Mikill kurr er meðal fólks sem tengdist gerð heimildarmyndarinnar Baráttan um Ísland á fyrri stigum framleiðslunnar. Ríkissjónvarpið sýndi myndina í tveimur hlutum á fimmtán ára afmæli Hrunsins og hafa efnistök og sjónarhorn verið gagnrýnd, en stærsti hluti myndarinnar er lagður undir varnir bankamanna.
Í kynningarefni fyrir myndina er Bosse Lindquist, sænskur leikstjóri sem gerði til dæmis heimildarmyndina Macchiarini affären um plastbarkamálið, skráður sem handritshöfundur. Þegar myndin var sýnd í Ríkissjónvarpinu var hann hins vegar sagður einn þriggja leikstjóra, ásamt Margréti Jónasdóttir núverandi gæðastjóra RÚV og Jakobi Halldórssyni. Lindquist sagði sig hins vegar frá verkinu fyrir löngu síðan vegna ósættis um hvert SagaFilm vildi fara með söguna og vissi ekki einu sinni af því að sýna ætti myndina.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Heimildarinnar, er skráður sem ráðgjafi við gerð myndarinnar en hefur nú farið fram á að nafn sitt verði afmáð af myndinni og öllu efni tengt henni. Hann segir myndina í engu samræmi við þá ráðgjöf sem hann veitti.
Þá hefur útkoman valdið furðu hjá mörgum þeirra sem rætt var við í upphafi ferilsins og þeirra sem fylgdust með framleiðslunni þá. Samstöðin hefur til dæmis heimildir fyrir því að Lindquist hafi tekið löng viðtöl við Guðrún Johnsen, sem einna fyrst allra gagnrýndi rekstur bankanna og ákvarðanir bankamanna sem áttu eftir að rústa fjárhag þúsunda íslenskra fjölskyldna sem ekki hafa náð sér enn. Ekkert af þessum viðtölum við Guðrúnu rataði inn í endanlega útgáfu myndarinnar. Henni er þó þakkað í lok kreditlistans.
Þorvaldi Gylfasyni var líka þakkað í lok myndar. Hann hefur sent útvarpsstjóra bréf: „Ég skrifa til að krefjast þess að nafn mitt verði numið burt án tafar af lista með nöfnum þeirra sem þakkað er í lok beggja hluta heimildamyndarinnar Baráttan um Ísland sem sýnd var í RÚV 8. og 9. október s.l. Myndin er hneyksli að mínum dómi og mér allsendis óviðkomandi.“
Fjarvera fórnarlamba Hrunsins er hrópandi í myndinni. Ekkert er fjallað um afleiðingar þess fyrir fjárhag fjölskyldna og helst má skilja af söguþræðinum að Hrunið hafi verið aðför ákæruvaldsins að saklausu bankafólki.
Stjórnarformaður SagaFilm er Ragnar Björn Agnarsson, sem er æskuvinur Jóns Ásgeirs Jóhannssonar, sem var einn þeirra viðmælanda sem var mest áberandi í myndinni. Mest var þó rætt við Lárus Welding, sem Jón Ásgeir réð sem bankastjóra Glitnis á lokametrum þess banka.
Á spilara RÚV segir að myndin sé aðgengileg á Íslandi til 8. nóvember 2023. Myndin er hins vegar ekki aðgengileg á spilaranum, hefur verið tekin úr birtingu.