Marinó G. Njálsson samfélagsrýnir bendir á í pistli sem hann birtir á Facebook að Arion banki hafi ákveðið að hækka verðtryggða vexti í annað sinn á örstuttum tíma. Marinó segir að ekki verður betur séð en að bankarnir séu að bregðast við því að sífellt fleiri heimili séu að færa lán sín úr nafnvaxtalánum yfir í verðtryggð lán.
Hér fyrir neðan má lesa pistilinn í heild sinni.
Arion banki hefur ákveðið að hækka verðtryggða vexti sína í annað sinn á 6 vikum eða svo. Fyrst hækkuðu þeir breytilega verðtryggða úr 2,79% í 3,29%, en núna fara þeir í 3,79%. Samtals hafa vextirnir hækkað um 35,8% á þessum sex vikum, sem er vel í lagt. Fastir verðtryggðir vextir hafa líklegast líka hækkað um 100 punkta úr 2,74% í 3,74% sem gerir 36,5% hækkun. (Ég segi líklegast, þar sem þróun fastra, verðtryggðra vaxta er ekki að finna á vef bankans.)
Skýringar Arion banka eru að fjármögnunarkjör hafi versnað og ávöxtunarkrafa hafi hækkað.
Ekki verður betur séð, en að „markaðurinn“ sé að bregðast við því, að sífellt fleiri heimili eru að færa lán sín út nafnvaxtalánum í verðtryggð lán. Einnig er mikil samkeppni á innlánsmarkaði, þar sem bankarnir eru að keppa um verðtryggð innlán.
Er ekki peningastefna Seðlabankans stórkostleg? Fyrst hækka vextir bankans nafnvexti lána svo mikið að fólk er að kikna undan vaxtabyrðinni. Fjármálaráðgjafinn, sem jafnframt er seðlabankastjóri, veitir í framhaldinu þá ráðgjöf, að fólk eigi að skipta yfir í verðtryggð lán. „Markaðurinn“ tekur þessari ráðgjöf fengins hendi og hækkar verðtryggða vexti sína um rúmlega þriðjung á 6 vikum.
Er ekki heimurinn dásamlegur fyrir fjármálavaldið? Það finnur alltaf nýja leið til að kúga heimilin!
Vaxtahækkunin frá því í águst kostar þann sem er með 10 m.kr. verðtryggt lán á breytilegum vöxtum 100.000 kr. á ári og síðan margfeldi af því fyrir aðrar upphæðir. Þetta er fyrir utan milljónina sem bættist á höfuðstólinn, vegna verðbólgunnar.
„Góðu“ fréttirnar eru að fastir nafnvextir lækka í 9,6%, en breytilegir nafnvextir verða áfram 10,89%. Samkvæmt þessu eru nafnvaxtalánin hagstæðari en verðtryggðu lánin, hafi fólk greiðslugetuna til að borga af þeim.