Fyrstu viðbrögð við þeim stórtíðindum þessa þriðjudagsmorguns, afsögn Bjarna Benediktssonar úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra, má segja að skiptist í tvennt. Flestir, bæði meðal samherja Bjarna og mótherja, taka tíðindunum fagnandi, enda séu þau til marks um nauðsynlegan heiðarleika í stjórnmálum. Aðrir eru á því að fiskur hljóti að leynast undir steini, eitthvað viti Bjarni sem almenningur viti ekki, eða gangi eitthvað til sem hann skilur eftir ósagt, hann sé ekki stjórnmálamaður af þeim toga sem taki jafn ærlega ákvörðun og þessi virðist vera.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, virðist í fyrri hópnum. Hann skrifar á Facebook að það sé mat hans, „algerlega óháð því hvar fólk er statt í pólitík að þá sé ekki hægt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að ákvörðun fjármálaráðherra að segja af sér embætti séu risastór jákvæð tíðindi fyrir íslenskt samfélag.“ Með ákvörðuninni segir Vilhjálmur að fyrrverandi fjármálaráðherra gefi „skýr fordæmi um að ráðherrum ber að virða niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis og annarra ríkisstofnanna sem telja að ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum eða góðri stjórnsýslu.“
Til þessa, segir Vihjálmur, hefur það „verið lenska hjá íslenskum stjórnmálamönnum oft á tíðum að hunsa álit Umboðsmanns og jafnvel niðurstöðu dómstóla. Með þessari ákvörðun hjá fjármálaráðherra hafa verið mörkuð ný viðmið þar sem ráðherrum ber að axla ábyrgð ef ekki er farið eftir lögum eða reglum sem gilda í þessu landi.“
Þetta mat sitt leggur Vilhjálmur þó fram með annað markmið í huga sjálfur, og virðist að því leyti ekki alfarið jafn óstrategískur og hann ætlar Bjarna að vera. Vilhálmur segir að það verði fróðlegt að sjá „hver viðbrögð matvælaráðherra verða þegar álit Umboðsmanns mun liggja fyrir varðandi tímabundið bann við hvalveiðum en margir lögspekingar telja að ráðherra hafi brotið stjórnsýslulög illilega með þeirri ákvörðun sólarhring áður en veiðar áttu að hefjast.“
Sú tilgáta heyrist nú víða, eins og þegar hefur verið getið, að eitthvað í þessa veru gangi Bjarna Benediktssyni í raun til. Óháð ásetningi Bjarna má ráða af orðum Vilhjálms að margir séu reiðubúnir að nýta sér afsögnina til að gera kröfu um að Svandís víki ef og þegar … ekki vegna spillingarmála heldur hvalaverndar.