Allt að milljón manns á fjölmennasta útifundi í sögu Varsjár

Hundruð þúsunda komu saman til útifundar í pólsku borginni Varsjá á sunnudag, tveimur vikum fyrir kosningarnar sem leiðtogar stjórnarandstöðunnar segja að geti ákvarðað framtíð lýðræðis í landinu og landsins innan Evrópu. Þetta var mögulega stærsti útifundur í sögu borgarinnar.

„Miklar breytingar eru framundan. Þetta er til marks um endurfæðingu Póllands,“ sagði Donald Tusk, leiðtogi Borgaralegs vettvangs (Platforma Obywatelska eða PO) stærsta flokks stjórnarandstöðunnar, þegar hann ávarpaði fundargesti.

100 þúsund eða milljón

Yfirvöld í Varsjá sögðu um milljón manns hafa tekið þátt í samkomunni, sem væri þá stærsti útifundur sögunnar í borginni. Ríkisfjölmiðillinn TVP, sem í vaxandi mæli er litið á sem málpípu núverandi stjórnvalda, segir þátttakendur aðeins hafa verið um 100 þúsund. Samkvæmt útreikningum fréttamiðilsins onet.pl komu á bilinu 600–800 þúsund saman á útifundinum.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru kosningarnar tvísýnar: þjóðernis-íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti (Prawo i Sprawiedliwość eða PiS), sem nú leiðir stjórn landsins og hlaut tæp 44 prósent atkvæða í kosningunum 2019, er samkvæmt könnunum líklegur til að fá allt að 38 prósent atkvæða nú og standa þannig enn uppi með mest fylgi allra flokka.

Lög og réttlæti hafa að verulegu leyti byggt kosningabaráttu sína á því að ala á ótta við flóttafólk frá löndum utan Evrópu, og um leið á andúð við Evrópusambandið. Stjórnarandstaðan segir kosningarnar framundan snúast um réttindi minnihlutahópa og kvenna, auk framtíðar Póllands innan Evrópu. Tusk varaði fundargesti á sunnudag við því að PiS-liðar gætu haft í hyggju að draga Pólland úr ESB.

PiS-liðar ala á ótta við innflytjendur

Forysta PiS leggur áherslu á andstöðu við innflytjendur í sinni baráttu fyrir kosningarnar framundan. Þannig hefur flokkurinn meðal annars sagst vilja bera undir kjósendur, í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort þeir styðji móttöku „þúsunda ólölgegra innflytjenda frá Mið-Austurlöndum og Afríku.“ Tilefni þeirrar spurningar er vilji innanríkisráðherra í fjölda annarra ríkja Evrópusambandsins um að koma á laggirnar sameiginlegu kerfi til að deila ábyrgðinni á móttöku flóttafólks milli aðildarlanda sambandsins.

Flokkurinn var stofnaður árið 2001. Upphaflega vildu forsprakkar hans lýsa honum sem kristilegum miðjuflokki, en hann hefur færst umtalsvert til hægri síðan þá og er nú talinn til hægri-popúlískra flokka og boðar íhaldssama þjóðernisstefnu í kaþólskum dúr. Flokkurinn hefur verið við stjórn í Póllandi samfleytt frá árinu 2015 og hlaut tæp 44 prósent atkvæða eða 235 af 460 þingsætum, í síðustu þingkosningum, árið 2019.

Í kosningaauglýsingu þar sem Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra, kynnir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu til sögunnar var stuðst við myndskeið af brennandi bílum og götuóeirðum. Þá mátti, í auglýsingunni, sjá þeldökkan mann sleikja stóran hníf, um leið og formaður flokksins, Jaroslaw Kaczynski, spyr: „Viljið þið að þetta gerist í Póllandi líka? Viljið þið hætta að ríkja yfir ykkar eigin landi?“ Ljóst má heita hvers konar ótta stjórnvöld kynda undir með slíkum áróðri.

Vinsælir vegna velferðarmála

Þó að öfga-hægriöflin sem nú ráða ríkjum í Póllandi beini þannig andúð kjósenda að hörundsdökkum innflytjendum og kyndi undir fordómum í garð múslima er langstærstur meirihluti þeirra sem í reynd hefur verið veitt vernd í landinu flóttafólk frá Úkraínu: Pólland hefur tekið á móti yfir milljón flóttamanna þaðan frá því að innrás Rússa hófst snemma árs 2022. Pólsk stjórnvöld létu reisa 187 kílómetra langan vegg eftir endilöngum landamærum ríkisins að Belarús strax á fyrri hluta sama árs.

Í janúar 2021 tóku gildi lög, runnin undan rifjum PiS, sem banna þungunarrof í öllum tilfellum nema þungunin hafi átt sér stað með ofbeldisverknaði eða ógni heilsu konunnar. Landið skipaði sér þar með í hóp þeirra landa í álfunni sem, undir kaþólskum áhrifum, búa við ströngustu lög um þungunarrof. Þessi mál og fleiri tryggja þeim fylgi íhaldssamra kjósenda.

Stjórnmálaskýrendur eru þó almennt sammála um að hið mikla fylgi PiS, út fyrir raðir hins íhaldssama kjarna, skýrist ekki af fyrrnefndum málum einum sér heldur um leið af aðgerðum flokksins í þágu velferðar innanlands, verulegri hækkun lágmarkslauna og bóta og lækkun lífeyrisaldurs. Árið 2019 höfðu opinber útgjöld til fjölskyldna tvöfaldast frá árinu 2015. Börnum í fátækt hafði að sama skapi fækkað um helming. Í kosningabaráttunni teflir flokkurinn þessum viðfangsefnum fram í sameiningu og gefur til kynna að velferðarkerfi landsins sé háð því að landið fylgi harðlínustefnu gegn flóttafólki.

Frjálslyndu öflin

Flokkurinn sem nú er í forystu stjórnarandstöðunnar, fyrrnefndur Borgaralegur vettvangur (PO), leiddi ríkisstjórn frá 2007 til 2015. Flokkurinn hefur ekki aðeins mildari afstöðu til flóttafólks og útlendinga heldur hafa þau frjálslyndari afstöðu á flestum sviðum, meðal annars til frjósemismála: PiS-liðar setja sig ekki aðeins á móti þungunarrofi heldur eru einnig mótfallnir frjósemisaðgerðum, Borgaralegur vettvangur vill auka aðgengi fólks að slíkri heilbrigðisþjónustu, og svo framvegis. Það má segja að átakalínan milli þessara afla sé að því leyti hefðbundin. Í valdatíð sinni hækkaði Borgaralegur vettvangur hins vegar eftirlaunaaldur og studdi einkavæðingu á ákveðnum sviðum. Forysta PiS heldur því fram að bæði skrefin hafi verið tekin til að þóknast ESB.

Eftirmáli kosninganna er tvísýnn. Fari svo að PiS hljóti 35 til 38 prósent atkvæða, eins og útlit er fyrir, getur verið að eina stjórnarmynstrið sem flokknum býðst verði að teygja sig enn lengra til hægri og mynda samsteypustjórn með flokknum Samfylking um frelsi og sjálfstæði (Konfederacja Wolność i Niepodległość), sem oft er aðeins stytt í Konfederacja eða Samfylkingu. Þessi öfga-hægrsinnaði jaðarflokkur á þó fátt skylt við nafna sinn á Íslandi: meðal stefnumála er að endurheimta dauðarefsingar, gera greiðslur til almannatrygginga valkvæmar, banna þungunarrof án allra undantekninga, heimila almenningi að eiga skotvopn og loks að hindra komu innflytjenda til landsins, en í þeim efnum gagnrýnir pólska Samfylkingin PiS-liða fyrir of mikla linkind.

Eiginlegir vinstriflokkar eru fyrirferðarlitlir í pólskum stjórnmálum: flokkur sósíal-demókrata, Nýja vinstrið (Nowa Lewica), er þó með 37 fulltrúa á þingi, af 460. Fylgi þeirra mælist nokkuð stöðugt, frá 8 til 10 prósent. Annar smærri flokkur lýðræðislegra sósíalista, Vinstri saman (Lewica Razem) er með sex fulltrúa á þingi. Átökin fyrir þessar kosningar liggja á milli frjálslyndra miðju- eða hægriflokka, annars vegar, og afturhaldssamra öfgahægriafla hins vegar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí