Tveir fundir þjóðarleiðtoga Evrópu fóru fram í Granada á Spáni í liðinni viku. Fyrri fundinn sóttu leiðtogar 47 ríkja, það var þriðja samkoma þess sem á íslensku hefur verið nefnt hið Pólitíska bandalag Evrópuríkja (European Political Community, EPC). EPC er óformlegur vettvangur sem stofnað var til á síðasta ári til að leiðtogar ríkja í álfunni gætu ráðið ráðum sínum um viðbrögð við innrás Rússa í Úkraínu, án tillits til aðildar að ESB, NATO, eða öðrum bandalögum og stofnunum.
Fundur EPC var haldinn á fimmtudag. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins kom fram að þar hefði hún talað fyrir grænum orkuskiptum, auk þess sem hún hafi fundað með forsetum nokkurra smærri ríkja um framboð Íslands til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025 til 2027.
Viðamikið tíðindaleysi
Það bar annars helst til tíðinda frá þessum fundi hvað ekki bar til tíðinda á honum. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, reyndi þannig að fá því framgengt að fyrirhugaðri dagskrá samkomunnar yrði ýtt til hliðar til að ræða málefni innflytjenda og flóttafólks eingöngu. Það varð ekki úr. Þá hélt Sunak hliðarviðburð, ásamt Giorgiou Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, smærri fund, sem fulltrúar Hollands, Frakklands, Albaníu og Evrópuráðsins tóku einnig þátt í. Að fundinum loknum létu þau frá sér sameiginlega yfirlýsingu um samhentar aðgerðir til að stöðva óreglega för fólks yfir landamæri.
Fleira átti sér ekki stað: Ilham Aliyev, forseti Aserbaísjan, afboðaði komu sína á fundinn, svo ekki varð af viðræðum milli hans og Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu. Þá neitaði Vjosa Osmani, forseti Kósovó, að eiga fund með Aleksandar Vučić, forseta Serbíu.
Önnur viðfangsefni sem hugmyndin var að fást við á hinum breiðari vettvangi komu þar til tals en leiddu ekki til þess háttar sameiginlegrar niðurstöðu eða yfirlýsingar sem vonast var eftir. Sunak neitaði loks að taka þátt í sameiginlegum blaðamannafundi leiðtoga Evrópuríkjanna 47, sem var þá aflýst. Vefmiðillinn Politico orðaði það svo að þessari ofur-ráðstefnu Evrópuleiðtoga hafi lokið með kjökri.
Seinni fundurinn
Katrín Jakobsdóttir, Rishi Sunak og leiðtogar annarra ríkja sem ekki eiga aðild að ESB flugu heim að dagskrá fimmtudagsins lokinni. Leiðtogar ESB-ríkjanna dvöldu hins vegar í Granada yfir nótt og héldu þar hefðbundnari leiðtogafund næsta dag, föstudaginn 6. október. Hefðbundnari og þó einnig, samkvæmt skilgreiningu, óformlegan. Þeim fundi lauk með yfirlýsingu í nafni Evrópska ráðsins (European Council) – sem ber ekki að rugla saman við Evrópuráðið (European Commission). Granada-yfirlýsingin nefnist hún, og heita þar leiðtogar Evrópusambandsins því að styrkja sambandið og varnir þess og fjölga aðildarríkjum, enda sé stækkun þess fjárfesting í „friði, öryggi, stöðugleika og hagsæld.“