Ekki vitað hversu margir tilheyra áhættuhópum vegna Covid-19 á Íslandi

Ekki er ljóst hversu margir íbúar á Íslandi tilheyra áhættuhópum eða eru með undirliggjandi heilsufarsbrest sem getur valdið alvarlegum afleiðingum af Covid-19.

Árið 2021 voru forgangshópar í bólusetningu vegna Covid-19 skilgreindir og náðu þá til alls 42.000 manns undir sextugu, auk allra yfir þeim aldri. Sú skilgreining var frekar víð, þar sem ýmsir þættir, til dæmis fíknisjúkdómar, þóttu draga úr líkum á að viðkomandi fylgdi leiðbeiningum um aðrar sóttvarnir, frekar en að í öllum tilfellum væri um að ræða aukna áhættu á alvarlegum veikindum sérstaklega. Síðan þá hefur embætti sóttvarnalæknis ekki skilgreint áhættuhópa vegna sjúkdómsins og ekki ljóst hversu margir íbúar á Íslandi teljast sérstaklega útsettir fyrir alvarlegum veikindum.

Þessu svaraði Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir, spurningu blaðamanns, í tilefni af því að bandarísk sóttvarnayfirvöld segja meirihluta þarlendra tilheyra áhættuhópum vegna Covid-19 og mæla því með nýrri bólusetningu við alla íbúa landsins, frá 6 mánaða aldri. Hér á landi verður í haust aðeins miðað við bólusetningar fólks yfir sextugu, auk sérstakra áhættuhópa sem þó er, samkvæmt þessu, ekki ljóst hversu margir tilheyra.

„Nánast allir hafa fengið grunnónæmi“

Aðspurð hvort til greina kemur að útvíkka bólusetningarátakið segir Guðrún að mælt sé með endurbólusetningu áhættuhópa til að draga úr hættu á alvarlegum veikindum meðal þeirra. Einnig er mælt með bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna í nánd við áhættuhópa „til að draga eins og kostur er úr veikindafjarvistum þeirra þótt áhrifin séu skammvinn.“ Bóluefnið dragi hins vegar „ekki úr smithættu nema að litlu leyti“ og því sé „ekki gagnlegt að endurbólusetja allan almenning sem ekki er í sérstakri hættu á alvarlegum veikindum, úr því að nánast allir hafa fengið grunnónæmi, ýmist vegna fyrri bólusetningar, smits eða blöndu af báðu.“

Guðrún bætir því þó við að læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk hafi „tök á að meta áhættu einstaklinga og hvetja til bólusetningar út fyrir viðmiðin sem sóttvarnalæknir gefur út, vegna sérstakra aðstæðna einstaklinga sem falla ekki í auðskilgreinda áhættuhópa, eða ef sérfræðingur telur ákveðinn sjúklingahóp í aukinni áhættu þótt sóttvarnalæknir hafi ekki birt það sérstaklega.“

Gagnsemi bólusetningar „minni fyrir ungt fólk“

Aðspurð nánar hvað ráði þeirri niðurstöðu að embættin mælist ekki til almennrar bólusetningar meðal fólks undir sextugu, hvort það sé af hagkvæmnisástæðum eða vegna aukinnar hættu á aukaverkunum, svarar Guðrún því til að gagnsemin af endurbólusetningu sé minni „fyrir hraust fólk undir sextugu en fólk með undirliggjandi sjúkdóma.“ Hún segir fólk yfir sextugu vera „með aukna áhættu á alvarlegum veikindum en yngra fólk almennt, þótt ekki komi til undirliggjandi sjúkdómar.“ Þá sé tíðni tiltekinna aukaverkana, að minnsta kosti af mRNA bóluefnum, hærri hjá yngra fólki en eldra. Til dæmis nefnir hún hjartavöðvabólu, „þó tíðnin sé lág, en hér á landi og víðast hvar hafa þau veikindi ekki verið svo alvarleg að það sé beinlínis ástæða til að mæla gegn bólusetningu ef fólk óskar eftir henni.“

Hvort fólk undir sextugu muni þá geta sóst eftir bólusetningu með uppfærðu bóluefni svarar Guðrún þó að ekki sé „gert ráð fyrir því að bóluefni verði aðgengilegt fólki sem ekki er í aukinni áhættu eins og er. Ef tilefni verður til að breyta því, þá verða gefnar út tilkynningar um það.“

Upplýsingamiðlun um faraldurinn

Í ljósi þess að bæði innlend og erlend gögn gefa ljóslega til kynna að undanliðnar vikur hafi smitum farið fjölgandi og það sem áður hét „bylgja“ sé í gangi, þó að nú sé gögnum hvorki safnað, miðlað, né slíkt orðfæri notað um endurtekna og viðvarandi útbreiðslu sjúkdómsins, þá innti blaðamaður embætti Landlæknis eftir svörum í liðinni viku. Sóttvarnalæknir brást við spurningunum í dag, mánudag.

Hafi mörgum þótt nóg um upplýsingamiðlun stjórnvalda þegar sóttvarnir stóðu hæst vegna Covid-19 faraldursins, þá hefur staðan sannarlega snúist við, nú einu og hálfu ári eftir að sóttvarnir á vegum yfirvalda voru að mestu leyti felldar niður. Þrátt fyrir greið og fúsleg svör sóttvarnalæknis við spurningunum að ofan fengust ný gögn um stöðu faraldursins ekki frá embættinu, heldur vísaði Guðrún til gagna sem birt voru þann 13. september. Þá lét hún vita að á „flensutímabilinu“ muni birtast vikulegar fréttir um öndunarfærasýkingar og fylgjast megi með þeim á vef embættisins. Loks vísaði hún á það sem verður að segjast að er óvenju óþjál vefslóð, þar sem embættið miðlar gögnum um dánartíðni og umframdánartíðni. Nýjustu gögn á síðunni eru frá júlímánuði.

Gögn yfir innlagnir eru nú í höndum Landspítala, útskýrði Guðrún nánar, og fær sóttvarnalæknir þær upplýsingar ekki beint til sín „þó það hafi verið þannig þegar faraldur stóð sem hæst“. Stofnanirnar séu í samtali en sóttvarnalæknir hafi ekki tölur frá degi til dags. Hún tilgreindi þó að síðustu tvær vikur hafi innlagðir með Covid verið um tvöfalt fleiri á Landspítalanum en í sumar.

Bandarískir sósíalistar safna gögnum um faraldurinn

Bandarískir sósíalistar eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt niðurfellingu sóttvarna og upplýsingamiðlunar um faraldurinn þar í landi. Þó hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum ekki gengið svo langt að fella alfarið niður upplýsingamiðlun á síðunni covid.gov, en samsvarandi miðill á Íslandi, covid.is, er nú fyrir löngu úr sögunni. Þá má nefna að fyrir viku síðan tilkynntu bandarísk stjórnvöld að almenningur geti pantað hraðpróf og fengið þau send heim án endurgjalds, en það er liður í aðgerðum stjórnvalda gegn yfirstandandi bylgju.

Bæði upplýsingamiðlun og sóttvarnir í þágu lýðheilsu eru þó í skötulíki nú, segja gagnrýnendur. Fréttamiðillinn WSWS hefur boðað rannsókn á faraldrinum með þátttöku verkafólks víða um heim, til að brjótast í gegnum upplýsingamóðuna, sem blaðamenn miðilsins segja að hafi valdið milljónum fyrirbyggjanlegra dauðsfalla frá því að faraldurinn hófst.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí