdir Bandaríkjahers og aðildarríkja NATO á Íslandi hafa ekki farið fram hjá umheiminum. Um miðjan ágúst birti enskumælandi fréttamiðill kínverska hersins frétt undir fyrirsögninni „Iceland to become key operational base for NATO“ – eða: Ísland að verða lykilbækistöð Atlantshafsbandalagsins.
Heimild: DVIDS.