Tesla vill enn banna starfsfólki í verksmiðjum að ganga í bolum stéttarfélaga

Hugsanlegt er að stjórnendur bílaframleiðandans Tesla mega banna verksmiðjustarfsfólki að ganga í bolum sem sýna merki stéttarfélaga eða taka undir kröfu um stofnun stéttarfélaga, og geti fengið fyrri úrskurði um málið hnekkt.

Vinnumarkaðsráð úrskurðaði starfsfólki í vil

Áfrýjunardómstóll í New Orleans í Bandaríkjunum tók málið til athugunar með undirbúningsyfirheyrslum á miðvikudag í liðinni viku, og yfirheyrði lögfræðinga beggja aðila málsins, það er Tesla verksmiðjanna annars vegar og stéttarfélagsins UAW hins vegar. Tesla sækist nú eftir að áfrýja málinu til dómstólsins eftir fyrri úrskurð National Labor Relations Board (NLRB), sem kalla mætti Vinnumarkaðsráð Bandaríkjanna.

Lögfræðingar Tesla segja verksmiðjustarfsfólkinu skylt að ganga í einkennisbúningum fyrirtækisins, þar með talið svörtum bolum eða skyrtum með merki fyrirtækisins. NLRB komst að þeirri niðurstöðu í ágúst á síðasta ári að sú krafa fyrirtækisins fæli í sér lögbrot, þar sem engar „sérstakar kringumstæður“ réttlættu að takmarka klæðaburð starfsmanna með þeim hætti: inni í verksmiðjunum þjónaði það hvorki ímynd fyrirtækisins né öryggiskröfum.

Eru ekki límmiðar nóg?

Við yfirheyrslurnar á miðvikudag létu dómarar að því liggja að hugsanlega hafi Tesla ekki þurft að sýna fram á slíkar sérstakar kringumstæður, því fyrirtækið bannaði aðeins boli stéttarfélaga en ekki límmiða og barmmerki. „Límmiði getur sagt „áfram stéttafélag“ eða „stéttarfélög eru góð“ eða hvað sem er. Á hvaða hátt er það ekki nægur tjáningarmáti?“ spurði dómarinn Jerry Smith fulltrúa vinnimarkaðsráðsins, Micah Jost.

Jost svaraði því til að stefna fyrirtækisins leyfði ekki starfsfólki berum orðum að bera barmmerki eða merki stéttarfélagsins og að límmiðarnir sem sumir starfsmenn hafi borið hafi verið smáir og haft minni áhrif en stuttermabolur myndi gera. Reuters greindi frá.

Víðtæk barátta Tesla gegn stéttarfélögum

Fleiri mál sem varða baráttu starfsfólks Tesla fyrir stofnun stéttarfélags liggja fyrir dómstólnum. Í aðskildu máli mun hann einnig taka til skoðunar umsókn Tesla um áfrýjun í fyrri ákvörðun vinnumarkaðsráðsins, sem úrskurðaði að forstjóri fyrirtækisins, Elon Musk, hefði brotið alríkislög um vinnumarkaðsmál þegar hann tilkynnti árið 2018 að starfsmenn myndu ekki eiga kost á að eignast hluti í fyrirtækinu ef þeir gengju í stéttarfélag.

Stéttarfélagið sem um ræðir, United Automobile Workers eða UAW, hóf í liðinni viku verkföll í vinnudeilu við þrjá aðra bandaríska bílaframleiðendur. Verkfallið er ótengt Tesla, í þeim skilningi að Tesla neitar starfsfólki sínu um aðild að stéttarfélögum – sem þar með varðar hins vegar vitaskuld stéttarfélagið. UAW var stofnað fyrir 88 árum. Aðild að félaginu er útbreidd í hefðbundnum bílaiðnaði í Bandaríkjunum. Fyrir liggur, hins vegar, að hefðbundnir bílaframleiðendur færa sig nú einnig í auknum mæli í átt að framleiðslu rafbíla. Meðal þess sem stéttarfélagið krefst er réttindum starfsfólks innan iðnaðarins muni ekki hraka við þá tilfærslu og að starfsfólki í verksmiðjum sem framleiða íhluti í rafbíla, á við rafhlöðurnar sjálfar, verði heimilað að ganga í stéttarfélög.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí