Í liðinni viku tilkynnti forsetaembætti Bandaríkjanna um að stjórnvöld myndu verja 600 milljónum dala í að kaupa hraðpróf til greiningar á Covid-19 og senda heim til almennings endurgjaldslaust. Bandarísk stjórnvöld gera ráð fyrir að senda 200 milljón slík próf heim til fólks þetta haust. Dreifing hraðprófanna þar í landi hefst í dag, mánudag.
Xavier Becerra, heilbrigðisráðherra landsins, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var af því tilefni að Joe Biden forseti, „vildi ganga úr skugga um að enginn þurfi að vera án prófs. Við munum aftur hrinda af stað áætlun til að tryggja að allir Bandaríkjamenn hafi aðgang að prófi.“
Frá þessu er greint í öllum helstu fjölmiðlum vestanhafs.
Stjórnvöld enn að glíma við faraldurinn
WSWS, einn helsti fjölmiðill sósíalista í Bandaríkjunum, bendir á að ákvörðunin feli í sér játningu þess að faraldrinum sé ekki lokið, hvað sem líður yfirlýsingum stjórnvalda í þá veru. Í umfjöllun miðilsins kemur fram að 47.000 manns létust af völdum sjúkdómsins í Bandaríkjunum á fyrstu átta mánuðum ársins. Umreiknað eftir íbúafjölda er það er um tvöfalt hærri dánartíðni en á Íslandi, þar sem staðfest er að 23 létust af völdum Covid-19 á fyrstu sjö mánuðum ársins 2023.
Fyrir tveimur vikum síðan tilkynntu bandarísk stjórnvöld að nýuppfærð bóluefni gegn sjúkdómnum verði boðin flestum íbúum Bandaríkjanna endurgjaldslaust í haust, og öllum yfir 6 mánaða aldri ráðlagt að þiggja bólusetningu. Þar eru bólusetningar hafnar. Á Íslandi hafa embætti Landlæknis og Sóttvarnalæknis tilkynnt að nýuppfærð bóluefni eins framleiðanda muni bjóðast íbúum yfir sextugu og öðrum sem teljast til áhættuhópa.
Blaðamenn WSWS vísa til sérfræðinga sem saka bandarísk stjórnvöld um að stefna lífi og heilsu almennings í hættu með því að gera lítið úr því tjóni sem faraldurinn veldur enn í dag, og bregðast þeirri skyldu sinni að grípa til skilvirkari varna, þar sem sýnt sé að þrátt fyrir gagnið sem bóluefni gera ráði þau ekki ein og sér niðurlögum faraldursins.
Upplýsingamiðlun stjórnvalda
Heimsendu, endurgjaldslausu hraðprófin geta íbúar Bandaríkjanna pantað á síðunni covid.gov, óháð sjúkratryggingum.
Samsvarandi upplýsingavefur sem íslensk stjórnvöld opnuðu á meðan þau viðhöfðu sóttvarnir, covid.is, hefur verið lagður niður. Þær upplýsingar sem íslensk stjórnvöld veita þó um stöðu faraldursins birtast nú á vefsvæði Landlæknis.