„Það er af þessari ástæðu sem að ég hef ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra“

Bjarni Benediktsson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, boðaði til blaðamannafundar nú að morgni þriðjudags, þar sem hann tilkynnti um afsögn sína. Í aðdraganda þeirrar tilkynningar varði hann nokkru máli í að tilgreina hvaða ástæður lægju þar ekki að baki, áður en hann kom að hinni eiginlegu forsendu afsagnarinnar. Allur texti ræðunnar sem hann flutti fram að afsögninni sjálfri var svohljóðandi:

„Ég vil biðja ykkur um að – eða ég ætla að byrja á því að þakka ykkur fyrir að koma hingað með svona stuttum fyrirvara. En tilefnið í dag er nýútkomið álit Umboðsmanns Alþingis sem varðar söluna á Íslandsbanka. Og ég verð að segja fyrsta kastið að mér er brugðið við að lesa þessa niðurstöðu. Og er … ég er miður mín eftir að hafa séð þá niðurstöðu að mig hafi brostið hæfi við mína ákvarðanatöku í síðasta útboði. Ég ætla þó að byrja á því að segja að ég hef algjörlega hreina samvisku í þessu máli. Algjörlega hreina samvisku. Mér finnst margt í þessu áliti orka tvímælis og ég hlýt að taka það fram að margt af því sem þarna segir er í beinni andstöðu við þær ráðleggingar sem ég hef fengið hér sem ráðherra og þá kannski í sérstökum lögfræðiálitum sem hafa verið unnin um þetta efni.

Við munum deila á vefsíðu fjármálaráðuneytisins frekari gögnum um þetta mál, meðal annars þeim gögnum sem send hafa verið til umboðsmanns Alþingis.“

„Lítil þúfa veltir þungu hlassi“

„Stundum er sagt að lítil þúfa velti þungu hlassi. Og í þessu tilviki snýst málið um þátttöku eins aðila í síðasta útboði. En í þessum tveimur útboðum sem haldin hafa verið hafa alls um 24.000 aðilar komið að þátttöku með þeim hætti að kaupa hlutabréf í bankanum. Það er óumdeilt að ég hafði ekki upplýsingar í þessu máli um þátttöku þessa félags. Það er ekki dregið í efa í áliti Umboðsmanns alþingis að sú hafi verið raunin. Það er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að þær upplýsingar hafi legið fyrir, fyrir ráðuneytinu, og þarafleiðandi hafði ég aldrei neina ástæðu til þess að ganga eftir því hvort reyna myndi sérstaklega á hæfi mitt í málinu. Þannig að vanhæfisástæður kynnu að vera til staðar.

Þar sem ég ekki hafði upplýsingar um þetta mál þá kemur það mér mjög á óvart að niðurstaðan sé sú að mig hafi brostið hæfi. Þetta á ekki síst við í ljósi þess hvernig sölumeðferð eignahlutanna var háttað. En öll framkvæmd sölunnar var lögum samkvæmt í höndum bankasýslunnar. Og salan fór fram með útboðsferli þar sem að mínu áliti var ógerningur fyrir ráðherra að fylgjast með mögulegum vanhæfisástæðum í ferlinu. Og hvað sjálfstæði bankasýslunnar snertir þá telur umboðsmaður að stjórnunar- og eftirlitsskylda stofnunarinnar sé umfram það sem við höfum gengið út frá til þessa í ráðuneytinu undanliðinn áratug. Og ég myndi segja að þetta sé sömuleiðis umfram það sem almennt er rætt um á Alþingi. En stofnuninni var sérstaklega komið á fót til þess að fyrirbyggja að pólitísk afskipti réðu þar för. Þetta kemur á óvart þess vegna. Og ég hlýt sömuleiðis að benda á það hafa engar athugasemdir verið gerðar, hvorki um stjórnunar- og eftirlitsþáttinn með bankasýslunni eða aðgát með bankasýslunni eftir fyrra útboð. Og í því sambandi skiptir máli að taka fram að mín aðkoma að útboðunum tveimur, fyrst þegar við fórum í skráningu í kauphöll og héldum í undanfara þess almennt útboð, og síðar í þessu síðara útboði, þá var mín aðkoma, skref fyrir skref, nákvæmlega hin sama. Nákvæmlega hin sama. Og engar athugasemdir hafa borist varðandi stjórnar- og eftirlitsskylduna né heldur það að við höfum ekki gætt sérstaklega að hæfisreglum. Og í ljósi þess að aðkoma mín er nákvæmlega hin sama, þá finnst mér það skjóta skökku við að komist sé að þessari niðurstöðu í þessu útboði. Og ég geri mér fulla grein fyrir því að það hefur lítið vægi gagnvart hæfisreglum en ég hlýt samt að benda á að ég er þeirrar skoðunar að það hefði nákvæmlega enga þýðingu haft fyrir efnislega niðurstöðu þessa máls ef sú staða hefði komið upp að ég hefði vikið sæti vegna hæfis og einhver annar hefði tekið ákvörðunina. Ég þori að fullyrða að nákvæmlega sama niðurstaða hefði orðið í málinu.“

„Það ber að virða álitið“

„Nú hafandi sagt þetta. Þá vil ég taka af allan vafa um það að ég tel mikilvægt að virða álit Umboðsmanns Alþingis. Sem er sérstakur trúnaðarmaður þingsins. Þetta segi ég fullum fetum þótt ég hafi á álitinu mínar skoðanir. Á röksemdum og því hvernig komist er að niðurstöðu. Þá er þetta grundvallaratriði. Það ber að virða álitið. Og álitið er að mig hafi brostið hæfi í málinu. Þessa niðurstöðu hyggst ég virða. Og ég tel í ljósi þessarar niðurstöðu að mér sé í reynd ókleift að starfa hér áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra að frekari undirbúningi á sölum á eignahlutum ríkisins. Ég tel sömuleiðis mjög mikilvægt að það sé skapaður friður um þau mikilvægu verkefni sem eru hér í þessu ráðuneyti. Það er ekki bara eignahald, utanumhald með eignahlutum ríkisins í hinum ýmsu fyrirtækjum, heldur eru það öll hin verkefnin sömuleiðis, sem þurfa sína athygli. Það er af þessari ástæðu sem að ég hef ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra. Og ég hef þegar rætt þessa niðurstöðu við forsætisráðherra.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí