Ásgeir gerir konum lífið leitt

Stefán Ólafsson, prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu stéttarfélagi, segir í pistli sem hann birtir á Heimildinni að líkja megi stefnu Seðlabankans undir stjórn Ásgeirs Jónssonar við stríð gegn konum. Hann segir að hagur kvenna, og þá sérstaklega fátækra kvenna, hafi versnað gífurlega á örfáum árum og ástæðuna megi að mestu rekja til þeirra úrræða sem Seðlabankinn og stjórnvöld beita í hagstjórn sinni. Á einungis tveimur árum hefur Eflingarkonum sem eiga erfitt með að ná endum saman fjölgað úr 43 prósent í 63 prósent. Stefán kallar þessa stefnu einfaldlega leiftursókn gegn lífskjörum láglaunafólks.

Hér fyrir neðan má lesa grein Stefáns í heild sinni.

Verðbólgan og miklar stýrivaxtahækkanir seðlabankans hafa gjörbreytt kjarastöðu heimilanna á síðustu tveimur árum. Láglaunafólk finnur meira fyrir þessari kjararýrnun en aðrir hópar í samfélaginu. Í þessari grein mun ég sýna gögn um þessa þróun, með samanburði við fyrri ár og með samanburði við afkomuþróun á hinum Norðurlöndunum. Loks er sjónum sérstaklega beint að láglaunafólki og konum.

I Mikil umskipti

Á mynd 1 er sýnd þróun fjárhagserfiðleika heimilanna frá 2004 til fyrri hluta þessa árs. Þar má sjá að hagur heimilanna var batnandi frá 2004 til 2007, en í kjölfar fjármálahrunsins versnaði hann hratt og náðu erfiðleikarnir hámarki 2011-2013. Eftir það var staðan batnandi með auknum hagvexti, fjölgun starfa og launahækkunum, alveg til 2021.

Frá seinni hluta 2021 tók verðbólgan að aukast og í kjölfarið hækkaði seðlabankinn stýrivextina hratt, með miklum afleiðingum fyrir afkomu heimilanna.

Frá 2021 hefur sá hluti heimilanna sem glímir við erfiðleika við að ná endum saman í daglegri framfærslu nærri tvöfaldast, úr tæpum 24% í um 44%. Þetta er mikil breyting á stuttum tíma. Sérstaklega ört vaxandi húsnæðiskostnaður á stóran þátt í þessari kjararýrnun.

Erfiðleikarnir nú hafa enn ekki náð sama stigi og varð eftir fjármálahrunið, en þá var það ekki fyrr en á þriðja ári sem erfiðleikarnir náðu hámarki. Ef ekkert marktækt verður gert á næstunni til að vega á móti þessari kjararýrnun mun enn fjölga heimilum í fjárhagserfiðleikum.

II Fjárhagserfiðleikar meiri hér en á hinum Norðurlöndunum

Gagnlegt er að horfa til þess hvernig afkomuþróunin hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Það er gert á mynd 2. 

Fjárhagserfiðleikar heimilanna jukust miklu meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Raunar tókst að tryggja afkomu heimilanna á hinum Norðurlöndunum nær alveg gegn kreppuáhrifum. Það voru helst Danir sem fundu fyrir auknum erfiðleikum. 

Fjárhagserfiðleikar hafa almennt verið meiri hér á landi en hjá frændþjóðunum og í kreppum aukast þeir alla jafna mun meira hér. Við sjáum á myndinni hvernig fjárhagserfiðleikar jukust frá 2021 til 2022, en þá aftur miklu meira hér á landi. Síðan jukust erfiðleikarnir mjög ört til viðbótar hér á landi á yfirstandandi ári. Tölur vantar fyrir hin löndin fyrir árið 2023, en vísbendingar eru um litlar breytingar þar. 

Sérstaða Íslendinga hvað snertir afkomuerfiðleika er því mikil í norrænu samhengi.

III Staða láglaunafólks versnaði mest

Það er alla jafna þannig að láglaunafólk hefur minna borð fyrir báru til að takast á við versnandi kjör. Því leggjast verðbólga og vaxtahækkanir með meiri þunga á þá tekjulægri. Þar verða erfiðleikarnir við að ná endum saman meiri.

Velferðarkerfið ætti að veita vörn gegn því, en hér á landi hefur stuðningur við heimilin verið rýrður verulega á liðnum áratugum og þó stjórnvöld segist hafa bætt í barnabætur og húsnæðisstuðning undanfarið þá eru það oft aðgerðir sem ekki ná að verðbæta viðkomandi bætur, þannig að þær rýrna að raungildi. Ég mun sýna í seinni grein hvernig sú þróun hefur verið og hversu ófullnægjandi aðgerðir stjórnvalda hafa verið.

Á mynd 3 er sýnt hvernig erfiðleikar við að ná endum saman hafa þróast frá 2021 til 2023, annars vegar hjá verkafólki í Eflingu og hins vegar hjá launafólki á Íslandi almennt. Gögnin koma úr könnunum Vörðu.

Eflingarfólk er verkafólk á höfuðborgarsvæðinu, en í þeim hópi er stærsti hluti þeirra sem eru á lægstu launum og sem búa við mjög íþyngjandi húsnæðiskostnað. Erfiðleikar þeirra við að ná endum saman eru bornir saman við meðaltal almenns launafólks í heild, á hvoru ári fyrir sig.

Sjá má að árið 2021, áður en verðbólgu og stýrivaxtahækkana tók að gæta, þá áttu um 38% verkafólks á höfuðborgarsvæðinu erfitt við að ná endum saman. Á fyrri hluta yfirstandandi árs var hlutfallið komið í 60%. Hjá launafólki almennt fór hlutfall þeirra sem glímdu við afkomuerfiðleika úr rúmum 23% í 44%. 

Í báðum hópum varð mikil aukning, en erfiðleikar voru og eru mun algengari hjá láglaunafólkinu – og jukust mest þar.

IV Auknar þrengingarnar bitna mest á verkakonum

Að lokum skoðum við stöðu kvenna í þessu samhengi, á mynd 4. Þar eru samsvarandi upplýsingar og á mynd 3, en einungis fyrir konur. 

Meðal verkakvenna á höfuðborgarsvæðinu áttu um 43% erfitt með að ná endum saman á árinu 2021 en sl. vor var hlutfallið komið upp í 63%. Hjá vinnandi konum almennt fór hlutfallið úr tæplega 28% í 44% á sama tíma. Kjarastaða heimilanna hefur þannig versnað gríðarlega, en mest hjá láglaunafólki.

Verkafólk tekur þannig á sig mesta skellinn vegna verðbólgunnar og þeirra úrræða sem seðlabankinn og stjórnvöld beita í hagstjórn sinni. Útkoman er leiftursókn gegn lífskjörum láglaunafólks.

Konur eru í meiri mæli í láglaunastörfum en karlar og finna þær því meira fyrir vaxandi erfiðleikum við að ná endum saman en karlar, þó í sjálfu sér muni ekki miklu á þessu hjá verkakonum og verkakörlum. 

Munur milli stétta verkafólks og hærri stétta er það sem mestu máli skiptir. Konur þjappast í meiri mæli í lægst launuðu störfin en karlar og það viðheldur kynjamun í launum. Ef dregið er úr þessum stéttamun, og láglaunastörf almennt hækkuð meira en betur launuð störf, þá mun það draga úr kynjamun launa.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí