Ísland er ekki bundið af ákvörðunum ESB-ríkja um samstöðu við móttöku flóttafólks á álagstímum, náist slíkt samkomulag milli ríkjanna. Þetta kemur fram í svari Dómsmálaráðneytis við fyrirspurn blaðamanns fyrr í þessum mánuði, eða orðrétt: „er ekki gert ráð fyrir því að samstarfsríki Schengen, Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein séu skuldbundin til þess að deila álagi af móttöku hælisleitenda á svæðinu með ESB ríkjunum eftir því kerfi sem þau eru að koma sér upp undir merkjum samstöðu.“
Tilraun til samstöðu í Granada
Þann 4. október sl. gáfu leiðtogar ESB-ríkja út sameiginlega yfirlýsingu um hvernig hvernig staðið skuli að móttöku flóttafólks þegar mikil og skyndileg fjölgun verður vegna stríðsátaka, náttúruhörmunga eða loftslagsneyðar. Samkomulagið náðist á fundi leiðtoganna á Granada á Spáni. Afdrif samkomulagsins og útfærsla í framkvæmd eiga þó eftir að koma í ljós.
Daginn eftir, þann 5. október, sendi blaðamaður fyrispurn til Utanríkisráðuneytisins sem starfsmaður þess áframsendi til Dómsmálaráðuneytis, um áhrif þessarar yfirlýsingar og áætlunarinnar á Íslandi. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins svaraði fyrirspurninni í dag, 24. október. Þar sagði:
„Samstarfsríki Schengen eru einungis bundin af því regluverki sem telst þróun á Schengen-regluverkinu, þ.e. reglugerð um forskoðun umsókna um alþjóðlega vernd og brottvísunartilskipuninni. Þá er Ísland einnig skuldbundið til að innleiða breytingar á því regluverki sem telst til þróunar á samningi Íslands við ESB um aðild að Dyflinnarsamstarfinu og fingrafaragagnagrunninum Eurodac. Skuldbindingar Íslands eru skilmerkilega afmarkaðar í tillögu framkvæmdastjórnar ESB að teknu tilliti til fyrrnefndra samninga. Samábyrgðarreglur ríkja ESB rúmast ekki innan þessara samninga, líkt og reglugerðirnar sem mynda hinn sameiginlega hælispakka standa nú, og er ekki gert ráð fyrir því að samstarfsríki Schengen, Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein séu skuldbundin til þess að deila álagi af móttöku hælisleitenda á svæðinu með ESB ríkjunum eftir því kerfi sem þau eru að koma sér upp undir merkjum samstöðu. Ríkjunum fjórum er þó frjálst að taka þátt standi vilji til þess.“
Þó með fyrirvara um áhrif á Schengen-reglur
Svarinu fylgdi einnig fyrirvari um stöðu málsins innan Evrópusambandsins, „að endanlegt efni hælispakkans liggur ekki að fullu fyrir“ fyrr en samtali framkvæmdastjórnar ESB við Evrópuþingið lýkur, „og unnt er að taka hann til formlegs samþykkis. Að því loknu fara þeir þættir pakkans sem taldir eru þróun á Schengen-regluverkinu til formlegs samþykkis Íslands, Noregs, Sviss og Lichtenstein.“